Liþíum – Orkuduftið
Grein/Linkur: Orkuduftið hvíta
Höfundur: Ketill Sigurjónsson
.
.
Desember 2008
Orkuduftið hvíta
Hverju á maður að svara þegar gamall kunningja frá Suður-Ameríku spyr hvort maður sé til í að setja pening í hvíta duftið? Og lofar undraverði ávöxtun. Auðvitað ekkert annað að gera en að slá til!
Nei – við erum reyndar ekki á slóðum Scarface. Heldur er Orkubloggið hér að tala um auðlindirnar miklu í skraufþurrum eyðimörkum Chile. Þar í auðnum Atacama – einhverjum þurrasta og lífvanasta stað á jörðinni – liggja nefnilega gríðarleg verðmæti. Liþíum!
Þennan hvarfgjarna alkalímálm vilja sumir íslenskir spekingar reyndar kalla litín, á okkar ástkæra ylhýra. En Orkubloggið mun að þessu sinni halda sig við heitið liþíum. Og í dag ætlar bloggið að staldra við dásamlega peningalyktina, sem finna má af saltauðninni undir steikjandi sólinni í norðurhluta Chile.
Stundum er sagt að tíminn fari í hringi. Núna í árslok 2008 hafa ýmsir sett stefnuna á meiriháttar rafbílavæðingu. Svo skemmtilega vill til, að margir af fyrstu bílunum gengu einmitt fyrir rafmagni. Þannig var t.d. um bílinn sem “rauði belgíski djöfullinn” Camille Jenatzy æddi fyrstur manna á yfir 100 km hraða (náði tæplega 106 km/klkst). Bíllinn sá var nefndur La Jamais Contente – sem kannski er viðeigandi fyrir þann sem lifir hátt og hratt og vill alltaf meira og meira.
Það var vorið 1899 sem Jenatzy stýrði bílnum á þessum “ógnarhraða” í nágrenni Parísar. Já – ef litið er til hraðameta var þetta einfaldlega gullöld rafbílanna, þarna um aldamótin 1900.
Nú meira en hundrað árum síðar eru raunverulegir rafbílar sem keppa af alvöru við brunahreyfilinn, ennþá framtíðarmúsík. Menn bíða spenntir eftir Chevrolet Volt. Sem ljúflingarnir hjá General Motors þykjast ætla að verða tilbúnir með árið 2011. Nú er reyndar komið upp það smávægilega vandamál, að óvíst er að GM verði ennþá til eftir þrjú ár! Því bandaríski bílaiðnaðurinn virðist kominn í þrot.
Hvað um það. Í reynd er varla til sá bílaframleiðandi í heiminum, sem ekki er að undirbúa rafbílaframleiðslu. Og líklega eiga öll þessi fyrirtæki eitt sameiginlegt; rafbílarnir eiga að hafa endurhlaðanlegar liþíum-rafhlöður. Sem reyndar kallast liþíum-jóna rafgeymar.
En höldum nú inn í dauðalandið – 1.100 km norður af Santiago, höfuðborg Chile. Þarna í kæfandi sólarhitanum í Atacama skiptast á gráleit fjöll, fölar auðnir og bullandi hverir. Maður gæti haldið að skrjóðurinn hafi rambað á vitlausa beygju og hafnað á dularfullri fjarlægri plánetu. En undir gulgráu yfirborðinu leynist lykill að miklum auðæfum. Þar er nefnilega að finna gífurlegt magn af léttasta málmi veraldarinnar – liþíum. Þeim undramjúka alkalímálmi sem hentar frábærlega í létta og öfluga rafgeyma.
Auðvitað var liþíum fyrst uppgötvað á Norðurlöndunum. Eins og gildir um fleiri merkileg frumefni. Það gerðist fyrir um tveimur öldum í járnnámu á lítilli eyju í sænska skerjagarðinum utan við Stokkhólm. Þaðan barst þetta undarlega grjót inná vinnustofuna hans Berzelíusar, sem Orkubloggið hefur áður sagt frá í tengslum við umfjöllun um þórín sem eldsneyti í kjarnorkuver.
Þegar Berzelíus greindi og nefndi frumefnið þórín árið 1828, voru liðin nokkur ár frá því hann hafði áttað sig á því að grjótið frá sænska skerjagarðinum hafði einmitt líka að geyma óþekkt frumefni. Og að þar væri á ferðinni óvenjuleg málmtegund, sem mátti skera í sneiðar með sæmilega beittum hníf. Berzelíus nefndi þetta sérkennilega efni “lithos” – sem er einfaldlega gríska orðið yfir grjót eða stein. Síðar var nafni þessa mjúkmálms breytt í “lithium”.
Í hnotskurn þá hefur liþíum þann merka eiginleika að það má nýta í rafhlöður, sem geta geymt mikla orku m.v. þyngd. M.ö.o. eru liþíum-rafgeymar alveg sérstaklega litlir, léttir og nettir miðað við þá raforku sem þar er unnt að geyma. Og það er einmitt þetta sem veldur því, að í dag virðist öll framtíð rafbílaiðnaðarins hvíla á áðurnefndum liþíumrafhlöðum. Reyndar hefur minni útgáfa þessara rafhlaða nú þegar slegið í gegn í t.d. farsímum og fartölvum.
Það ótrúlega er, að mest allt vinnanlegt liþíum veraldarinnar er að finna á einungis örfáum stöðum. Tvær eyðimerkur í Suður-Ameríku kunna að búa yfir meira en ¾ af öllu vinnanlegu liþíum á jörðinni. Þar af er líklega langmest í saltauðnum Bólivíu – Salar de Uyuni – í meira en 2.600 m hæð. Þar er enn engin vinnsla hafin, enda ekki beinlínis hlaupið að námarekstri þar á ægifagurri hásléttunni. En aðra sögu er að segja um Atacama í Chile. Þar hefur chileanska fyrirtækið SQM komið sér þægilega fyrir – ef nota má það orð í tengslum við þennan harðneskjulega stað. Sem minnir helst á brennheita steikarpönnu með kraumandi smjörlíki. Enginn Edensgarður þar á ferð.
Atacama-eyðimörkin er sögð hafa að geyma yfir ¼ af liþíumbirgðum jarðar. Þarna dæla sólbakaðir, útiteknir verkamennirnir gráleitu stöffinu upp á yfirborðið. Sólin er svo látin skína á þessa liþíum-saltblöndu í nokkra mánuði, með þeim áhrifum að smám saman skiljast burt ýmis aukaefni og styrkur liþíumsins í haugunum eykst.
Eftir árs sólbað er þessu mokað upp á vörubíla, sem keyra gumsið þriggja tíma leið vestur til Kyrrahafsstrandarinnar og sturta því þar við hreinsunarstöðina. Þar er stöffið hreinsað og umbreytt í liþíum-karbónat (Li2CO3). Sem er hvítt duft, er minnir suma helst á kókaín. Og er notað við framleiðslu á liþíum-jóna rafhlöðum.
Fyrirtækið Sociedad Química y Minera de Chile eða SQM á sér um margt athyglisverða sögu. Það var stofnað 1968 í þeim tilgangi að byggja upp iðnaðarstarfsemi í Chile og var þá að helmingi í eigu ríkisins. Fyrirtækið fór ekki varhluta af hinni blóðugu pólitísku valdabaráttu í Chile, sem þar ríkti lengi vel. SQM var fljótlega þjóðnýtt, síðan einkavætt að nýju á 9. áratugnum, fáeinum árum seinna varð ríkið eigandi þess á ný og loks hófst endureinkavæðing. Minnir kannski á íslensku bankana?
Frá 1992 hefur fyrirtækinu verið stýrt af Julio nokkrum Ponce Lerou. Sem var tengdasonur hins alræmda einræðisherra Chile; Augusto Pinochet. Pinochet lét reyndar af völdum um það leyti að Julio komst til valda innan SQM. Þetta var á svipuðum tíma og Sony setti fyrstu raftækin á markað, með liþíum-jóna batteríum. Þannig að Julio getur með réttu þóst hafa séð liþíum-byltinguna fyrir! Snjall strákur.
Lengst af var SQM reyndar aðallega í áburðarframleiðslu og hefðbundnum námarekstri. Áburðarframleiðsla er enn stærsti hluti starfseminnar hjá SQM. En þegar eftirspurn eftir liþíum tók að aukast mjög með tilkomu ódýrra gemsa og fartölva, varð þessi nýja auðlind til að vekja áhuga margra á fyrirtækinu. Enda ræður SQM yfir stærstu þekktu liþíum-námu heimsins. Og þá var það að kanadískt fyrirtæki tók upp á því að kaupa hlut í SQM. Kanadíski áburðarrisinn Potash.
Orkubloggið fær ekki betur séð en að nú ríki heiftarleg valdabarátta um SQM. Þar sem ljúflingurinn grásprengdi Julio Ponce Lerou og samstarfsmenn hans hjá japanska iðnaðarrisanum Kowa slást við Kanadamennina frá Potash í Saskatchewan. Potash er líklega eitt öflugasta fyrirtæki heims í áburðariðnaðinum og framleiðir t.a.m. gríðarlegt magn af köfnunarefni, fosfati og kalíni. En kalín er einmitt næst léttasti málmurinn – á eftir liþíum. Skemmtilegt.
Báðar viðskiptablokkirnar ráða nú hvor um sig yfir u.þ.b. 32% af heildarhlutafé SQM. Sem mun vera stærsti leyfilegi hluturinn skv. samþykktum félagsins.
Nú vitum við ekki hvort skriffinnarnir í Chile eru jafn skelfilega miklir sauðir eins þeir íslensku, sem ávallt hvítþvoðu eignarhald “óskyldra” aðila í íslenskum almenningshlutafélögum. Kannski er hann Julio Ponce Lerou löngu búinn að tryggja sér samstarf við “óskylda” aðila í SQM, til að halda völdunum í kompaníinu. En kannski er hér tækifæri til að verða þriðji stóri aðilinn í fyrirtækinu? Samþykktir félagsins eru nefnilega þannig að eigendur A-bréfanna, sem blokkirnar tvær ráða nú yfir, kjósa 7 stjórnarmenn. En áttundi maðurinn er kosinn af eigendum B-hlutabréfanna. Og hann getur í reynd ráðið öllu. B-bréfin skiptast milli fjölda eigenda.
Þarna er talsverð peningalykt. Þannig voru tekjur SQM fyrstu níu mánuði þessa árs (2008) um 1,7 milljarðar bandaríkjadala – miðað við einungis 1,2 milljarða allt árið 2007. Kannski engin tilviljun að eitt dramatískasta atriðið í nýjustu James Bond myndinni, Quantum of Solace, er einmitt tekið upp þarna í hinni skraufþurru en spennandi Atacama-eyðimörk. Í Atacama takast nefnilega líka á hinir raunverulegu samúræjar viðskiptalífsins. Og gæti verið æsispennandi að blanda sér í þann leik.
Orkubloggið vill þó jafnframt vara menn við. Íslenskir útrásarvíkingar hefðu líklega ekki fallið í stafi yfir “skitinni” 20% árlegri meðalveltuaukningu (CAGR) hjá SQM síðustu 5 árin. Og nú eru teikn um aukna samkeppni á lofti, því Kínverjar eru að stórauka liþíumvinnslu sína. Þeir ráða þegar yfir næstum því fjórðungi af heimsmarkaðnum með liþíum-karbónat (SQM er með 30% hlutdeild – samtals er heimsframleiðslan nú rúm 100 þúsund tonn á ári). Og Kínverjarnir ætla sér senn að dæla enn meira af hvíta stöffinu útá markaðinn.
En hvaðan á kínverska aukningin að koma? Svo skemmtilega vill til, að á enn einum eyðistað jarðarinnar – hásléttunni í Tíbet – hafa nú fundist miklar liþíumbirgðir. Ein af mörgum ástæðum þess að frjálst Tíbet er ekki beinlínis í sjónmáli.
Það er áleitin spurning hvort kínverskt liþíum skapi hættu fyrir SQM? Nú er markaðsverðið á liþíum-karbónati líklega u.þ.b. tíu sinnum meira en framleiðslukostnaðurinn hjá SQM í Atacama. Sem að hluta til skýrir grimman slaginn sem verið hefur um fyrirtækið. Og liþíum-æðið kann að aukast ennþá meir á næstu arum. Ekki síst ef rafbíladraumurinn rætist. En liþíum-framboðið gæti etv. aukist enn hraðar.
Gleymum því ekki að þegar liþíumvinnslan hófst í Atacama árið 1996, féll heimsmarkaðsverðið á liþíum-karbónati um þriðjung. Og steindrap hin gamalgróna bandaríska liþíum-iðnað í einu kjaftshöggi. Ódýrt kínverskt liþíum-karbónat gæti hugsanlega klipið all hressilega af hagnaði SQM.
Hafi einhver áhuga á að eignast hlut í SQM, skal viðkomandi bent á Bolsa de Comercio de Santiago (hlutabréfamarkaðinn í Santíagó) og hlutabréfamarkaðinn í New York (NYSE-SQM, SQMA). Því miður eiga stóru keppendurnir tveir nánast öll A-bréfin, eins og bloggið gat um hér ofar. Eigendur B-hlutabréfa SQM eiga einungis einn mann í stjórn. En sá maður getur einmitt verið atkvæðið sem meirihlutinn stendur og fellur með!
Og hvað sem valdabaráttunni innan SQM líður, telur Orkubloggið fullt tilefni til að skreppa í eina lauflétta viðskiptaferð til Chile. Þó ekki væri nema barrrasta til að taka þátt í jarðhitaævintýrinu, sem þar rétt að byrja þessa dagana!
Orkuveitan og Geysir Green hljóta að vera farin að skoða möguleikana þar. Ekki satt?