Saudi Aramco, sagan – Framleiðslugeta, olíuverð
Grein/Linkur: Ný dögun hjá Aramco
Höfundur: Ketill Sigurjónsson
.
.
Desember 2008
Ný dögun hjá Aramco
OPEC sagði að þeir ætli að stöðva þetta rugl. Og kippa 2 milljón tunnum af markaðnum. Svo olíuverðið komist aftir upp í vitrænar hæðir.
Gott að heyra. Þó svo markaðurinn brygðist heimskulega við (verðið lækkaði talsvert á Nymex).
Í færslu lýsti Orkubloggið einmitt eftir einhverju svona frá OPEC. Verðið er orðið rugl. Þeir ljúflingarnir Olíu-Ali og Chakib Khelil brugðust hratt og vel við tilmælum bloggsins um tafarlausar aðgerðir. Auðvitað. Nú er bara að vona að þeir fylgi orðum sínum eftir. Og minnki hressilega bununa úr krananum.
Sádarnir sjálfir segjast vilja fá verðið í 75 dollara. Ættu að fara létt með það blessaðir, ef þeir í alvöru vilja. Best að verðlauna þá með örlítið meiri umfjöllun hér á Orkublogginu. Taka upp þráðinn þaðan sem frá var horfið í gær og velta fyrir sér stöðu Saudi Aramco til framtíðar.
Sumir bölsýnismenn eru eitthvað að spá Sádunum vandræðum. Að Ghawar sé að drukkna í vatnsdælingunni og sé ekki lengur viljugt að skila svarta gumsinu. Ég segi nú bara að menn ættu að skammast sín. Að gefa í skyn að Sádarnr séu einhverjir þumbarar, sem kunni lítið annað en að stinga stráinu í jörðina og bíða eftir að svarta gullið spýtist upp! Í reynd er Saudi Aramco líklega orðið eitthvert tæknivæddasta olíufyrirtæki heims. Með óhemju þekkingu og reynslu, langt umfram bandarísku félögin.
Sádarnir eru búnir að græða þvílíkan óhemju pening síðustu árin, að þeir vita ekki aura sinna tal þessa dagana. Meðan bandarísku félögin hafa þurft að fjárfesta í dýrri djúpvinnslu og slást blóðugum slag til að komast í olíulindir Rússana, hefur Aramco getað notað peninginn í þarfari hluti. Búnir að byggja upp hátæknivædda viðskiptaþróunardeild, sem senn mun gera þeim kleift að láta agnarlitla skynjara skríða eins og slöngur í gegnum sandsteininn og þefa uppi nýjar og ósnertar olíulindir.
Minnumst þess líka að Sádarnir hafa allt aðra strategíu en olíufélög kapítalismans í vestrinu. Þegar venjuleg evrópsk, amerísk eða rússnesk olíufyrirtæki finna olíulind, er allt kapp lagt á að koma gumsinu upp á sem allra stystum tíma. Leita, finna, sækja, búmm. Græða! Halda hlutabréfaverðinu uppi.
Sádarnir eru mildari. “Við umgöngumst Ghawar eins og unga blómarós á brúðkaupsnóttu”. Eins og þeir orða það sjálfir, kallpungarnir. Líklega eru þeir að nýta olíulindir sínar allt að 3svar sinnum hægar en almennt gerist í bransanum. Og það skiptir hreint ótrúlega miklu máli. Ef of harkalega er gengið að olíulind, er hætt við að ekki náist upp nema langt innan við helmingur olíunnar. Þjösnahátturinn gerir það að verkum, að skyndilega er búið að sjúga burt alla aðgengilegustu olíuna – en eftir situr glás sem rándýrt er að sækja. Og þess í stað rokið í að finna nýja lind.
Þetta vita Sádarrnir manna best. Fyrstu árin eftir að þeir náðu fullum yfirráðum yfir Aramco fóru þeir líka þannig að. En svo áttuðu þeir sig – í stað skyndigróða var áherslan lögð á meiri og betri nýtingu. Peningi var dælt í þróunarstarf og uppbyggingu gríðarlegs upplýsingabanka. Í Dhahran, þar sem öldur Persaflóans leika við sandinn, reis draumaverksmiðja tölvunördanna. Öflugasta gagnaverið í bransanum. Sem er ekki aðeins að valda byltingu í olíuleit, heldur er líka ætlað að gera Sádunum kleift að stjórna vinnslu djúpt neðanjarðar með þráðlausum joystick. Tær snilld. Gert er ráð fyrir að þessi nýja tækni verði fyrst prufuð á næsta ári. Spennandi.
Tækniþróunin mun hugsanlega gera Sádunum kleift að stórauka nýtingu á olíulindunum sínum. Úr núverandi 50% nýtingu og í 70-80%! Það eitt og sér myndi auka birgðirnar þeirra um 25% í einu vetfangi. Þar að auki gera þeir ráð fyrir að finna nýjar lindir. Á skömmum tíma kunna olíubirgðir Sádanna að fara úr 260 milljörðum tunna í allt að 600 milljarða tunna. Til að setja þetta í samhengi, skal tekið fram að allar þekktar olíulindir heimsins í dag eru taldar geta skilað alls um 1.300 milljörðum tunna.
Markmið Sádanna þessa dagana er að auka framleiðslugetuna fljótlega í 12 milljón tunnur á dag. Það er meira en 15% aukning frá því sem nú er. Í þessu skyni vinna nú mörg þúsund útlendir verkamenn á fullu undir steikjandi sólinni rétt vestan hins magnaða Ghawar, við að byggja upp nýja megavinnslu. Við Khurais, um 250 km suðvestur frá Dhahran.
Sádarnir ætla ekki aðeins að auka framleiðslugetuna. Heldur um leið að draga úr eigin olíuþörf, með því að koma á fót kjarnorkuprógrammi. Það lítur út fyrir að Bandaríkin styðji þau plön Sádanna. Þar vestra samþykkja menn allt sem frá Sádunum kemur svo lengi sem þaðan streymir olía. Svo halda sumir að Bandaríkin stjórni heiminum!
Ef lindirnar kenndar við Khurais eru eitthvað í líkingu við það sem Sádarnir segja, er líklega búið að slengja peak-oil nokkra áratugi fram í tímann í einu höggi. Þarna ofaní sandinn ætla menn að sækja 27 milljarða tunna af olíu.
Khurais-verkefnið er peningasvolgrari. Kostnaðurinn við þetta risaverkefni er margir milljarðar dollara. En ávinningurinn verður gríðarlegur. Framleiðslan á að skila 1,2 milljón tunnum á dag. Yfir 30 ára tímabil. Erlendir sérfræðingar hafa slegið á, að framleiðslan í Khurais muni kosta ca. 10 dollara tunnan. Sjálfir segja Sádarnir að framleiðslukostnaðurinn verði svona 2 dollarar! Sem meira að segja slær út Ghawar – þar giska flestir á að kostnaðurinn sé í kringum 5 dollarar.
Olían frá Khurais á að byrja að streyma upp á næsta ári (2009). Og duga í a.m.k. 50 ár. Það er magnað – þegar haft er í huga að meðalhnignun olíuvinnslusvæða veraldar er um 6-7% á ári. En minnt skal á, að Sádarnir segjast umgangast olíulindirnar sínar af meiri umhyggju en vestrænir gróðapungar. Og vísa þar í kvenlega fegurð.
Khurais er stórt. Samt var smá spæling á ferðinni. Menn hafa vitað af þessari risalind, Khurais, í meira en 40 ár. Þegar farið var af stað með verkefnið 2006 var verið að gæla við að Khurais yrði jafnvel nýtt Ghawar. Svo reyndist ekki vera – slefar kannski í að vera 1/6 af stærð Ghawar. Og þess vegna urðu Sádarnir pínu vonsviknir – jafnvel þó svo Khurais sé ein allra stærsta olíulind heimsins. Þar að auki er olían þarna ekki alveg það frábæra hágæða gums, eins og Ghawar hafur skilað í gegnum tíðina.
Þannig að fullyrðingin skuggalega er ennþá sönn: “Það er ekki til neitt annað Ghawar!” Og kannski eru Khurais og Manifa síðustu risalindirnar. Kannski… kannski ekki. En eitt er víst; þarna í Khurais einni, eru samtals á ferðinni meiri olíubirgðir en finna má í gjörvallri lögsögu Bandaríkjanna (Kanarnir ráða líklega yfir ca. 21 milljarði tunna). Það eitt segir sitt um ofurstöðu Sádanna í olíuveröldinni.