Gas – Kostir og gallar
Grein/Linkur: Sá sem notar gas verður að þekkja kosti þess og galla
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
.
Maí 2008
Sá sem notar gas verður að þekkja kosti þess og galla
Fyrir nokkrum áratugum var gas einn tryggasti fylgifiskur pípulagningamanna. Annars vegar gas og súr til logsuðu, sérstaklega var það mikið notað þegar geislahitun var lögð í fjölmörg hús á árunum 1950-1970, hins vegar propangas sem notað var til að bræða blý eða brennistein til að hella í múffur á pottrörum, en slík rör voru notuð í frárennslislagnir innanhúss. Þetta er liðin tíð og þessi verktækni er líklega ekki lengur í þekkingarbúri þessarar stéttar. En gas er líklega nú orðið notað á öðru hverju heimili við matargerð og örugglega á öllum veitingahúsum. Það vita allir, bæði lærðir og leikir hve þægilegt gasið er, hvort sem er til suðu eða steikingar, þessi snöggu viðbrögð til hitunar eða kólnunar eru einstök. Það er hægt að fullyrða að gasbruni við réttar aðstæður og í vel loftræstu rými sé hættulítill, opnum eldi fylgir auðvitað alltaf viss hætta. Þess vegna er notkun á gashellum inni í venjulegum eldhúsum örugg, en auðvitað verður að nota viðurkennd tæki og umbúnaður allur verður að vera uppsettur af öryggi og þekkingu. En gas er kolefni og þá komum við að tískuumfjöllun nútímans eða hvað gerist við gasbruna? Til þess að gas geti brunnið, þannig að bruninn sé eins „hreinn“ og hægt er, þarf aðsog súrefnis að vera tryggt, annars brennur gasið ekki nægilega vel.
Það vita flestir að súrefni er bruna jafnnauðsynlegt og brennsluefnið sjálft. Þeir eru líklega ekki margir sem séð hafa eldsmið að störfum í smiðju sinni. Hann hitar stálið í glóandi kolum og knýr stöðugt físibelginn sem blæs lofti og þar með súrefni inn í logann. Tryggt súrefni er lykilatriði við góðan bruna, það á einnig við um gas. Við allan kolefnisbruna fellur til lofttegund sem heitir koltvísýringur og ber merkinguna CO2. Þetta er sú lofttegund sem er nánast á allra vörum því hún er nú tískusökudólgur heimsins og sagt að hún setjist að í háloftunum, sé það sem kallast gróðurhúsalofttegund og að þessi sami gróðurhúsahjálmur sé valdur að því að hitastig fari hækkandi á jörðunni. Hættum okkur ekki í rökræður um þetta, þarna er orðinn til rétttrúnaður á borð við trúarbrögð svo sem kristni og íslam. Koltvísýringur CO2 er algjörlega hættulaus mönnum og öðrum lífverum og undirstaða alls gróðurs, hvort sem það er gras eða tré. En koltvísýringur CO2á sér tvíburabróður sem heitir kolsýringur og ber merkinguna CO.
Á þessum heitum er auðvelt að ruglast en það má ekki gerast. Það er vegna þess að sá fyrrnefndi, CO2, er skaðlaus með öllu en sá síðarnefndi, CO, getur verið baneitraður. Eins og fyrr var sagt fellur alltaf til eitthvað af hinum saklausa CO2 við bruna og jafnvel örlítið af hinum skaðlega CO, en svo lítið að það skaðar ekki. En ef gasbruninn er lélegur, svo sem vegna vanstilltra tækja eða skorts á súrefni, þá er sá illi CO fljótur að taka við sér og það myndast meira af honum. Kolsýringur CO er svo magnað eitur að hver sá sem fer inn í rými þar sem loftið er mettað kolsýringi CO að 0,1% mun þegar missa meðvitund og er dáinn innan 1 klukkustundar. Sé mettunin 1% þá er dauðinn vís samstundis. Hvað er það sem gerir kolsýring CO svo hættulegan, hvers vegna hefur hann þessi skelfilegu áhrif með aðeins 1% mettun sem þýðir að það er mikið súrefni í loftinu? Ef maður andar að sér lofti með 1% mettun CO þá eyðileggur CO samstundis rauðu blóðkornin þannig að þau geta ekki nýtt sér súrefnið, þess vegna er kolsýringur CO svo hættulegur. Hættan er engin við notkun á gasi til eldunar en það má þó aldrei nota gashellur í lokuðu og gluggalausu rými. Það hafa orðið dauðaslys þar sem gas hefur verið notað til lýsingar í fjallaskálum. Slíkt gerist ekki í tjöldum, þar er súrefnið ávallt nægilegt. Gamlir gisnir fjallakofar eru einnig næglega vel loftræstir, en hættan leynist í nýjum eða vel endurbyggðum skálum. Þar er allt pottþétt og ef enginn gluggi er opinn, en gasbruni innanhúss, er veruleg hætta á ferðum. Svo má bæta því við að hinir alvitru reka harðan áróður fyrir aukinni notkun dísilbíla vegna þess að þeir séu svo miklu minna mengandi en bensínbílar. Dísilvél gefur frá sér fimmtungi meira af hinni meinlausu lofttegund CO2 en tíu sinnum meira af hinni eitruðu CO. Dæmi svo hver fyrir sig um leiðsögn vitringanna.