Djúpborun – Hitt í mark
Grein/Linkur: Djúpið
Höfundur: Ketill Sigurjónsson
.
.
Nóvember 2008
Djúpið
Nú virðast íslenskir fjölmiðlar skyndilega hafa uppgötvað Drekasvæðið. Og halda vart vatni yfir þeim möguleika að við verðum bráðum öll orðin olíumilljónerar.
Gott og blessað. En til að finna réttu olíulindina á Drekasvæðinu þarf mikinn pening. Hreint ógrynni. Og tíma. Líkurnar á að hitta á stóra og arðbæra olíulind á svo miklu dýpi, eru svona svipaðar eins og… eins og fljúga yfir Reykjavík í kolsvarta myrkri í 5 km hæð, henda niður fótbolta og hitta beint á miðpunktinn á Laugardalsvelli.
En það er hægt! Myndi auðvitað kosta nokkuð marga flugtúra og ógrynni fótbolta. Og sá sem hittir í bullseye, mun geta brosað breitt. Þannig er hinn harði heimur olíubransans. Það er oftast minnsta mál í heimi að sulla gumsinu upp. Jafnvel af miklu dýpi, fleiri km undir hafsbotninum.
Trikkið er að finna sullið. Hitta í mark. En menn skulu hafa í huga að hver bolti – aðeins einn brunnur – á svona mikið dýpi, kostar allt að 50-100 milljón dollara. Og þá er bara verið að tala um stofnkostnaðinn. Bara leigan á borpalli kostar ca. 600 þúsund dollara dagurinn. Ekki beint bisness fyrir þá sem leita eftir skammtímagróða.
Menn fara auðvitað ekki útí svona mikla fjárfestingu, nema viðkomandi trúi á hátt olíuverð til framtíðar. Sársaukamörk olíuverðs, m.t.t. djúpborana á hafi úti, eru almennt sögð liggja á bilinu 50-70 dollara tunnan. Og þó svo stutt sé síðan olíutunnan fór næstum í 150 dollara, er verðið nú skyndilega fallið ofaní þennan ljóta pytt. Akkúrat núna er verðið… ca. 57 dollarar á Nymex. Sem er náttlega barrrasta útí hött!
Gæti þýtt að olíuiðnaðurinn kippi að sér höndum og leggi allar djúpboranir á ís. Hvort sem er utan við baðstrendur Brasilíu, vestur af Afríku eða í Mexíkóflóa. Ég tala nú ekki um áhættasöm ný svæði, eins og Drekasvæðið.
Orkubloggið er samt bjartsýnt um að margir muni sýna Drekasvæðinu áhuga. Það er nefnilega þannig með djúpboranirnar, að þá horfa menn til langs tíma. Og eru ekki að stressa sig um of á tímabundnum niðursveiflum. Því þegar olíuverðið rýkur upp á ný, verður fátt betra en hafa eina feita uppsprettu tilbúna – hvort sem er hér í nágrenni Klakans góða eða í Mexíkóflóanum. T.d. hafa snillingarnir hjá Anadarko Petroleum sagt að það sé engin ástæða til að fresta djúpborunum, meðan horfur eru á að olíutunnan fari ekki undir 30 dollara til lengri tíma.
Orkubloggið er fullkomlega sammála þessari viðmiðun. Þeir hjá Anadarko vita nefnilega sínu viti. Eru meðal fremstu fyrirtækjanna í Mexíkóflóanum – vel að merkja á djúpinu mikla utan við sjálft landgrunnið. Þeir eru nefnilega hvergi bangnir við að vaða svolítið utar – rétt eins og Orkubloggið hegðaði sér í skaftfellsku ánum hér í Den. Held m.ö.o. að það sé rétt að taka mark á þeim Anadarkóum . Þar sem þeir í ljósaskiptunum horfa gáfulegir á svip út um gluggana á Anadarko-turninum og yfir nýborgina sína sérkennilegu, Woodlands í Texas. Rétt utan við Houston.
Mexíkóflói er einmitt gott svæði að líta til, þegar maður veltir fyrir sér hvort raunhæft sé að fara að sulla á Drekasvæðinu. Þarna í “the Gulf” – á fellibyljasvæðinu ógurlega – er nú búið að bora einhverja svakalegustu holu til þessa dags. Tilraunabrunninn Jack 2, 150 sjómílur suður af ströndum Louisiana. Dýpið þarna er rúmir 2 km og holan sjálf 6 km ofaní hafsbotninn. Samtals heilir 8 km!
Og þarna rákust menn á prýðilega lind, sem þegar í stað frussaði upp nokkur þúsund tunnum af olíu. Sem er náttúrulega bara smotterí – en menn eru vongóðir um að þarna leynist gríðarleg olía. En til að nálgast hana þurfa menn að vera tilbúinn með úttroðna buddu. T.d. kemur fyrir að sanddrulla þvælist með og stífli árans rörið. Hreint smámál að redda því – en ekki óalgengt að það kosti svona u.þ.b. eina milljón dollara.
Það var 2006 sem pallurinn Cajun Express kom niður á olíuna þarna í djúpinu. Í holunni sem kölluð er Jack 2. En fljótlega varð að setja verkefnið á hold, því þörf var á að nýta borpallinn annars staðar. Vegna síaukinnar eftirspurnar eftir olíu síðustu árin, hefur nefnilega orðið skortur á borpöllum og -skipum til djúpborana. Og ekkert bendir til annars, en að sú eftirspurn eigi eftir að aukast enn meira – um leið og heimurinn hristir af sér yfirstandandi samdrátt. Enda hefur allt verið á suðupunkti upp á síðkastið hjá skipasmíðastöðvum, sem sérhæfa sig í þessum apparötum. Þær eru fyrst og fremst í Suður-Kóreu og… auðvitað norskar skipasmíðastöðvar. Já – Norsararnir vinna alltaf.
Fólkið á bak við Jack 2 brunninn er frá Chevron. Sem á helming í þessu djúpborunarævintýri þarna í Flóanum. Hinn helmingurinn skiptist á milli norsku vina okkar hjá StatoilHydro og Devon Energy – sem er eitt af þessum öflugu, lítt þekktu og “litlu” bandarísku olíufélögum.
Bandarískir fjölmiðlar ráku upp siguróp þegar fréttist af þessari nýfundnu olíu í Flóanum. “Nýtt Prudhoe – stærsta uppgötvunin í bandaríska olíubransanum í fjóra áratugi!”.
Já – þetta var talsverður viðburður. Enda var settur fjöldi heimsmeta við Jack 2 borunina. Merkasta metið var auðvitað að finna og ná upp olíu af svo fáheyrðu dýpi. Nú gæla menn við að undir djúpi Mexíkóflóans sé unnt að finna allt að 15 milljarða tunna af olíu. Sem myndi þýða að olíubirgðir Bandaríkjanna séu um 50% meiri en hingað til hefur verið talið.
Svo eru menn eitthvað að rugla um peak-oil! Málið er auðvitað að það er nóg af olíu. Vandamálið felst í kostnaðinum. Meðan peningar skipta ekki máli er hægt að finna fullt af olíu. En einhversstaðar liggja mörkin. Þegar olían verður “of dýr” mun framleiðslan toppa. En sú viðmiðun er síbreytileg og þess vegna er olíubransinn auðvitað ennþá aðalbransinn.
Stóra spurningin er á hvað menn vilja veðja? Ef olíufélögin hella sér í djúpboranir utan landgrunnsins, væri brilljant að hafa sett pening í fyrirtæki sem framleiða borpallana (eða borskipin) sem þarf í svoleiðis stúss. Þeir eru nefnilega af mjög skornum skammti í dag. Þeir hjá Anadarko vita þetta og eiga til að mynda stóran hlut í rekstri á undrapallinum Independence Hub. Sem er risastór gasvinnslupallur, sem liggur djúpt úti af árósum Mississippi, hvar dýpið er um 2.500 m. Kannski meira um þennan pallabissness síðar hér á Orkublogginu.
Ekki er augljóst hvernig olíuvinnsla mun þróast þarna í Mexíkóflóanum. Kannski verður hagkvæmara að nálgast fyrst hinar stóru olíulindir undir NV-hluta Bandaríkjanna. Sem kenndar eru við Bakken. Þar undir Montana og Dakóta og alla leið norður til Saskatchewan í Kanada, er líklega að finna 200 milljarða tunna. Kannski er áhugaverðara fyrir olíufyrirtækin að horfa til þess, fremur en að standa í einhverju veseni djúpt útí rokbörðum sæ?
En þó svo Bakken-lindirnar séu með glás af olíu, eru þetta soddan þunnildi að það kostar hreint ferlega mikið að sækja þá olíu. Í anda Drekans ætlar Orkubloggið því að veðja á djúpið mikla!