Vindorkuframleiðsla – Hjarðhegðun hættuleg

Grein/Linkur: Segir að ekki megi fara of geyst í að reisa vindmyllur

Höfundur: Bjarni Bjarnason

Heimild:

.

Smella á mynd til að heyra umfjöllun á R’UV

.

Nóvember 2022

Segir að ekki megi fara of geyst í að reisa vindmyllur

Nokkuð ljóst er að beisla þarf vindorku til þess að hægt sé að framleiða þá orku sem nauðsynlegt er fyrir árið 2060. Þetta segir Bjarni Bjarnason forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur. Hann segir um það bil farið að sjást til botns í vatnsafli og jarðvarma.

Líkt og fram kom fyrr í mánuðinum eru hitaveitur víða um land komnar að þolmörkum. Ef veturinn verður kaldur gæti þurft að skerða heitt vatn til íbúa höfuðborgarsvæðisins, sagði Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna, í samtali við fréttastofu 17. nóvember.

Alls er talið að auka þurfi raforkuneyslu um 16 teravattstundir á ári fyrir árið 2060 til að mæta raforkuþörf landsmanna. Heildarframleiðslugeta á Íslandi eru tuttugu teravattstundir á ári. Ef allir kostir í nýtinga- og biðflokki rammaáætlunar yrðu nýttir myndi enn vanta 7,5 teravattstundir upp á til þess að ná 16 teravattstundum að mati Bjarna. Hann segist ekki sjá neitt annað mögulegt en að þessar 7,5 teravattstundir komi frá vindorku.

Samkvæmt Orkustofnun og Landvernd eru 34 staðir á landinu þar sem uppi eru hugmyndir um vindmyllugarða eða áform um vindorku. „Ég held að það þurfi um það bil 30 vindmyllur á hverju svæði til að tryggja lágmarks hagkvæmni. Það þýðir um eitt þúsund vindmyllur,“ sagði Bjarni í Silfrinu í morgun. Hann telur að þessi áform séu ekki raunhæf. Þá væri orkugeirinn að valta yfir ferðaþjónustuna, sem aflar mestum gjaldeyri í þjóðarbúið. Atvinnuvegir þurfi að búa í sátt og samlyndi og einn geti ekki valtað yfir annan.

Hjarðhegðun hættuleg

Þó Bjarni sjái fyrir sér vindorkuframleiðslu hér á landi vill hann alls ekki að farið verði of geist af stað. Ekkert liggi á. „Það versta sem gæti gerst væri að við færum af stað og byggðum eitt þúsund vindmyllur samtímis,“ sagði Bjarni í Silfrinu og bætti því við að hjarðhegðun væri alls ekki góð. Máli sínu til stuðnings benti hann á að árið 1989 hafi 150 fiskeldisstöðvar verið í kringum landið, sem flestar urðu líklega gjaldþrota, og 193 loðdýrabú hafi verið á landinu árið 1986 en nú séu þau tíu og berjist mögulega mörg hver í bökkum. „Við fengum þá grillu í höfuðið fyrir nokkrum að Ísland yrði alþjóðleg banka- og fjármálamiðstöð. Við vitum hvernig það fór. Það endaði næstum því með þjóðargjaldþroti, þannig að hjarðhegðun er stór, stór varhugaverð,“ sagði Bjarni.

Bjarni sagði því mikilvægt að fara hægt af stað og læra af reynslunni. Landsvirkjun sé búin að undirbúa sig af kostgæfni með því að safna gögnum úr tveimur vindstöðvum á hafinu fyrir ofan Búrfell. Þá sagði hann mikilvægt að velja réttan stað fyrir vindmyllugarða. Best væri að vera nærri núverandi virkjunum, en helst ekki á fjöllum þar sem vindmyllurnar sjást langar leiðir.

Fleira áhugavert: