Vindorka – Á hafi eða landi
Grein/Linkur: Raforkuvinnsla á láði eða legi
Höfundur: Einar Mathiesen, Landsvirkjun
.
.
Raforkuvinnsla á láði eða legi
Einar Mathiesen: „Að velja hagkvæma fjárfestingarkosti til raforkuvinnslu er lykilatriði þegar kemur að samkeppnishæfni.“
Í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs er boðuð heildarendurskoðun á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, sem oftast gengur undir nafninu rammaáætlun.
Lögin verði endurskoðuð frá grunni með það að markmiði að tryggja ábyrga og skynsamlega nýtingu og vernd orkukosta á Íslandi.
Við hjá Landsvirkjun fögnum því að taka eigi lögin til endurskoðunar og teljum að gera megi ferli rammaáætlunar bæði skilvirkara og árangursríkara fyrir land og þjóð.
Á hafi eða landi
Landsvirkjun hefur ekki myndað sér stefnu um uppbyggingu á raforkuvinnslu með vindorku á hafi af margvíslegum ástæðum. Regluverk er ekki fyrir hendi en stjórnvöld hafa boðað stefnumörkun þar um. Mikil vinna er óunnin í tengslum við kortlagningu og rannsóknir. Þá er jafnframt ljóst að komi til tengingar við flutningskerfi á landi er engin aflgeta í íslenska raforkukerfinu til orkujöfnunar þegar vindinn lægir.
Vindorka á hafi kann að verða áhugaverður kostur í framtíðinni. Í dag er fjárfestingarkostnaður við raforkuvinnslu með botnföstum vindmyllum á grunnsævi rúmlega tvisvar sinnum hærri en á landi [1] og átta sinnum hærri í fljótandi vindorkuveri [2]. Þá er ekki tekið tillit til aukins rekstrarkostnaðar, landtengingar og/eða sæstrengs til útflutnings ef það er ætlunin, en ætla má að slíkur kostnaður hlaupi á tugum milljarða króna.
Við þetta bætist að tækni við fljótandi vindorku er skammt á veg komin og uppsett afl slíkra vindorkuvera í heiminum er innan við 100 MW, sem er aðeins brot af uppsettri vindorku á hafi í Evrópu. Þar að auki eru við Íslandsstrendur takmarkaðir möguleikar á byggingu botnfastra vindorkuvera, þar sem grunnsævi er af skornum skammti og takmarkast að mestu við Faxaflóa.
Raforkuvinnsla með vindorku á landi er hins vegar raunhæfur kostur til að vera hluti af orkulausninni, en þó með þeim takmörkunum sem hér er lýst að neðan.
Eðli vindorku
Til að geta afhent raforku inn á flutningskerfið sem unnin er með vindorku þarf að vera til staðar jöfnunarafl. Það er nauðsynlegt til að mæta sveiflum í raforkuvinnslu með vindorku.
Með öðrum orðum: þegar vindar blása ekki þarf að vera hægt að vega það upp með jöfnunarafli frá vinnslukerfinu. Í íslenska raforkukerfinu getur slíkt afl einungis komið frá vatnsaflsstöðvum, enda er landið ótengt öðrum löndum. Þá er kerfið ekki hannað til að takast á við miklar aflsveiflur.
Því má halda fram að raforkuvinnsla með vindorku sé ekki fullbúin vara nema endanotandi geti tekið á sig sveiflur í notkun sem fylgir breytilegum orkugjafa sem vindorka er, þá þarf ekki afljöfnun. Í umræðu um vindorku er iðulega skautað fram hjá þessari staðreynd.
Landsvirkjun er eini rekstraraðilinn á markaðnum sem hefur yfir að ráða jöfnunarafli. Það afl er afar takmarkað bæði til skemmri og lengri tíma, eins og fram kom á opnum fundi Landsvirkjunar 2. febrúar undir yfirskriftinni „Hvað gerist þegar vindinn lægir?“, en um hann er fjallað á vef Landsvirkjunar.
Ekki sama hvað það kostar
Íslendingar hafa byggt upp samkeppnisforskot á alþjóðavísu með vali á hagkvæmum vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum – og nú mögulega í einhverjum mæli með vindorkuverum á landi. Þessu má ekki glutra niður með því að ráðast í dýrar og óhagkvæmar virkjanir sem kosta margfalt á við meðalkostnaðarverð raforku á Íslandi.
Í endurminningum fyrsta stjórnarformanns Landsvirkjunar og eins af brautryðjendum í orkumálum þjóðarinnar, Jóhannesar Nordal, Lifað með öldinni , kemur fram að lykillinn að farsælli uppbyggingu orkuvinnslu sé ekki að áformin séu sem stærst, heldur að finna hagkvæma virkjunarkosti, til heilla fyrir land og þjóð. Óhætt er að taka undir það.
[1] Tölur frá IRENA, Alþjóðastofnuninni um endurnýjanlega orku.
[2] Tölur frá Hywind Scotland.