Vatn – Vöktun á ástandi

Grein/Linkur:  Vöktun vatns

Höfundur: Umhverfistofnun

Heimild: 

.

.

Vöktun vatns

Umhverfisstofnun hefur það hlutverk að vinna áætlun um vöktun á ástandi yfirborðsvatns og grunnvatns auk svæða sem njóta verndar. Vöktun er mikilvægur liður í því að fylgjast með ástandi vatns svo að hægt sé að gera áætlanir um úrbætur í þeim tilfellum þar sem vatnshlot nær ekki góðri ástandsflokkun eða eru metin í hættu á að ná ekki um umhverfismarkmiðum (aðgerðarvöktun). Vöktun er jafnframt notuð í þeim tilgangi að fá upplýsingar um grunnástand vatnshlota (yfirlitsvöktun) eða til að vakta tiltekin efni eða gæðaþætti sem grunur liggur á að valdi því að farið er yfir viðmiðunarmörk (rannsóknarvöktun). Tíðni vöktunar er breytileg eftir því hvaða vöktun er verið að framkvæma t.d. er tíðni vöktunar mun þéttari í tilfelli aðgerðarvöktunar samanborið við yfirlitsvöktun. Almennt er gerð sú krafa að notað sé viðurkennt vinnulag við alla framkvæmd vöktunar og ákveðnum stöðlum fylgt til að tryggja samanburðarhæfni niðurstaðna.

Umhverfisstofnun vinnur að gerð vöktunaráætlunar fyrir Ísland.  Vöktunaráætlun skal veita heildarsýn á ástand vatnshlota. Vöktunaráætlun skal endurskoða reglulega og eigi sjaldnar en á sex ára fresti. Vöktunaráætlun skal taka til viðeigandi vistfræðilegra, vatnsformfræðilegra og eðlisefnafræðilegra gæðaþátta, svo og til vöktunar á magnstöðu grunnvatns.  Nú þegar hafa verið gefnar út vöktunaráætlanir fyrir Mývatn og Þingvallavatn.  Munu þessar tvær vöktunaráætlanir síðar verða hluti af vöktunaráætluninni fyrir Ísland.

Vaktlistinn

Töluvert af lyfjum berst út í umhverfið með frárennsli hér við land. Árið 2018 þá skimaði Umhverfisstofnun fyrir lyfjaleifum og varnarefnum í þremur vatnshlotum á Íslandi með þeim tilgangi að kortleggja útbreiðslu efna sem talin eru ógn við vatnaumhverfi í Evrópu. Sýni voru tekin í sjónum við Klettagarða þar sem stærstu skólpútrásir  höfuðborgarsvæðisins eru, í Varmá neðan við Hveragerði og við bakka Mývatns við Reykjahlíð. Fjögur af þeim sextán efnum sem finna má á sérstökum vaktlista Evrópusambandsins fundust í íslensku umhverfi. Af 20 efnum sem eru á válista í Svíþjóð fundust 15 í sýnum hér á landi.

Lyfjaafgangar fari í apótek

Efnin sem fundust í sýnunum eru Clarithomycin, Diclofenac og Erythromycin sem eru efni sem finnast í sýkla- og bólgueyðandi lyfjum. Að auki fannst kynhormónið Estrógen.

Af þeim 20 efnum sem eru á sænska vaktlistanum fundust 15 í sýnunum sem voru tekin hér á landi. Þar á meðal voru efni sem finnast í geðlyfjum, hjarta- og blóðþrýstingslyfjum, sýklalyfjum, verkjastillandi lyfjum og lyfjum sem tekin eru við sveppasýkingum og kynsjúkdómum.

Niðurstöðurnar benda til að töluvert magn lyfja berist út í umhverfið með frárennsli. Lyfin geta borist í frárennsliskerfin með ýmsum hætti, eins og frá búfjárhaldi, með útskilnaði frá fólki eða þegar fólk losar sig við lyf í frárennsliskerfið. Fráveitur á Íslandi búa ekki yfir búnaði til að hreinsa lyfjaleifar úr fráveituvatninu. Því er mikilvægt að skila inn til apóteka öllum lyfjaafgöngum sem falla til á heimilum til að þeim verði fargað á réttan hátt og endi ekki í umhverfinu. Rannsóknir í Evrópu sýna að lyfjaleifar finnast orðið víða í umhverfinu, m.a. í drykkjarvatni og í vatnalífverum.

 Forgangsefni

Vöktun á forgangsefnum hófst í upphafi árs 2019 en um ræða efni sem eru eitruð og hættuleg. Efnin og efnasamböndin sem um ræðir eru alls 45 og flokkast niður í málma, varnarefni, PAH efni, PBDE efni og mýkingarefni fyrir plast. Lista yfir efnin er að finna í reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns.

Sýnatökur fara fram víðsvegar um land en sýnatökustaðir eru valdir út frá sérstakri aðferðafræði þar sem þeir mynda saman sérstakt vöktunarnet. Vatnssýni eru tekin á eftirfarandi stöðum:  Mývatni, Þingvallavatni, Eiðisvatni, Tjörninni í Reykjavík, Varmá í Ölfusi, Þjórsá, Ölfusá, Í sunnanverðum Faxaflóa vestan við Kjalarnes, Eyjafirði innanverðum, Pollinum í Skutulsfirði og innanverðu Viðeyjarsundi í Reykjavík.

Auk þess munu tilheyra þessu vöktunarneti nokkrir sýnatökustaðir sem notaðir hafa verið til að fylgjast með uppsöfnun varasamra efna í kræklingi, svokölluðum OSPAR-stöðvum (Hvassahraun, Hvalfjarðarbotn, innst í Mjóafirði eystri og á Dalatanga).

Fleira áhugavert: