Langstærsta vatnsaflsvirkjun sögunnar

Heimild: 

.

Nóvember 2019

Kárahnjúkar og Kína

Aldrei að segja aldrei. En væntanlega er það samt svo að stærsta vatnsaflsvirkjun sem byggð verður á Íslandi er risin. Kárahnjúkavirkjun.

three_gorges_dam-1.jpg

three_gorges_dam – SMELLA Á MYNDIR TIL AÐ STÆKKA

Metin eru aftur á móti enn að falla þegar litið er til heimsins alls. Nú fyrir rétt rúmri viku síðan urðu þau merku tímamót að lónshæð Þriggja gljúfra virkjunarinnar austur í Kínaveldi náði í fyrsta sinn hámarkshæð sinni (þetta markmið náðist þriðjudaginn 26. okt. 2010). Þar með getur þessi magnaða 18 þúsund MW risavirkjun senn farið að skila fullum afköstum. Sem mun skila u.þ.b. 85 TWst inn á dreifikerfið í Kína á ári, en það samsvarar um fimmfaldri raforkuframleiðslu allra virkjana á Íslandi!

En þó svo þetta mikla verkefni sé nú að baki, þá eru Kínverjar langt frá því að vera hættir í vatnsaflinu. Því þeir vinna nú að hugmyndum um sannkallaða ofurvirkjun, sem yrði næstum tvöfalt stærri en nýja risavirkjunin kennd við gljúfrin þrjú. Og sennilega bara tímaspursmál hvenær af því verður að þessi ótrúlega virkjun rísi – í ósnertum dölum Tíbets.

Það er reyndar svo að jafnvel Orkubloggarinn á erfitt með að átta sig á umfangi svona framkvæmda eins og þarna austur í Kína. Enda hefur bloggarinn aldrei komið á svæðið. En það er magnað að skoða myndir frá virkjunarsvæði Þriggja gljúfra stíflunnar – hvort sem eru af stíflumannvirkjunum, uppistöðulónunum eða skipastigunum.

three_gorges_three_gorges_dam_project_yangtze_river_2005.jpg

hree_gorges_three_gorges_dam_project_yangtze_river_2005

Það segir talsvert mikið um geggjaða stærðina, að virkjunin samanstendur af alls 26 hverflum (túrbínum) sem hver og einn er aflmeiri en samanlögð Kárahnjúkavirkjun! Því hver hverfill er nett 700 MW (Kárahnjúkavirkjun er alls 690 MW). Svo á virkjunin þar að auki eftir að stækka talsvert á næstu árum þegar sex hverflum verður bætt við. Þá verður aflið samtals rúmlega 22 þúsund MW og virkjunin mun þá framleiða hátt í 100 TWst árlega (nú um 85 TWst).

Það er ekki nóg með að Kínverjar hafi smíðað einhverja mestu skipastiga heimsins upp meðfram stíflunni, heldur eru þarna líka skipalyftur. Það tekur nefnilega skolli langan tíma fyrir skip, sem sigla eftir Yangtze-fljótinu, að fara eftir stigunum. Þess vegna var ákveðið að gera líka lyftur til að flýta fyrir skipaumferðinni!

three-gorges-dam-water.jpg

three-gorges-dam-water

Þriggja gljúfra virkjunin er langstærsta vatnsaflsvirkjun sögunnar – til þessa. Sem fyrr segir er afl virkjunarinnar nú um 18 þúsund MW, sem er um níu sinnum meira afl en allar vatnsaflsvirkjanir á Íslandi samanlagðar. Og um 30% meira en næst stærsta vatnsaflsvirkjun heimsins, sem er Itaipu-virkjunin á landamærum Brasilíu og Paraguay. Hún er 14 þúsund MW, en fullgerð verður Þriggja gljúfra virkjunin um 60% stærri en Itiapu að afli.

Fyrir þá sem álíta gott að Landsvirkjun fái þetta ca. 25 mills fyrir kWst frá Fljótsdalsstöð má nefna að raforkuverðið frá Þriggja gljúfra virkjuninni er á bilinu 35-45 mills! Þessi samanburður verður jafnvel ennþá athyglisverðari þegar haft er í huga að hvert MW í Þriggja gljúfra virkjuninni kostaði einungis um 1,5 milljón USD – sem er a.m.k. 25% minna en hvert MW mun kosta í neðri hluta Þjórsár. Við erum sem sagt að byggja dýrari virkjanir (m.v. uppsett afl) heldur en Kínverjarnir, en samt að selja raforkuna á miklu lægra verði. Það gengur svona.

three-gorges-dam-map.gif

three-gorges-dam-map

Reyndar eru afköst íslensku virkjananna almennt mun meiri en gengur og gerist hjá vatnsaflsvirkjununum austur í Kína (þ.e. framleiðsla pr. MW). Fyrir vikið er unnt að reka íslensku virkjanirnar þrátt fyrir þetta áðurnefnda ofurlága raforkuverð til álveranna hér á Íslandi. En þetta breytir því ekki að hér á landi erum við að selja raforku frá nýjum vatnsaflsvirkjunum á verði sem þekkist hvergi annars staðar í heiminum.

Vissulega geta álver og önnur stóriðja fundið ódýra orku víðar en á Íslandi – eins og t.d. gasorkuna við Persaflóann. En það er slæmur bissness fyrir nýja vatnsaflsvirkjun að selja rafmagnið á jafn lágu verði eins og gerist hér.  Þetta segir okkur einfaldlega að þegar neðri Þjórsá verður virkjuð verður að miða við að orkuverðið þaðan verði a.m.k. 40-45 mills. Allt annað væri algerlega fráleitt í alþjóðlegu samhengi.

hvdc_china_cables.jpg

hvdc_china_cables

Það skemmtilega við þessa rosalegu virkjun þarna í Yangtze djúpt inni í Kína, er að hún hefur leitt til mikilla framfara í raforkuflutningum. Flytja þarf allt þetta gríðarlega rafmagn (85 og síðar 100 TWst árlega) hina löngu leið frá virkjuninni; þúsundir km austur til þéttbýlisins (mest fer til Shanghai-svæðisins). Þetta hefur leitt til þess að nú er komin ennþá meiri þekking og enn meiri reynsla á gríðarlangar háspennutengingar, sem flytja raforkuna á áfangastað í formi jafnstraums (HVDC-kaplar).

Þetta hefur einnig stuðlað að framförum í löngum neðansjávarstrengjum. Fyrir vikið gæti þróunin í Kína flýtt fyrir því að rafmagnskapall verði lagður milli Íslands og annarra landa. Og þá myndum við loks geta fengið álíka verð fyrri raforkuna – og jafnvel umtalsvert hærra verð – heldur en Þriggja gljúfra virkjunin fær fyrir sitt rafmagn. Það er því fullt tilefni fyrir Íslendinga að horfa björtum augum til framtíðar.

yarlung_tsangpo_river_tibet.jpg

yarlung_tsangpo_river_tibe

Að lokum er vert að nefna að þó svo einungis rúm vika sé síðan vatnborð Þriggja gljúfra lónsins náði hámarki, eru Kínverjarnir strax byrjaðir að skipuleggja næstu risastíflu. Sem á að verða miklu stærri! Þar er um að ræða lauflétta 40 þúsund MW virkjun í einni af mestu stórám Asíu – ánni sem kennd er við sjálfan son hindúaguðsins Brhama.

Áin Brhamaputra heitir reyndar Yarlung Zangbo þarna sem hún rennur eftir gríðarmiklum dölum hátt uppi á tíbetsku háslettunni rétt norðan Himalaja-fjallanna. Þar er lækkunin um 1.500 m á nokkuð löngum kafla, en svo steypist áin ofan af hásléttunni og fellur þá um einhver svakalegustu gljúfur sem um getur í heimi hér.

yarlung-valley.jpg

yarlung-valley

Á einum stað treður áin sér á milli tindanna Namche Barwa og Gyala Peri, sem báðir eru yfir 7 þúsund metra háir og liggja austarlega í Himalaja-fjallgarðinum. Sjálfir tindarnir rísa þarna litla 5 þúsund metra upp af þröngum dalnum og segja kunnugir þetta einhverja mestu náttúru-upplifun á jörðinni allri. Hljómar ekki óspennandi. Stórleikur landskaparins – eins og Sigurður heitinn Þórarinsson lýsti náttúrufegurðinni í Skaftafelli – er hugsanlega hvergi meiri en einmitt þarna í frjósömum dölum Himalaja.

Monsúnrigningarnar sjá fyrir því að brattar hlíðarnar eru skógi vaxnar hátt upp og dýralífið hreint dásamlegt þarna í fjallasalanum frjálsa. Þar fellur áin í mörgum ofsalegum fossum og kannski er þetta það svæði sem mannshöndum ætti síðast að ná að setja mark sitt á. En Kínverjarnir eru ekkert að jarma með svoleiðis rómantísku söngli, enda er þarna um að ræða afar spennandi fallhæð.

Vesenið er bara að Yarlung Zangbo fellur síðan suður til Indlands og þaðan inní Bangladesh, þar sem hún sameinast sjálfri Ganges. Þess vegna eru Kínverjar ekki alveg afskiptalausir um hvað þeir gera við ána og nágrannar þeirra í suðri eru strax byrjaðir að nöldra útí stórhuga áform þeirra um að virkja Brahmhaputra.

brahmaputrarivermap.png

brahmaputrarivermap

Ekki verður framhjá því litið að áin hefur mikil og bein áhrif á líf tugmilljóna ef ekki hundruð milljóna manna (hvað mest á óshólmasvæðunum rosalegu í Bangladesh). Tilfæringar með ána norður í Tíbet er því svolítið flóknara og umfangsmeira mál heldur en t.d. vatnshæð Hálslóns eða áfok þaðan. Nú er bara að sjá hvort Kínverjar láta slíkt smáræði stöðva sig. Skiljanlega súrt fyrir þá að sjá allt þetta ofsalega afl streyma óvirkjað til sjávar hér í orkuþyrstum heimi. En það er líka umhugsunarefni hvort enginn staður á jörðinni eigi að fá að vera í friði fyrir mannskepnunni?

Fleira áhugavert: