LSH Frankfurt 1999 – Mikil sýning, kaupstefna
Grein/Linkur: Lagnasýning í Frankfurt
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
.
Apríl 1999
Lagnasýning í Frankfurt
Annað hvert ár er haldin mikil sýning og kaupstefna í Frankfurt þar sem framleiðendur og seljendur lagnaefnis, tóla og tækja sýna allt það nýjasta og besta sem finnst á þeim markaði. Þetta er alþjóðleg sýning, þó er ekki mikið um að framleiðendur utan Evrópu sýni þar, en hún er sótt af lagnamönnum hvarvetna í heiminum. Sýningarsvæðið er engin smásmíði, líklega um 200.000 fm og gestir fleiri en allir Íslendingar. Það eru líklega nálægt þrjátíu ár síðan lagnamenn hérlendis hófu ferðir á ISH sýninguna (eins og hún er í daglegu tali kölluð þarlendis) í Frankfurt og það er enginn vafi á því að þangað hafa menn sótt mikinn fróðleik.
Það var einmitt á „byltingartímanum“ sem menn héðan komu fyrst á Frankfurtarsýninguna, byltingartímanum sem byrjaði á 7. áratugnum þegar plastið var að ryðjast inn í lagnaheiminn. Fram að því hafði allt verið í föstum skorðum, snittuð skrúfuð rör notuð í hita- og neysluvatnslagnir og pottrör í skólplagnir, þannig hafði það verið frá aldamótunum síðustu. En skyndilega breyttist allt, ný efni og ný tæki og geysilega ör þróun. Á síðustu sýningum hefur allt róast, en alltaf er eitthvað nýtt að sjá og mörgum hérlendum lagnamönnum finnst þeir hreinlega ekki fylgjast með ef þeir fara ekki á hverja sýningu í Franfurt.
Lykkja á leið Líklega hafa á annað hundrað lagnamenn frá Íslandi sótt sýninguna í ár, sem var í lok mars. Sumir fara í litlum hópum, jafnvel einir, aðrir taka þátt í stærri hópferðum . Stærsti hópurinn í ár, eins og á undanförnum sýningum, var á vegum Lagnafélags Íslands, yfir sjötíu manns. Nú er ekki lengur flogið til Lúxemborgar og síðan tekin rúta til Frankfurt heldur flogið beint og lent á hinum risastóra flugvelli við Frankfurt.
Ætla mætti að það sé þægilegra fyrir ferðalanginn, en ánægjan virðist blandin þegar menn fara um þetta ofvaxna, villugjarna völundarhús sem Frankfurtarvöllur er. Þá sakna menn litla vinalega umhverfisins í Lúxemborg. Sérdeilis er mönnum villugjarnt við brottför og það er einlæg ábending til Flugleiða að það ágæta fyrirtæki láti fylgja farseðlum leiðbeiningar til farþega við hvaða „termínal“ menn eigi að mæta og inn í hvaða skála eigi að fara, það sparar mönnum langar lestarferðir milli staða með mann- og sálarlausum lestum.
Hópurinn frá Lagnafélaginu lagði lykkju á leið sína og hélt þegar til D¨usseldorf í boði stórfyrirtækisins Mannesmann og umboðsaðila þess á Íslandi, Tækja-Tækni hf. Þar var dvalist í einn sólarhring og verksmiðja Mannesmann skoðuð og setinn fræðslufundur. Orðið Mannesmann er orðið þekkt hérlendis vegna lagnakerfisins, bæði svört og ryðfrí stálrör, sem mikið eru notuð til utanáliggjandi lagna. Eðlilega telja margir þetta nýjung hérlendis sem lítil reynsla sé af, en svo er ekki, elsta hitakerfið lagt úr þunnveggja stálrörum og þrykktum tengjum nær því að verða 30 ára á næsta ári og er enn í fullu fjöri. Hafa skótauið í lagi Það er eins gott að hafa þrekið og liðina í lagi ef farið er á slíkar sýningar og kaupstefnur eins og ISH-sýninguna í Frankfurt.
Umfram allt verða menn að skipuleggja för sína um sýninguna harla vel, kynna sér fyrirfram hvar hver vörutegund er og hefja gönguna samkvæmt því. Milli sýningarskálanna eru nú komin færibönd sem flytja stanslausan straum af fólki, þar hvílast menn nokkuð, en sumum liggur þau reiðinnar ósköp á að þeir jafnvel ryðjast áfram á færiböndunum til að komast sem fyrst í næsta skála. En hvað var nú áhugaverðast á þessari miklu sýningu? Þróunin í smáatriðum, engin ný efni í lögnum eru að koma fram, en það er fróðlegt að sjá hvernig fyrirtækin keppa hvert við annað.
Allir eru að reyna að komast hænufetinu fram fyrir þann næsta og oftast með því að þróa kerfi, bjóða heildarlausnir og er það svo sannarlega lærdómsríkt fyrir okkur Íslendinga. Sum fyrirtæki eru í smáatriðunum, breyta tengjum svo þau verði með þeirra sérkennum, sem oft leiðir til þess að til að geta lagt kerfin verður að hanna og framleiða sérstakt verkfæri einungis til að leggja þetta eina kerfi.
Á undanförnum árum hefur þróunin verið á fleygiferð frá snittuðum, skrúfuðum lögnum, enda sjást þær lagnir ekki lengur á lagnasýningum. Þrykktu tengin hafa fleiri og fleiri framleiðendur tekið upp á sína arma til að vera með í þróuninni, en nú sáust nokkur merki þess að nokkur fyrirtæki sneru að nokkru leyti til baka og þróuðu skrúfuð tengi, þó ekki þannig að þýðing snittvélarinnar hafi aukist aftur. Öll kemur þessi þróun hinum almenna borgara við, ekki síst þeim sem búa í eldra húsnæði, segjum húsnæði sem er yfir 30 ára gamalt.