Albert Einstein – Eðlisfræði eða pípulagnir
Grein/Linkur: Merkir lagnamenn
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
.
Apríl 2005
Merkir lagnamenn
Streymandi heitt vatn úr jörðu og gjósandi hverir hafa án efa heillað fyrstu landsnámsmenn Íslands. Hinsvegar sýna margar nafngiftir landnámsmanna að þeir skildu hvorki upp né niður í þessari furðu. Í fyrstu héldu þeir að eitthvað væri að brenna og upp stigi reykur, eða heitir ekki okkar ágæta höfuðborg Reykjavík?
Ekki fer miklum sögum af því að menn hafi nýtt sér þessi gæði, þó kemur fyrir í sögum að sagt er að menn hafi gengið til lauga, eflaust í þeim tilgangi að þvo sér vandlega. Hins vegar er ekki mikið rætt um að heita vatnið hafi verið notað til að koma upp laugum til sunds, þó víst sé að margir landnámsmenn hafi verið syndir vel og jafnvel líkt við seli í þeirri íþrótt.
Margar nafnkunnar persónur þekktu og nýttu sér þægindi heita vatnsins, má þar nefna tvo fræga Íslendinga, ólíka þó, þá Snorra Sturluson og Fjalla-Eyvind. Annar einn ríkasti maður sinnar samtíðar en hinn hundeltur, örsnauður útlagi.
Engum sögum fer af því að lengst af frá landnámi til okkar tíma hafi menn reynt að nýta sér jarðvarmann til að hita upp hýbýli. Enga tækni þekktu menn til að beisla heita vatnið og því síður voru ráð til að flytja það, rörin voru ekki komin til landsins og þar af leiðandi engir lagnamenn hérlendis.
Ein öld er ekki langur tími í sögu mannkyns og ef sagan er skoðuð kemur í ljós að nýting heita vatnsins hafði engum framförum tekið þegar fyrsti íslenski ráðherrann tók við völdum 1904. Einmitt um svipað leyti, eða nokkru fyrr, fóru menn að nota rör á Íslandi til að leggja hitakerfi í hús. Þrátt fyrir það var eins og enginn kæmi auga á þá gífurlegu möguleika sem fólgnir voru í því að nýta heita vatnið til húshitunar.
Og þar við sat enn um sinn.
Enginn einn maður fær þá medalíu að vera óumdeilanlega fyrsti fullhuginn til að ráðast í að virkja heita vatnið, þar komu margir fram á sviðið.
Einn stjórnmálamann má þó nefna sem einn öflugasta frumkvöðul að notkun jarðvarmans til húshitunar, hans hefur þó lengst af frekar verið minnst fyrir margt annað eftirminnilegt, bæði jákvætt og neikvætt.
Þessi merki maður var Jónas Jónsson frá Hriflu, maðurinn sem stofnaði bæði Alþýðuflokkinn og Framsóknarflokkinn, maður sem var geysilega ritfær og hafði ótæmandi starfsorku. Einráður þótti Jónas og gafst ekki upp þó á móti blési. Þegar hann varð ráðherra 1927 fór hann með dóms- og menntamál og þar lét hann hendur standa fram úr ermum.
Hann vílaði ekki fyrir sér að reka mann og annan úr störfum. Lagði niður stofnanir og skóp aðrar, oft til að losna við menn sem voru fyrir honum. Þá var ekki búið að stofna Ríkisútvarpið þó skammt væri í það, ef svo hefði verið hefði samvinnuskólagenginn maður án efa orðið fréttastjóri þar á bæ, burtséð frá reynslu.
Þó Jónas vildi fyrst og síðast efla sveitirnar var hann einna fyrstur til að berjast fyrir nýtingu jarðvarma í Reykjavík. Hann benti á hve mikið það mundi spara ef Landspítalinn, sem á þeim tíma var stórhýsi, væri hitaður upp með heitu vatni úr jörðu í stað þess að vera kyntur með kolum.
Hann hrinti því stórvirki í framkvæmd að Sundlaug Reykjavíkur var byggð og þá kom eflaust hans mesta þrekvirki; að stofna og byggja héraðsskóla víðs vegar um landið. En eitt setti hann sem skilyrði; að skóla skyldi byggja þar sem völ var á jarðvarma til að hægt væri að hita upp byggingar og ekki síður til að koma upp sundlaugum.
Jónas Jónsson frá Hriflu hafði ekki sveinsbréf í pípulögnum eða í nokkurri annarri iðn. En eitt er víst að hann var einn merkasti frumkvöðull þess að Íslendingar vöknuðu af sínum langa doðasvefni og fóru að nýta jarðvarmann.
Jónas var merkur lagnamaður.
Úti í heimi var annar merkur maður sem skildi eðlisfræði betur en aðrir.
Hann var þýskur að þjóðerni og hét Albert Einstein. Þegar hann er nefndur dettur flestum eflaust fyrst í hug afstæðiskenningin, þessi margfræga kenning sem oft kemur fram í ræðu og riti en fæstir skilja.
En Einstein lagði meira til mannkyns en þessa kenningu. Án hans hefði þróun og beislun kjarnorkunnar tæplega gerst svo hratt sem staðreynd er. Einstein varð að flýja ofsóknaræði þýsku nasistanna og settist að í Bandaríkjunum og fékk þar allt sem til þurfti til að sinna sínum flóknu vísindum.
Hins vegar fór fyrir Einstein eins og þeim sem sagnir segja að hafi stundað það fyrr á öldum hérlendis að vekja upp drauga og forynjur og missa síðan tökin á uppvakningunum. Þegar Einstein sá til hvers þetta gífurlega afl, kjarnorkan, var þróað var honum öllum lokið. Hann hafði séð fyrir sér margskonar nýtingu til friðsamlegra þarfa öllu mannkyni til farsældar, en eftir að kjarnorkusprengjum var varpað á japönsku borgirnar Hirósíma og Nagasagi brotnaði hann saman. Opinberlega iðraðist hann þess sáran að hafa orðið eðlisfræðingur og unnið að því með sínum einstæðu gáfum að beisla kjarnorkuna.
Einn framhleypinn blaðamaður spurði þá Albert Einstein hvaða lífsstarf hann hefði valið sér ef hann hefði ekki orðið eðlisfræðingur og það stóð ekki á svari „þá hefði ég orðið pípulagningamaður“.
Eina viðurkenningin sem hann fékk fyrir áhuga sinn á iðn pípulagningamanna var sú að Félag pípulagningamanna í Chicago kaus hann umsvifalaust heiðursfélaga.