Olíuverð, áhrif – Taugaveiklun, gróðafíkn
Grein/Linkur: Veðmálið
Höfundur: Ketill Sigurjónsson
.
,
Desember 2008
Veðmálið
Nú er það svart. Olíutunnan komin vel undir 50 dollara! Samt gengur Bölmóður spámaður um og hvíslar draugalegri röddu: „Ghawar er að deyja…„.
Eins og unnendur svarta gullsins geta eflaust giskað á, vísar bloggið hér til Bandaríkjamannsins Matthew Simmons. Sem var á tímabili ráðgjafi Bush yngri í orkumálum. Frægasta afurð Simmons er líklega bókin Twilight in the Desert: The Coming Saudi Oil Shock and the World Economy. Það er um margt athyglisverð lesning. Þó svo Orkubloggið efist um að niðurstöður og ályktanir Simmons séu réttar. Í huga bloggsins gæti hér verið falsspámaður á ferð. En jafnvel falsspámenn geta stundum rambað á einhvern sannleika.
Simmons er þess fullviss að allar stærstu olíulindir heims, sem flestar eru í Saudi Arabíu og nágrenni, fari nú hnignandi. Og það þýði að við eigum öll að vera skelfingu lostin – af því olían sé brátt á þrotum.
Simmons hefur auðvitað ekki hugmynd um það, fremur en hver annar bleiknefur, hvernig framleiðslu og olíuleit Sádanna miðar. Þar er líklega á ferð dýrasta og best varðveitta leyndamál mannkynssögunnar.
Sá sem kemst yfir jarðfræðiskýrslur og tölvulíkön Sádanna um olíubirgðirnar í Ghawar, hefur svo sannarlega í höndum sér hið helga gral. Hreint stórfurðulegt að ekki skuli löngu vera búið að gera Bond-mynd um njósnir þessa glæsilega fulltrúa hennar hátignar á slóðum olíunnar í sandauðnum Saudi Arabíu! Það er efni í dúndrandi spennu.
Ályktun Simmons um að veröldin sé nú á barmi peak-oil kann vissulega að vera rétt. En er samt svolítið langsótt. Niðurstaða hans virðist einkum dregin af ýmsum ummælum, sem Sádarnir og menn í þeirra klíku hafa látið fara frá sér, t.d. á fundum og ráðstefnum um veröld víða. Þar telur Simmons að finna sterkar vísbendingar um að framleiðslan á hinu geggjaða Ghawar-svæði sé hreinlega að hrynja. Og engar almennilegar risalindir séu að finnast, sem komið geti í staðinn. Ergo; olíuframleiðsla muni senn fara hratt minnkandi, meðan orkueftirspurn eykst um 2% á ári.
Ef spá Simmons rætist gæti þetta á fáeinum árum leitt til mikillar verðhækkunar á olíu. Í vor töluðu sumir helstu vitringarnir í bransanum um að tunnan færi bráðlega í a.m.k 180 dollara. Slíkar spár þóttu voða smart þegar olíutunnan rauf 100 dollara múrinn fyrir um 10 mánuðum og æddi áfram uppí næstum 150 dollara. Allt í einu voru margir helstu fjármálaspekingar heimsins farnir að spá tunnunni í 190 dollara, 200 dollara, 250… Þetta var orðið eins og fíflauppboð hjá nýríkum íslenskum auðmönnum.
Menn virtust ekki skilja að miðað við uppganginn á hlutabréfamörkuðum, hafði olíuverðið setið eftir. Olían var einfaldlega orðin fáránlega ódýr ef litið var til efnahagsvaxtarins síðustu árin. Með hækkandi hlutabréfaverði og miklum efnahagsuppgangi hlaut að koma að því að olían hækkaði verulega. Það var hið eðlilegasta mál.
En svo kom kreppan. Og kreppa þýðir minni iðnaðarframleiðslu og minni aðgang að peningum – og og því minnkar eftirspurn eftir olíu. Reyndar hélt olían áfram að hækka lengi vel, eftir að óveðursskýin voru farin að hrannast upp vestur í Ameríku. Svo virtist sem peningarnir byrjuðu á því, að flýja úr hlutabréfunum yfir í hrávöruna. Áður en bálið náði líka til hrávörumarkaðarins. Olíuverðið tók ekki að lækka almennilega fyrr en íslensku bankarnir féllu!
Að öllu gamni slepptu, þá hefur verð á olíu hreinlega hrunið allra síðustu mánuðina. Akkúrat núna er verðið á Nymex… undir 45 dollurum! Búið að lækka um rúm 7% bara í dag. Er markaðurinn að segja „good bye Chrysler & GM“?
Þetta er náttlega barrrasta gjörsamlega fáránlegt. OPEC hlýtur að fara að stöðva þessa vitleysu. Vinur minn Hugo Chavez í Venesúela er líklega ekki að græða nema skítlega fimmfalt á hverri seldri olíutunnu um þessar mundir. Og vesalings Sádarnir að meðaltali smávægileg 200-300%. Sorglegt. Ennþá sorglegra er auðvitað að þessa dagana er líklega einhver hluti olíuvinnslunnar í Norðursjó hreinlega rekin með tapi (þó er líklega sjaldgæft að Norðrsjávarvinnslan þurfi meira en 20-30 dollara pr tunnu til að skila hagnaði).
Olíumarkaðurinn er auðvitað ein allsherjar vitleysa, þar sem taugaveiklun og gróðafíkn slást eins og hundur og köttur. Á þeim markaði ríkir ekki meira vit en við spilaborðin í Vegas. Í heiminum er sæmilegt jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á olíu. Og framleiðsluverðið víðast hvar á bilinu 5-50 dollarar tunnan. Verðið æðir aftur á móti út um allar trissur, allt eftir því hvert græðgin beinir mönnum.
Nú er bara að bíða eftir 1. janúar 2011. Þegar úrslit verða kunn í veðmáli áðurnefnds Matthew Simmons við New York Times-blaðamanninn John Tierney. Þeir kumpánar veðjuðu nefnilega 10 þúsund dollurum um það hvort olíuverðið verði 200 dollarar árið 2010. Þ.e. meðalverðið yfir árið allt, leiðrétt m.t.t. verðbólgu. Simmons vinnur pottinn ásamt vöxtum, ef meðalverðið verður 200 dollarar eða meira. Þetta er líklega eitt frægasta hrávöruveðmál sögunnar. Ásamt málmaveðmálinu skemmtilega, sem þeir viðskiptaprófessorinn bjartsýni, Julian Simon, og skordýrafræðingurinn skondni, Paul Ehrlich, gerðu með sér á níunda áratugnum. En það er önnur saga.
Eins og tryggir lesendur Orkubloggsins ættu að muna, flýði bloggið olíuna þegar tunnan fór undir 120 dollara. Einfaldlega vegna þess að bloggið áleit það vera þröskuldinn, sem táknaði að styggð hefði komið að hjörðinni og algerlega ómögulegt væri að spá um hvert hún myndi vaða. Svo fór að hjörðin tók stefnuna beinustu leið á hengiflugið. Verðið hefur hreinlega fallið eins og steinn upp á síðkastið.
Stóra spurningin er hvenær mest öll hjörðin hefur hrapað í gilið? Hvenær verður óhætt að skella sér inn á olíumarkaðinn á ný? Nú eru sumir að spá olíutunnunni allt niður í 25 dollara. Slíkir spekingar hljóta að vera endanlega búnir að afskrifa bæði GM og Chrysler og veðja á mega-atvinnuleysi vestra. Kannski bloggið ætti að bæta um betur – spá líka gjaldþroti Ford og General Electric og að olíutunnan fari í 5 dollara! Því eins og snillingurinn John Bogle hjá Vanguard sagði svo skemmtilega um markaðinn og öflin þar að baki: „Nobody knows nuthin!“
Orkubloggið er ekki aðdáandi Matthew Simmons. En minnumst samt þess að frá því risalindirnar í Arabíu fundust á 5. áratug liðinnar aldar, hefur gengið hreint afleitlega að finna eitthvað í líkingu við hið magnaða Ghawar.
Allt frá því Ghawar fannst árið 1948 hefur þetta verið mesta olíuuppspretta heimsins. Langstærsta einstaka olíuvinnslusvæði veraldarinnar. Sádarnir segja að framleiðslan í Ghawar sé stöðug – og þeir geti meira að segja aukið hana ef þeim sýnist svo. Og fullyrða að lítið mál verið að ná þaðan a.m.k. 70 milljörðum tunna í framtíðinni – sem er ekki ósvipað magn og hefur verið dælt þar upp síðustu sex áratugina. Alls séu heildarbirgðir af vinnanlegri olíu í hinni helgu jörð Múhameðs spámanns a.m.k. 260 milljarðar tunna. Og auk þess muni þeir senn geta staðfest nýjar birgðir upp á samtals 450 milljarða tunna. Segja þeir ljúflingarnir hjá Saudi Aramco.
Já – Sádarnir eru hvergi bangnir. Og nú síðast í nóvember leyfði upplýsingaskrifstofa bandaríska orkumálaráðuneytisins sér að spá því, að olíuframleiðsla Saudi Arabíu aukist um 50% fram til ársins 2020. En hinn mannlegi spámaður, Matthew Simmons, fullyrðir aftur á móti að samdráttur sé þegar byrjaður í Ghawar. Og ekkert sambærilegt muni nokkru sinni finnast.
Þetta er óttalegt svartsýnisraus í Simmons. Það er nóg til af olíu – ekki síst undir hafsbotninum. Aðal vandamálið er að við erum búin að tína öll bestu eplin af neðstu greinunum. Eftir því sem við þurfum að klifra ofar – eða öllu heldur bora dýpra – verður olían æ dýrari í framleiðslu. Vesen. Þegar upp er staðið er bloggið líklega sammála Simmons – þó svo ég muni auðvitað aldrei viðurkenna það!
Það er nefnilega hárrétt hjá Simmons að nýtt Ghawar með skítbillegri olíu mun aldrei finnast. Djúpvinnslan kostar fjári mikinn pening – hún er líklega a.m.k. 5 sinnum dýrari en mest öll vinnslan hjá Sádunum. Kannski smá ýkjur hjá blogginu. En eitt er víst. Þó svo nóg sé af olíu undir hafsbotninum, mun olíuverðið augljóslega hækka, eftir því sem Ghawar minnkar. Til lengri tíma litið.
Sá dagur mun einhverntíma renna upp, að olíuframleiðslan getur ekki lengur aukist. Þess vegna suðar hið hása og draugalega hvísl Simmons í eyrum Orkubloggsins alla liðlanga skammdegisnóttina hér á Kreppuskeri. “Ghawar is dhhayyying…”.