LNG – Fljótandi gas
Grein/Linkur: LNG – tækifæri hins nýja Onassis?
Höfundur: Ketill Sigurjónsson
.
.
Nóvember 2008
LNG – tækifæri hins nýja Onassis?
Orkubloggið leyfir sér að fullyrða að gasdraumar Rússa liggi í LNG. Liquefied Natural Gas – fljótandi gasi.
Ástæðan er ekki flókin. Bæði Bandaríkin og Japan eru óð í meira gas. Rússar, sem eiga gnótt af gasi og eru búnir að sigra Evrópu, finna peningalyktina frá þessum risastóru mörkuðum i austri og vestri. En þangað geta Rússar ekki flutt gasið sitt í gegnum pípur, eins og til Evrópu. Þess vegna er lausnin LNG – fljótandi gas sem flutt er með stórum, sérsmíðuðum tankskipum.
Öll þekkjum við gas sem lofttegund – loftkennt efnasamband sem aðallega samanstendur af metani (CH4). Með því að kæla gasið niður í rúmlega -160 gráður á celsíus verður það fljótandi. Og þá er rúmmál þess u.þ.b. 600 sinnum minna en þegar gasið er loftkennt! Fyrir vikið er hægt að nota kælingar-aðferðina til að flytja mikið magn af orku, t.d. með tankskipum eða járnbrautalestum.
Augljóslega kostar það skildinginn að kæla gas svo svakalega. Og þetta er ekki bæra orkufrek kæling. Fyrst þarf að hreinsa öll efni úr gasinu, sem myndu frjósa við hið geysilága hitastig. Gasið sem kemur úr iðrum jarðar er oft um 90% metangas, en afgangurinn eru önnur efnasambönd sem ná þarf burt til að geta komið gasinu í fljótandi form.
Fljótandi gasið er unnt að flytja langar leiðir yfir úthöfin með skipum. Á áfangastað þarf að umbreyta LNGinu aftur í loftkennt form. Þá er loks unnt að koma því til neytenda um hefðbundið gasdreifikerfi. Allt þetta ferli gerir LNG ekki beint að ódýrri orku – en er samt víða talsvert ódýrara og hagkvæmara en að flytja inn olíu.
LNG er m.ö.o. dýrara eldsneyti en venjulegt gas, sem fer beint í dreifingu um pípulagnir veraldarinnar. En sökum þess hversu verð á olíu hefur farið hækkandi undanfarin ár – og gasverðið líka – er nú æ betri bissness i LNG. Auk þess vilja mörg ríki einfaldlega auka fjölbreytni í notkun orkugjafa – og auka gasnotkun eins mikið og mögulegt er, á kostnað olíunnar.
Ef stór gaslind er fyrir hendi getur það því gefið góðan arð að framleiða LNG. Og sigla með það til landa, sem ekki geta fullnægt gaseftirspurn sinni.
Líklega er Japan besta dæmið um kaupanda að LNG. Þangað er ekki unnt að leiða gas eftir leiðslum og því þurfa Japanir að kaupa gasið í fljótandi formi. Aðrir stórir kaupendur LNG eru t.d. Suður-Kórea og Taívan. Svo og Spánn, Mexíkó og fleiri ríki. Grafið hér að ofan sýnir aftur á móti gasinnflutning til Bandaríkjanna. Þar sést vel að veruleg aukning hefur orðið á influtningi á fljótandi gasi. Og því er spáð að þessi innflutningur vaxi hratt á næstu árum og áratugum.
Bandaríkin eiga gríðarlegar gaslindir og hafa einnig dælt til sín gasi frá Kanada. Á allra síðustu árum hefur gasið orðið æ ákjósanlegri kostur út af þeirri einföldu staðreynd að gasverðið hefur verið talsvert lægra en olíuverðið (m.v. orkumagnið). Auk þess losar gasnotkun miklu minna koldíoxíð en olíunotkun. Aukin gasnotkun á kostnað olíunnar slær því tvær flugur í einu höggi. Er ódýrari orka og losar minna CO2.
Nú er svo komið að gasið sem framleitt er innanlands og í Kanada fullnægir vart eftirspurninni í Bandaríkjunum. Því hefur innflutningur á LNG verið að aukast þar í landi.
Stór sérsmíðuð tankskip flytja nú fljótandi gas til Bandaríkjanna frá löndum eins og Karabísku orkuparadísinni Trínidad og nokkrum Afríkuríkjum. Þar eru t.d. Alsír, Egyptaland og Nígería stórir seljendur. Og Qatar mun á næstu árum stórauka LNG-framleiðslu sína. Hvernig fór annars með 25 milljarða fjárfestingu Katarprinsins í Kaupþingi? Hann brosir varla núna – nema kaupin hafi „gengið til baka“.
Sökum þess að eftirspurn eftir gasi eykst nú um allan heim – og það mun hraðar en olíueftirspurnin – verða fjárfestingar í LNG sífellt áhugaverðari. Bæði í vinnslu, flutningum og geymslu.
Sumir búast við því að sá hluti orkugeirans sem muni vaxa hraðast á næstu árum, sé einmitt LNG. Hafandi í huga hvernig Onassis varð billjóner af því að sjá fyrir aukna olíueftirspurn eftir heimsstyrjöldina síðari og veðja á stór olíutankskip, gæti nú verið rétti tíminn að setja pening í smíði nokkurra LNG-skipa. Kannski ekki síst skipa sem ráða við að sigla á hafísslóð. Og geta flutt fljótandi gas frá norðursvæðum Rússlands og Noregs, til hungraðra gasneytenda út um allan heim.
Í þessu sambandi er vert að hafa í huga, að nú eru horfur á að senn byrji vinnsla á tveimur gríðarlegum gaslindum í nágrenni Íslands. Og útlit er fyrir að stórum hluta þess gass verði umbreytt í LNG.
Þetta er annars vegar Shtokman-lind Rússana norður af Kólaskaga – gaslindin, sem alþjóðlegi orkugeirinn horfir nú hungruðum augum til. Og hins vegar er gasverkefni sem er lengra komið og stendur okkur ennþá nær – þ.e. svæðið vestur af Noregi sem kennt er við Mjallhvíti. Sem virðist jafnvel geta orðið enn betra ævintýri en Tröllasvæðið, sunnar í norsku lögsögunni. Sem Orkubloggið fjallaði um í síðustu færslu.
Já – það verður bráðum skollið á LNG-æði skammt fyrir norðaustan okkur. En sem fyrri daginn, mun Ísland líklega ekki sína þeirri uppbyggingu neinn áhuga. Hér hafa stjórnvöld í gegnum tíðina agerlega vanrækt að hjálpa íslenskum fyrirtækjum að verða þátttakendur í orkuævintýrinu í Norðursjó. Sem nú er einnig komið inní færeysku lögsöguna og Barentshafið. Hér hefði strax fyrir 30 árum átt að beina Háskóla Íslands í þann farveg að verða sérhæfður Orkuháskóli. Í staðinn sitjum við uppi með þrjár eða jafnvel fjórar lagadeildir í landinu. Og skrilljón viðskiptafræðinga. Athyglisverð menntastefna. Geisp.
Þriðja stóra gassvæðið, sem mun í framtíðinni verða mikil uppspretta fyrir LNG, er auðvitað hið alræmda Sakhalin-verkefni austast í Rússkí. Þar sem Shell hefur verið í miklum slag við Rússana hjá Gazprom. Sú gaslind verður mikilvæg fyrir t.d. Japani og Suður-Kóreu.
Ekki er vandséð að eftirspurn eftir risastórum LNG-tankskipum mun aukast mikið í náinni framtíð. Einhvern sem langar að setja pening í smíði slíkra skipa? Sem kunna að margfaldast í verði á fáeinum árum. Gleymum ekki hvernig Ari Onassis auðgaðist á stóru olíutankskipunum!