Handlagin – Ráðagóð, bjargar sér

Grein/Linkur: Handlagin og ráðagóð bjargar sér

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: mbl

.

.

Október 2003

Handlagin og ráðagóð bjargar sér

Gleðibankinn var fyrsta framlag Íslendinga til sönglagakeppni sjónvarpsstöðva og þar var sungið um gulu miðana. Svo hratt líður tíminn að unga fólkið í dag man tæplega um hvaða gula miða þar var sungið.

En gulir miðar eru enn til margra hluta nytsamlegir, nýjasta er að nota þá sem minnismiða til að hengja á vitgrannan og latan heililisföður, sem líklega vildi miklu fremur sitja fyrir framan sjónvarpið og horfa á enska fótboltann sötrandi bjór.

Að sjálfsögðu er það hin ráðagóða húsmóðir og eiginkona sem stjórnar, skrifar gulu miðana og hengir þá hvar og hvenær sem vesalingurinn, sem hún hefur valið sér til lífsfylgdar, getur á þá rekist.

Þetta er að vísu aðeins sýn einnar stærstu byggingavöruverslunar landsins á það hvernig málin ganga fyrir sig á heimili góðra viðskiptavina.

Ef það væri karlkynið sem ætti að hafa frumkvæðið yrðu viðskiptin ekki mikil að vöxtum, þess vegna er það hlutverk fengið eiginkonunni.

Fjarstæðukennt? Nú er best að hver svari fyrir sig. Kannske er talsvert sannleikskorn í þessari enn einni vitlausu auglýsingunni, sem við öll fussum og sveium yfir.

En er þessi auglýsing og aðrar slíkar, ekki enn einn sálarspegill þessarar þjóðar?

Hver gerir hvað og hver má hvað? Sú var tíðin að hver og einn mátti og varð að bjarga sér eins og hann framast gat til að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Fátt var sem bannaði slíkt.

Til sveita komu handlagnir menn af næstu bæjum, reistu hlöður og gripahús og létu sig ekki muna um að byggja yfir mannfólkið líka, ef til þess voru einhver efni.

Fyrir meira en halfri öld var lagður grunnur að stærsta kaupstað landsins á þennan hátt og það við bæjardyr höfuðborgarinnar.

Hvað er eftir af frelsinu?

Hvað mega þau handlaginn og ráðagóð gera, ekki mega þau byggja sjálf sitt hús? Lög og reglugerðir segja að það megi þau ekki, en til eru lög sem einnig segja að hver og einn megi vinna fyrir sjálfan sig ýmiss konar iðnaðarstörf, sem þó séu lögvernduð.

Er það æskilegt að þau skötuhjú fari sjálf að gera við leka krana, skipta um blöndunartæki, losa stíflur úr ofnlokum, hreinsa stíflaðan vatnslás? Svarið við þessari spurningu verður efalaust á ýmsa vegu og margir iðnaðarmenn eru sjálfsagt alfarið á móti slíku frjálslyndi.

En hvað er á móti því að þeim handlagna og þeirri ráðagóðu sé beinlínis kennt að grípa inn í og leysa hvimleið vandamál, sem enginn iðnaðarmaður fæst til að sinna hvort sem er? Alls ekkert.

Það hafa verið gerðar tilraunir til að halda námskeið þar sem kenna átti almennum borgurum einföldustu atriði í ýmiss konar iðnaðarvinnu.

En þau hafa verið barin niður af skammsýnum fagmönnum, sem sáu ógn í svolítilli þekkingu hjá venjulegum húseigendum.

Slík námskeið gætu einmitt verið góður vettvangur þar sem fagmaður og húseigandi mætast. Þar yrði húseigandanum ekki aðeins kennt að bjarga sér með það sem áður var talið upp, honum yrði einnig kennt að þekkja einkenni þess að eitthvað sé að og hvenær hann eigi að kalla fagmann á vettvang.

Hann gæti þar einnig lært að fylgjast með orkunotkun síns eigin húss og koma á reglubundnu eftirliti með sínum eigin lögnum, eftirliti sem um leið er vörn gegn skaða sem yfir getur dunið ef allt er látið reka á reiðanum.

Þarna geta þau fagmaður, handlaginn og ráðagóð átt hina bestu samvinnu.

Fagmaður á aldrei að vera haldinn þeirri minnimáttarkend að svolítil fræðsla til húseigenda ógni hans faglegu tilveru.

Hann verður og á að trúa því að hún standi fastari fótum en svo.

Eigum við að storka örlögunum í næsta pistli og skella á litlu námskeiði um hvernig á að bjarga sér með einfalda heimilispípulögn?

Fleira áhugavert: