Brunavarnir – Vatnsúðakerfi heimahúsum

Grein/Linkur: Það er erfitt að vekja Þyrnirós

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

bruni-heima-a

.

Desember 2006

Það er erfitt að vekja Þyrnirós

Undanfarið hafa orðið miklir brunar í heimahúsum, svo afdrifaríkir að mannskaði hefur af hlotist. Á hverju ári brennur upp andvirði eins og hálfs milljarðs íslenskra króna og svo virðist sem þessi þjóð líti á húsbruna sem óumflýjanlegar náttúruhamfarir eins og eldgos og jarðskjálfta. Áróður fyrir betri brunavörnum virðist eiga takmörkuðum skilningi að mæta. Flestir hugsa í sófanum eins og í bílnum úti á þjóðvegi; það kemur ekkert fyrir mig. En því miður, á hverju ári hafa einhverjir fundið fyrir því hvernig er að missa eigur sínar, fyrirtæki og rekstur, ekki síst í fiskiðnaði, en einnig hafa sumir misst heimili sitt og alla persónulegu hlutina sem höfðu svo óendanlega mikið gildi þó það verði ekki í krónum talið.

Það er ekki í fyrsta skipti sem brunavarnir eru nefndar í þessum pistlum og þó almennt sé landinn ekki ginnkeyptur fyrir áróðri brunavarna er engin ástæða til að láta deigan síga. Það fyrsta einfalda sem kemur upp í hugann er viðvörunin, svo einföld sem hún er og ódýr. Einn lítill skynjari í lofti getur miklu bjargað og þar er ekki verið að tala um mikil fjárútlát. Þær fáu krónur sem þar fara úr buddunni gætu bjargað erfðagripum sem oft eru miklar tilfinningar tengdar við og ekki síður myndaalbúmunum, brúðkaupsmyndunum, myndum af börnunum að vaxa úr grasi, ekki síður myndum af barnabörnunum og myndum af skemmtilegum og eftirminnilegum atvikum lífsins.
Fyrir atvinnuhúsnæði, hvort sem það er iðnaðar- eða skrifstofubyggingar, eru aðallega tvö brunavarnakerfi í boði hérlendis og þeim hefur verið lýst í þessum pistlum, sprinklerkerfi sem bera nöfnin Viking og Victaulic. Vissulega hefur þeim fjölgað sem hafa skilning á þýðingu þess að setja upp frodukerfisprinklerkerfi. Örstutt lýsing á slíkum kerfum, sem einnig eru stundum nefnd vatnsúðakerfi, er þannig að þetta eru lagnakerfi sem eru með túðum hvarvetna í lofti. Þegar hiti fer upp fyrir ákveðin mörk springur glerið í túðunum og vatnsúði breiðist úr hverri túðu, slökkvistarfið er hafið þó slökkviliðið sé ekki komið á vettvang.

Vatnsúðakerfi fyrir heimahús eru í hraðri þróun í nágrannalöndum en þar erum við tæpast komin í startholurnar. Það hefur komið hér í pistli lýsing á sænska Wirsbo sprinklerkerfinu fyrir heimahús, einföldu kerfi sem einfaldlega tengist kalda kranavatninu. Það er opinber stefna Wirsbo að kerfi þeirra hefur ekki fyrst og fremst það markmið að bjarga verðmætum, þó það sé bónus ef eitthvað kemur upp á, heldur miklu fremur að bjarga mannslífum.

Veitingahús, eða réttara sagt stóreldhús, geta verið hættulegir staðir ef eldur kemur upp, miklu frekar en þar sem er ýmis annars konar starfsemi. Í stóreldhúsum og skyndibitastöðum er mikill og hættulegur eldsmatur, sjóðandi heit steikingarfeiti þarf ekki að hækka mikið í hita til að í henni kvikni og þá er voðinn vís. Við slíka elda á aldrei að nota vatn við slökkvistarf, þar gildir ekki hefðbundið sprinklerkerfi. Það fyrsta sem grípa á til er eldvarnateppi, eld í fitu verður að kæfa, umfram allt að koma í veg fyrir að eldurinn geti sogað til sín súrefni úr umhverfinu, enginn bruni getur án súrefnis verið.

bruni-heimaEn á slíkum stöðum er hægt að setja upp eldvarnakerfi sem ekki byggist á vatni heldur úðar kerfið froðu yfir eldinn. Ansul R-102 er froðuslökkvikerfi sem Securitas hf. býður stöðum þar sem eldhætta er mikil vegna eldunar og notkunar á eldfimum efnum. Kerfið vinnur mjög líkt vatnsúðakerfum. Það þrýstir slökkvifroðu í gegnum rör líkt og önnur slökkvikerfi þrýsta vatni. og dreifir henni yfir djúpsteikingarpotta, inn í síur eldhúsháfsins og upp í loftstokka. Froðan er kælandi og þekur brennandi feitina og hindrar aðstreymi lofts, veldur efnahvarfi sem rýfur brunaferlið. Um leið og þessar björgunaraðgerðir hefjast rýfur stjórnskápurinn rafstraum að eldunartækjum og lokar fyrir gasleiðslur.

Hve útbreidd slík fullkomin brunavörn er á veitingahúsum skal ósagt látið en miðað við eðli Íslendingsins er harla ólíklegt að meiri hluti veitingahúsa hérlendis sé með svo fullkomna brunavörn, kannski eru þau örfá.

En framundan eru viðsjárverðir tímar þegar myrkrið er í hámarki og ljósadýrðin einnig. Ljósin eru að mestu leyti raflýsing en kertunum fjölgar ört í skammdeginu og um jólahátíðina.

En Þyrnirós sefur fast, það þarf meira en koss á kinn til að Íslendingar hlaupi upp til handa og fóta til að koma brunavörnum í lag hver í sínum ranni. Á meðan andvaraleysið er viðvarandi getur ekki öðruvísi farið en að eldsvoðar verði margir en vonandi aðeins með skaða á húsum og þeim gæðum og gögnum sem þeim fylgja. Slíkt er oftast hægt að bæta og endurnýja en það er rétt að muna það að hver maður á ekki nema eitt líf, glatist það verður það ekki endurnýjað.     

Fleira áhugavert: