Tævansund, vindorkuver – 43.300 MW
Grein/Linkur: Kínverjar áforma langstærsta vindorkuver heims
Höfundur:
.
.
Október 2022
Kínverjar áforma langstærsta vindorkuver heims
Þúsundir vindtúrbína á 10 kílómetra löngu svæði í Taívanssundi. Vindorkuverið sem borgaryfirvöld í kínversku borginni Chaozhou áforma yrði það stærsta í heimi.
Kínverjar áforma vindorkuver á hafi sem yrði það stærsta í heimi, 43,3 GW að afli – 43.300 MW. Stærsta virkjun Íslands, Kárahnjúkavirkjun, er um 690 MW. Í fréttum sem sagðar hafa verið af þessum miklu áformum er því haldið fram að vindorkuverið gæti séð öllum Noregi fyrir rafmagni. Norska raforkukerfið er um 37.700 MW og framleiðslan nemur um 153,2 TWst.
Það eru borgaryfirvöld í Chaozhou í Guangdong-héraði sem fyrirhuga hið risavaxna orkuver, um 75-185 kílómetrum úti fyrir ströndum Kína í Taívan-sundi. Þar yrðu reistar þúsundir vindtúrbína á hafsvæði sem er um 10 kílómetrar að lengd.
En vindurinn blæs ekki stöðugt á sundinu og því er miðað við að verið yrði keyrt á fullu afli um 43-49 prósent af árinu.
Í fréttum segir að framkvæmdir muni hefjast fyrir lok árs 2025. Er þeim lýkur yrði verið það langstærsta í heimi. Þann titil í dag ber annað kínverskt vindorkuver, Jiuquan, sem er 20 GW.
Mörg ríki horfa nú til vindsins í orkuöflun sinni. Í Noregi, svo nærtækt dæmi sé tekið, eru nú rúmlega 50 vindorkuver af ýmsum stærðum. Í september í ár framleiddu þau um 1.000 GWst eða um 11,8 prósent af allri raforku landsins. Það hlutfall er óvenju hátt núna þar sem vatnsaflsvirkjanir Noregs, sem hafa í áraraðir verið stærstu raforkuverin, hafa framleitt mun minna rafmagn vegna þurrka. Uppistöðulónin eru hálf tóm þetta haustið, á árstíma sem þau eru yfirleitt full. Þannig var raforkuframleiðsla vatnsaflsvirkjana 27 prósent minni í september í ár en í sama mánuði í fyrra.
Kínverjar stærstir í vindorkunni
Í lok síðasta árs var afl vindorkuvera á landi og í hafi samanlagt í heiminum 830 GW. Meira en helming aflsins er að finna í kínverskum verum. Mörg vindorkuver voru ræst á vegum Kínverja í fyrra, fleiri og aflmeiri en í nokkru öðru ríki veraldar. Sama staða var uppi á teningnum fjögur árin þar á undan.
Kínversk stjórnvöld hafa sett sér það markmið að framleiða um þriðjung raforku sinnar með endurnýjanlegum orkugjöfum sem vindorkan tilheyrir. Þar í landi er hins vegar ekki stefnt á kolefnishlutleysi fyrr en árið 2060 sem er mun lengra inn í framtíðinni en t.d. markmið Íslands og Evrópusambandsins segja til um. Hér á landi er stefnt að kolefnishlutleysi þegar árið 2040 og í ríkjum Evrópusambandsins tíu árum síðar.
Ekki eru enn komnar fram skýrar vísbendingar um að þessi markmið muni nást. Losun gróðurhúsalofttegunda jókst á Íslandi í fyrra frá árinu á undan og sömu sögu er að segja frá ESB.
Mögulega er því markmið Kínverja raunhæfara þótt það sé ekki jafn metnaðarfullt. Xi Jinping, forseti Kína, sagði um miðjan október að Kínverjar ætli sér að vinna markvisst að kolefnishlutleysi og að það verði gert að vandlega athuguðu máli, með skipulögðum hætti og í mörgum skrefum. Unnið verði með það í huga að „fá nýja [orkugjafa] áður en við losum okkur við þá gömlu“.
Kínverjar eru stærstu raforkuframleiðendur heims. Þeir framleiddu árið 2019 meira af rafmagni en næstu þrjú löndin, Bandaríkin, Indland og Rússland, samanlagt. Meira en helmingur af orkunni, um 65 prósent árið 2019, er unnin með kolabruna.