Gleymum ekki frárennsliskerfinu

Grein/Linkur: Gleymum ekki frárennsliskerfinu

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: mbl

.

.

Mars 2005

Við eyðum miklu púðri í að ræða um hitakerfi húsa, hvaða kerfi skuli velja, stýringu og lagnaefni. Minna er rökrætt um neysluvatnskerfin en svo kemur að hreinlætistækjunum; þá færist fjör í leikinn. Að sjálfsögðu er það mjög eðlilegt, þetta er það sem hefur ekki aðeins tæknilegan tilgang, nú er hvorki meira né minna en fagurfræðin og tískan, sá harði húsbóndi, komin með í leikinn.En frárennsliskerfið er ekki síður mikilvægt en önnur lagnakerfi í húsum, en hver hugsar um það þegar hann er kominn í spreng og stynur síðan af vellíðan eftir vel útilátna tæmingu á föstu og fljótandi. Þá er aðeins að ýta á takkann og boms!, allt hverfur á nokkrum sekúndum, athöfn lokið. En til að allt hverfi á augabragði þarf að vera til lagnakerfi sem tekur við því og kemur því sinn veg.

Hver og einn, karl eða kona, sem vill halda heimili sínu hreinu og þokkalegu, hreinsar handlaugina, sturtuna og salernið reglulega með alls kyns efnum sem bæði láta yfirborðið glansa og gefa góða lykt. En það eru til á hverju heimili hreinlætistæki sem yfirleitt er ekkert hirt um þó á því sé mikil þörf.

Þessi tæki eru gólflásarnir sem eru í hverju baðherbergisgólfi í húsum sem hafa verið byggð á síðustu tveimur áratugum. Ekki nokkur vafi að flísarnar á gólfinu eru gljáfægðar með vissu millibili og ekki síður krómaða ristin yfir lásnum, en síðan ekki söguna meir.

Margt miður kræsilegt kemur í ljós þegar skínandi krómristinni er lyft.

Margt miður kræsilegt kemur í ljós þegar skínandi krómristinni er lyft.

Hve langt er síðan þú hefur tekið ristina upp og kíkt ofan í lásinn? Eða hefurðu nokkurn tíma gert það allan þann tíma sem þú er búinn að vera í þessu ágæta húsi? Hvað getur gerst? Algengast er að vatnið úr handlauginni renni í gegnum gólflásinn. Í því vatni kennir margra grasa, hár og skeggstubbar, dauð húð, ýmiss konar smyrsl og fleira sem fljótlega fer að rotna þar sem það stöðvast t.d. í gólflásnum. Þar getur myndast gas, jafnvel metangas, sama gas og heilögu kýrnar á Indlandi puðra út í andrúmsloftið. Þetta segir stundum til sín, sem betur fer, með slæmri lykt.

Í nágrannalöndum okkar er þetta meira vandamál, lífshættir okkar draga úr möguleikum á bakteríugróðri eða rotnun í okkar gólflásum. Okkar venja er að spara ekki vatnið, við teljum okkur eiga feikinóg bæði af köldu sem heitu vatni. Auk þess er heita kranavatnið hjá okkur mun heitara, það hreinsar eflaust margan gólflásinn þegar húsbóndinn rakar sig og lætur heita vatnið, oft 75°C heitt, renna ótæpilega á meðan.

Það gerist örugglega ekki hjá nágrönnum okkar handan hafsins og það þykir jafnvel bruðl ef 60°C heitt vatn kemur úr þeirra krönum. Þá er nú aldeilis ástæða til að fara sparlega með það.

En það er ekki mikið mál að lyfta krómuðu ristinni og kíkja í lásinn.

Kannski er hann tandurhreinn eins og nýr, en það getur líka verið að þarna undir sé blómlegt bú rotnunargerla í sambúð með bakteríum.

Rörastærðir

Þó ekki hafi verið til nein staðlaráð áður fyrr fundu menn fljótt hagkvæmnina í því að hafa rör, hvaða nafni sem þau nefndust, í fáum en völdum stærðum. Steinrör í grunnum voru 4 eða 6 tommu og þegar kom að pottrörum til innanhússlagna voru þau 4 og 21/2.Ætla mætti að bak við þessar völdu röravíddir séu einhver æðri vísindi, en svo var ekki á árum áður.

Skyldi sú spurning aldrei hafa leitað á lagnamann hvort frárennslisrör frá klósetti verði að vera 110 mm að utanmáli, hugsar enginn sem svo; fer allt norður og niður ef ég nota grennri rör? Á þessu verið gerðar veigamiklar rannsóknir á síðustu árum, ekki aðeins á röravíddum frá klósettum heldur frá svo mörgum öðrum tækjum og ekki síður þakniðurföllum. Þar komið í ljós að með því að þrengja rörin er hægt að auka flutningsgetu þeirra. Þetta kann að hljóma sem öfugmæli en er samt staðreynd, það verður að bíða betri tíma að skýra það nánar. En snúum okkur aftur að frárennslisrörum frá klósettum sem alltaf eru 110 mm eða 4 tommur. Norrænn framleiðandi frárennslisröra úr ryðfríu stáli hefur brotist út úr hringnum. Hann hefur sett á markað frárennslisrör sem eru rúmlega 28 mm grennri en hefðbundin rör og það hefur marga kosti, enginn ókostur sjáanlegur.

Grennra rör sparar peninga, það þarf minna efni í hvern metra, rörin taka minna pláss, það getur heldur betur komið sér vel, ekki síst við endurlagnir í eldri hús. Þar að auki er þessi vídd fyllilega nægileg til að flytja frárennsli frá klósettum.

Og þá kemur spurningin; hvers vegna ættum við að halda dauðahaldi í pípuvíddir sem ekki er þörf fyrir. Það skyldi þó ekki vera að það sé vegna þess að það kostar talverða peninga að breyta þeim vélakosti sem notaður er við framleiðsluna.

En þróunin er hafin til grennri og þar með rýmisminni frárennslisröra.

Fleira áhugavert: