Forvarnir, sagan – Of heitt neysluvatn
Grein/Linkur: Of heitt neysluvatn
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
.
Október 2006
Of heitt neysluvatn
Nú á endanlega að finna lausnina á því hvernig koma á í veg fyrir slys af of heitu vatni. Nýr formaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur reiðir fram 4 milljónir króna úr digrum sjóðum fyrirtækisins og afhendir Sjóvá/Almennum tryggingafélagi. Þar skal kona sérfróð um slysavarnir vinna að því næsta árið að rannsaka orsakir og afleiðingar og hvað er hægt að taka til bragðs til að koma í veg fyrir bruna af heitu vatni.
En fyrir okkur sem lifum og hrærumst í lagnaheimi og fyrir hinn almenna húseiganda, skulum við leysa þetta í einum pistli og án þess að það hvarfli að nokkrum manni að það verði til að skerða hinn myndarlega forvarnarsjóð um svo mikið sem eina krónu.
En komum okkur að efninu og skoðum fyrst hve hættulegt heitt vatn er.
50°C heitt vatn brennir húð á 5 mínútum.
55°C brennir húð fullorðins á 35 sekúndum en húð barns á 10 sekúndum.
60°C brennir húð fullorðins á 6 sekúndum, en barns á 1 sekúndu.
65°C brennir húð fullorðins á 2 sekúndum en barns á 0,5 sekúndum.
70°C brennir húð á 1 sekúndu.
Á þessu má sjá að það er mikill munur á bruna eftir því hve heitt vatnið er.
Gleymum ekki óvininum, Legionella pneumophillia, eða hermannaveikisbakteríunni. Hennar hefur lítið orðið vart á Íslandi til skaða, ekki nokkur vafi að það er vegna þess hve heitt okkar kranavatn er, ekkert er svo með öllu illt að ekki fylgi nokkuð gott. En hún hefur samt látið á sér kræla á íslenskum sjúkrahúsum, en það hefur farið ákaflega hljótt. Þessi baktería er hvarvetna í náttúrunni en er einungis skaðleg ef hún kemst í lungun með innöndun.
Vegna þessarar óværu má aldrei nota heitt kranavatn sem er undir 55°C, yfir þeim hitamörkum nær hún ekki að tímgast. Kalda vatnið okkar er hins vegar það kalt að þar nær hún ekki að fjölga sér.
Það er líklegt að 80-90% húsa á Íslandi séu með galvaníseruð stálrör í neysluvatnslögnum. Meðfylgjandi mynd sýnir hvað gerist ef kalt vatn er hitað upp og látið renna um slíkar lagnir.
Þetta er bútur úr kerfi sem var í notkun í 9 ár, en eftir 7 ár voru farin að detta göt á rörin og í 2 ár varð stöðugt að vera á verði, en þá var kerfið dæmt endanlega ónýtt og tekið úr sambandi.
En það er fleira merkilegt við þetta kerfi sem rörstubburinn er úr. Í kerfinu var sjálfvirkur búnaður sem blandaði saman heitu og köldu vatni, þetta var ekki kerfi þar sem 100% kalt súrefnisríkt vatn var hitað upp. Í þessu kerfi hefur kalda upphitaða vatnið verið minna en helmingur í blöndunni en það virðist ekki skipta máli.
Og niðurstaðan er sú að þar sem efnið í kranavatnskerfinu er galvaníserað stál kemur ekki til greina að hita upp kalt vatn, hvorki með varmaskiptum né hitastýrðum blöndunartækjum við inntak.
En hvar er þá hægt að nota slík tæki og hita upp kalt vatn?
Þar sem lagnirnar fyrir heita kranavatnið eru út plaströrum eða rörum úr ryðfríu stáli. En vegna mikillar andstöðu við þetta nýja lagnaefni frá ýmsum spekingum árum saman eru slíkar lagnir aðeins í húsum sem eru í hæsta lagi 6-8 ára gömul.
En hvernig geta þeir sem eru með galavaníseruðu rörin bjargað sér, er til eitthvað úrræði fyrir þá?
Já, það er svo sannarlega til úrræði fyrir þá.
Kannski minnast trúfastir lesendur Lagnafrétta þess að oft hefur verið rekinn áróður fyrir því að setja upp hitastýrð blöndunartæki við baðker og sturtur og bent á það mikla öryggi sem fæst með því. Í síðasta pistli voru eiginleikar tækjanna skýrðir, meðal annars að það er ekki hægt að stilla á hærri hita en 65°C. En þá eru eftir handlaugin og eldhúsvaskurinn. Í síðasta pistli var bent a hitastýrð blöndunartæki sem hægt er á einfaldan hátt að tengja undir handlauginni og í skápnum undir eldhúsvaskinum. Með því að lækka hitann við hvert tæki er leiðslunum hlíft. Ef þær eru í lagi, þó um þær renni hitaveituvatn, er engin ástæða til að ætla að það muni breytast, leiðslurnar geta þá enst í mörg ár.
En svo er ein lítil en mikilvæg ábending. Það er ekki ólíklegt að í þínu húsi séu hitastýrð blöndunartæki við baðker og sturtu. En það er mögulegt að í handlauginni og eldhúsvaskinum séu handvirkt blöndunartæki með einum armi. Sum af betri tegundum handvirkra blöndunartækja eru þannig byggð að það er hægt að færa arminn til og festa þannig að hann nái aldrei að fá meira heitt vatn í blönduna en sem nemur til dæmis því að vatnið geti ekki orðið meira en segjum 65°C.
Svo kemur stóra aðvörunin í lokin.
Vandaðu valið á tækjum sem þú kaupir. Spurðu um hvaða vottanir tækin hafa. Kauptu evrópsk tæki, um árabil höfum við notað góð hitastýrð blöndunartæki frá Þýskalandi og Skandinavíu. Þessi aðvörun gildir ekki síður um sturtuklefa en þeim fylgir oft allur búnaður, já mikill búnaður. Stundum eru slíkir klefar með hitastýrðum blöndunartækjum sem engin vottun fylgir og það sem er enn verra; sumum fylgir aðeins handvirkt blöndunartæki og slíkan búnað er hreint út sagt vítavert að kaupa.
Tökum saman í lokin helstu áhersluatriðin, það getur kannski hjálpað þeim sem eru að finna upp hjólið.
Lækkaðu hitann á vatninu ekki meira en niður en í 55°-65°C.
Ef dreifilagnirnar innanhúss eru úr plasti eða ryðfríu stáli geturðu lækkað hitann við inntak með hitastýrðu blöndunartæki eða varmaskipti.
Ef dreifilagnir eru úr galvaníseruðum stálrörum þá verðurðu að lækka hitann við hvert tæki.
Kauptu viðurkennd og vottuð tæki.
Umfram allt; öll tæki verður að yfirfara, hreinsa og smyrja á tveggja ára fresti minnst.
Þetta sýnir að það eiga allir möguleika á að lækka hitann á kranavatninu án hálsbrjótandi kostnaðar. Það þarf að taka út hvert hús og gefa ráð sem duga og síðan að framkvæma.