Klausturselsvirkjun – 50 vindmyllur, 250 MW
Grein/Linkur: Vilja reisa 40-50 vindmyllur í nágrenni Stuðlagils
Höfundur:
.
.
Febrúar 2022
Vilja reisa 40-50 vindmyllur í nágrenni Stuðlagils
Um 40-50 vindmyllur munu rísa í landi Klaustursels í Jökuldal gangi áform Zephyr Iceland eftir. Vindorkuverið yrði í nálægð við Kárahnjúkavirkjun og þar með flutningsnet raforku en einnig í grennd við hinn geysivinsæla ferðamannastað, Stuðlagil.
Fyrirtækið Zephyr Iceland áformar að reisa í áföngum vindorkuver í landi Klaustursels í Jökuldal og mun 1. áfangi verða 40-50 MW en lokastærð versins gæti orðið allt að 250 MW. Þá yrðu 40-50 vindmyllur reistar á svæðinu, hver um 200 metrar á hæð. Stuðlagil, einn vinsælasti ferðamannastaður Íslands síðustu árin, er næsta nágrenni hins fyrirhugaða framkvæmdasvæði
Í lok janúar var haldinn forsamráðsfundur fulltrúa Zephyr, Múlaþings og Skipulagsstofnunar um áformin. Á þeim fundi vakti Sigurður Jónsson, skipulagsfulltrúi Múlaþings, athygli á nálægðinni við Stuðlagil sem ekki var getið í skýrslu þeirri um Klausturselsvirkjun sem Zephyr lét útbúa fyrir Orkustofnun er sóst var eftir að kostinum yrði skilað inn til meðferðar hjá verkefnisstjórn 4. áfanga rammaáætlunar. Sagði Sigurður mikilvægt að athuga með sýnileika vindmyllanna frá hinum geysivinsæla ferðamannastað.
Allir geta komið að athugasemdum um framkvæmdir í forsamráði og skal framkvæmdaaðili gera grein fyrir slíkum athugasemdum í matsáætlun um framkvæmdina sem er eitt fyrsta skefið í átt að mati á umhverfisáhrifum.
Meðal verkefna Zephyr til þessa eru t.a.m. vindorkuverið Tellenes (um 160 MW) sem reis sumarið 2017 og selur raforkuna til Google og vindorkuver á Guleslettene (um 200 MW) sem reis sumarið 2020 og selur raforkuna til Alcoa.
Íslenska fyrirtækið Hreyfiafl er einnig hluthafi í Zephyr Iceland. Hreyfiafl er í eigu Ketils Sigurjónssonar, sem jafnframt er framkvæmdastjóri Zephyr Iceland.
Svæðið þar sem Klausturselsvirkjun er fyrirhuguð liggur innan jarðarinnar Klaustursels í sveitarfélaginu Fljótsdalshéraði. Framkvæmdasvæðið yrði á Fljótsdalsheiði vestanverðri.
Um svæðið liggur háspennulína Landsnets en auk þess er nú verið að reisa öflugri háspennulínu, Kröflulínu 3, samhliða hinni eldri. Báðar línurnar tengjast tengivirki við Kárahnjúkavirkjun.
Helstu stórnotendur raforku í nágrenni Fljótsdals eru álverið á Reyðarfirði og fiskimjölsverksmiðjur, en einnig er t.a.m. Eyjafjarðarsvæðið og kísilverksmiðjan á Bakka tengd flutningskerfinu. Vegna nálægðar við Kárahnjúkavirkjun og hafnarinnar á Reyðarfirði eru góðir innviðir til undirbúnings og uppbyggingu vindorkuversins til staðar að mati framkvæmdaaðila. „Á undirbúningstíma virkjunarinnar verður afar lítið rask á heiðinni því unnt er að nýta fyrirliggjandi vegslóða sem þar eru,“ sagði m.a. í gögnum sem skilað var inn vegna virkjanakostsins til mats í rammaáætlun. Þegar kæmi að því að reisa vindmyllurnar yrði sá vegslóði styrktur eða byggður nýr vegur á heiðinni.
Fljótsdalsheiði er víðfeðmt heiðarland milli Jökuldals og Fljótsdals. Jörðin Klaustursel liggur í og upp af Jökuldal og jörðinni tilheyrir víðáttumikið land uppi á heiðinni. Sá hluti Fljótsdalsheiðar þar sem virkjunin er fyrirhuguð er nokkuð innarlega á heiðinni. „Með því eru sjónræn áhrif virkjunarinnar frá byggð lágmörkuð og um leið má gera ráð fyrir að dragi úr ísingu eftir því sem kemur innar á heiðina, en þar er víðáttumikið fremur flatlent svæði,“ segir í gögnum Zephyr Iceland.