Gólfhitakerfi – Margs er að gæta

Grein/Linkur: Margs er að gæta við lögn gólfhitakerfa

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

golfhiti

.

Apríl 2007

Margs er að gæta við lögn gólfhitakerfa

 Það var ítarleg umfjöllun um gólfhitakerfi í „Blaðinu“ sem var fróðleg og upplýsandi að langmestu leyti. Það er vissulega ánægjulegt að víðar sé fjallað um þetta ágæta hitakerfi, svo og önnur, en hér í þessum pistlum. Hér verður tekið það bessaleyfi að birta orðrétt úr Blaðinu þessa klausu sem hefur mikið sannleiksgildi um hvernig við upplifum gólfhita:

„Húðin á fótum okkar, líkt og á fingurgómunum, er mjög þunn sem gerir það að verkum að kalt gólf er fljótt að hafa áhrif á hitastig líkamans. Því er það oft þannig að fólk finnur mikla kuldatilfinningu ef það stendur á köldu gólfi, jafnvel þó lofthiti sé í samræmi við hitaóskir fólks. Þetta gildir sérstaklega fyrir húsnæði sem hafa köld gólfefni á við steinflísar. Í þeim tilfellum getur gólfhiti gert hálfgert kraftaverk því um leið og fætur stíga á hlýtt gólf hverfur kuldatilfinningin.“

Þetta er rétt, en álitamál kann að vera um kraftaverkið, iljarnar eru besti hitanemi líkamans. En þessi hitanemi hefur ekki vítt svið. Ef yfirborðshiti gólfsins fer yfir 27 – 28°C þá fer okkur að finnast hitinn ekki eins þægilegur og óþægindatilfinningin eykst eftir því sem yfirborðshitinn eykst. Neðri mörkin eru í rauninni allur yfirborðshiti undir 17 -18°C, þá finnst okkur vanta varma. Þettahitanæmi iljanna er auðvelt að sannprófa í heita pottinum. Ef við förum í verulega heitan pott, segjum 42°C sem kann að vera erfitt að þola í byrjun, þá er ágætt ráð að lyfta fótum upp úr vatninu og finna hvað gerist, okkur finnst hitastig vatnsins skyndilega hafa lækkað um svo sem tvær gráður.

En svo kemur að því að vera neikvæður því í þessari annars ágætu grein eru fullyrðingar sem ekki standast og nauðsynlegt er að leiðrétta, þar stendur“Á meðan ofnarnir dæla út heitu lofti sem safnast saman við gólfið á meðan kalda loftið safnast saman fyrir ofan það þá hefur gólfhitinn þveröfug áhrif“.

Þarna er náttúrulögmálinu hnikað allhressilega til. Heitt loft frá ofnum safnast ekki saman við gólfið, heita loftið leitar alltaf upp því það er léttara en kaldara loft. Þar sem ofnar eru, er loftið kaldast við gólfið og heitast upp við loft. Því má einnig skjóta inn í að munurinn á hitanum við gólf og loft er umtalsvert meiri ef ofnarnir eru við innvegg en ekki undir gluggum. Þá segir í grein Blaðsins:“Einnig er það kostur að ólíkt hefðbundnum heitavatnsofnum þá er hægt að hafa gólfhitakerfi án þess að hitaveitu njóti við“.

Það er vissulega hægt að hafa gólfhitakerfi í húsum utan hitaveitusvæða, þá er hitagjafinn oftast rafmagnstúba, en það er ekkert því til fyrirstöðu að hita ofnakerfi á sama hátt.Þetta þykja kannski ekki mikilvægar athugasemdir en miðað við hvað margir hafa hnotið um þessi atriði þá taldist rétt að fjalla svolítiðum þær.

Þá aftur að parketlögn yfir gólfhitakerfi.

Það er ekki langt síðan að það birtist pistill um gegnheilt parket lagt á „Floore“ gólfhitakerfi en það kerfi hækkar gólfið mjög lítið og er því talsvert notað þegar gólfhiti er lagður í eldri hús og ekki er hægt að breyta lofthæðinni.Það sem þar var sýnt í máli og myndum var að parketið hafði gliðnað og verpst. Þar var því haldið fram að parketið hefði ekki náð að laga sig að þeim hita sem frá gólfhitanum stafaði og það væri orsökin.

Ekki voru allir sáttir við það en þrátt fyrir áskoranir láta engir, sem sérþekkingu kunna að hafa, heyra í sér. Hér er of mikið í húfi fyrir þá sem gólfhitakerfi selja og leggja, ekki síður fyrir þá sem selja og leggja parket, of mikið vandamál til að þegja það í hel.

Vandamálið er staðreynd og við því verður að bregðast, það þýðir ekki að sitja út í horni og þegja og hugsa sem svo „ekki benda á mig“.

Það er ekki hægt að bjóða húseigendum upp á að nýlegt parket gliðni og verpist, orsökina er hægt að finna og þar bera margir ábyrgð.

Fleira áhugavert: