Drekasvæðið, sagan 2009 – Hversu stór Orkulind?

Grein/Linkur: Æpandi bjartsýni

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

.

Æpandi bjartsýni

Orkubloggð er að velta því fyrir sér hvort sitthvað kunni að vera rotið í umfjöllun um Drekasvæðið íslenska.

Mbl_2009-01-10

Mbl_2009-01-10

Í Moggatuskunni í dag – eða öllu heldur í gær laugardag –  sá ég skemmtilega úttekt á náttúruauðlindum Íslendinga. Og fræddist þar m.a. um að timburvinnsla eigi eftir að skila Íslendingum milljörðum í tekjur.

Það er gott að vera bjartsýnn. Reyndar man ég ekki betur en búið sé að létta þeirri byrði af íslenskum skógabændum, að þurfa að endurgreiða styrki til skógræktar þegar að vinnslu kemur. Gott að vita að þjóðin borgi skógræktina en tekjurnar renni til skógabænda. Byggðastefnan ekki dauð úr öllum æðum. Geisp.

En víkjum nú að því sem Mogginn skrifar um olíuna. Í Morgunblaðinu stóð nefnilega líka, að á Drekasvæðinu íslenska megi líklega finna allt að 10 milljarða tunna af olíu. Sjá bls. 18 í laugardagsblaðinu. Og þar er blaðamaðurinn búinn að reikna að þetta geti þýtt 98 þúsund milljarða króna í tekjur fyrir Ísland.

Þetta þykir Orkublogginu hreint makalaus bjartsýni. Það ætti eiginlega að rassskella menn fyrir að birta svona draumsýn á prenti. Orkubloggið ætlar samt að bæta um betur, enda er bloggið í góðum bjartsýnisfíling þessa dagana. Og spá því að stærsta demantanáma í heimi finnist brátt ofaní gíg Snæfellsjökuls. Hinn eini sanni leyndardómur jökulsins!

terje_hagevang

terje_hagevang

Skoðum þennan spádóm Moggans um Drekasvæðið aðeins betur. Undanfarna mánuði hafa reyndar dunið á okkur fréttir um hugsanlega olíu á Drekasvæðinu. Djúpt undir Jan Mayen-hryggnum á landgrunninu norðaustan Íslands. Í þessum fréttum er hvað oftast vitnað í hinn norska Terje Hagevang, hjá Sagex Petroleum. Það er einmitt Sagex sem vann skýrslu um þessi mál fyrir íslensk stjórnvöld. Ég býst við að hann Jón í Byko og aðrir eigendur Sagex, séu nú eflaust vongóðir um að fjölmörg olíufélög vilji kaupa af þeim gögn um Drekasvæðið. Þegar íslensk stjórnvöld hafa úthlutað leitarleyfunum – sem mun eiga að gerast síðar á árinu.

Drekasvaedi_4

Drekasvaedi_4

Hann Terje Hagevang hjá Sagex spáir því sem sagt, að allt að 20 milljarðar tunna af olíu geti komið upp af Drekasvæðinu. Þar af um 10 milljarðar tunna Íslandsmegin og annað eins Noregsmegin.

Þetta eru gríðarlega háar tölur. Setjum þær í eitthvert samhengi. Síðan olíuævintýri Norðmanna hófst fyrir um 35 árum, hafa einmitt samtals rúmar 20 milljarðar tunna komið þar upp. Þannig að nú eru menn að spá því að olíuævintýrið á Drekasvæðinu einu muni jafnast á við 35 ára olíuvinnslu á norska landgrunninu öllu. Og þá ekki aðeins 35 ára vinnslu Norðmanna í Norðursjó, heldur líka vinnsluna sem átt hefur sér stað í Noregshafi (og í Barentshafi).

Ekofisk_field

Ekofisk_field

Annar samanburður: Á þessum 35 árum hefur risaolíusvæðið Ekofisklíklega gefið af sér „skitna“ 2,5 milljarða tunna af olíu. Og þar er talið að eftir sé að ná upp um 1 milljarði tunna. Sem sagt, þá gæti Ekofisk alls gefið af sér 3,5 milljarða tunna af olíu.

M.ö.o. þá eru menn nú að segja, að á Drekasvæðinu sé átta sinnum meiri olía en Ekofisk hefur gefið af sér síðustu 35 árin. Og að íslenski hluti Drekans muni skila fjórum sinnum meira, en Ekofisk hefur gert. Tilefni til að öskra húrra!

Minnt skal á að Ekofisk er stærsta olíulind Norðmanna – og sögulega séð sú langmikilvægasta. Hvað um það. Ekofisk er auðvitað bara peanuts, þegar kemur að íslenskum stórhug!

En höldum samanburðinum áfram. Í dag eru allar olíubirgðir Norðmanna – þ.e. vinnanlegar birgðir sem á fagmáli kallast „proven reserves“-  áætlaðar vel innan við 8 milljarðar tunna. Og óunnar olíubirgðir Bandaríkjanna eru nú áætlaðar um 20 milljarðar tunna. Sem sagt svipað magn og menn eru að segja að séu á Drekasvæðinu einu. Lifi Drekinn.

Það er vissulega mikill munur á líklegum vinnanlegum olíubirgðum og mögulegum birgðum. Proven reserves (líklegar birgðir) miðast oft við að a.m.k. 90% líkur séu á að olían sé fyrir hendi, en mögulegar birgðir (possible reserves) miðast við allt niður í 10% líkur.

Ekofisk_production

Ekofisk_production

Orkubloggið furðar sig samt á því að fagmenn í olíubransanum skuli taka svo stórt upp í sig, að spá því að 20 milljarðar tunna komi upp af Drekasvæðinu. Þar af 10 milljarðar Íslandsmegin. En hvaða tuð er þetta? Lárum okkur dreyma…

Orkubloggið getur ekki látið hjá líða að vekja athygli á því, að tilvitnanirnar í Terje Hagevang um tugmilljarða tunna af Drekablóði, eru þeim mun undarlegri þegar lesin er nýleg skýrsla iðnaðarráðuneytisins um Drekasvæðið. Skýrslan sú er ekki síst byggð á upplýsingum frá Sagex. Og þar segir ítrekað að mikil óvissa sé um að olía eða gas finnist á svæðinu.

Samkvæmt umræddri skýrslu er bjartsýnasta spáin um olíufund á Drekasvæðinu eftirfarandi (sjá bls. 50 í skýrslunni): Að þar finnist 70-140 milljón rúmmetrar af olíu og 195 milljarðar rúmmetra af gasi. Sem er talsvert magn. Í olíutunnum jafngilda 140 milljón rúmmetrar af olíu tæplega 900 milljón olíutunnum. Það munar öllu meira um þá risastóru gaslind, sem menn eru að gæla við að þarna finnist. Því 195 milljarðar rúmmetra af gasi jafngilda vel yfir 1 milljarði tunna af olíu (ca. 1,2 milljarði tunna).

Samtals yrðu þetta birgðir upp á jafngildi 2,1 milljarðar tunna af olíu. Þessar tölur úr umræddri skýrslu eru þó langt frá þeim 10 milljörðum tunna, sem þeir Sagex-menn eru nú að veifa. Þarna er sem sagt verulegt misræmi á ferðinni.

En hver er svona ringlaður? Rugluðust þeir Terje og Sagex-menn sjálfir eitthvað í ríminu? Eða er það barrrasta Orkubloggið sem er svona útúrruglað? Og sjá íslenskir blaðamenn enga ástæðu til að horfa gagnrýnum augum á svona svakalega háar tölur? Að það sé í alvöru séns að finna 20 milljarða tunna af olíu á Drekasvæðinu einu. Af hverju tala þeir a.m.k. ekki við fleiri „sérfræðinga“.

sagex_logoMálið fer að verða æsispennandi. Ekki minnkar það spennuna, að síðdegis í dag (laugardag) hafði Orkubloggið einfaldlega samband við Terje hjá Sagex. Og spurði hann hvort íslenskir fjölmiðlar væru að hafa rétt eftir honum, um þessa tugmilljarða tunna af olíu á Drekasvæðinu. Og skemmst er frá að segja, að Orkublogginu til mikillar undrunar staðfesti Terje það. Að fjölmiðlarnir vitni rétt í sig. Að finna megi allt að 20 milljarða tunna af olíu á Drekasvæðinu. Og þar af séu 10 milljarðar tunna Íslandsmegin.

Orkubloggið kann Terje og Sagex bestu þakkir fyrir skjót og skýr svör. Hann Jón í Byko má vera stoltur af strákunum sinum.

Orkubloggið svaraði reyndar Terje að bragði, að þetta hlyti nú að teljast ansið hreint hressilega bjartsýn spá. En bloggið hefur enn ekki fengið neitt svar við þeim tölvupósti. Líklega hefur Terje ekki þótt þetta nöldur svaravert. Enda bloggið bara íslenskur tuðari – sem lengi vel var meira að segja aðdáandi Bjarna Ármannssonar.

Það er augljóslega mikið ósamræmi milli skýrslu Iðnaðarráðuneytisins og þess sem nú er haft eftir Sagex. Stóra spurningin er hver gerði mistök. Kannski lentu ráðuneytismenn bara í einhverjum þýðingarvandræðum, sem varð til að þeir stórlækkuðu spá um auðlindir Drekasvæðisins. Þá ættum við öll að opna kampavínsflöskurnar strax á morgun.

Oil

Oil

En eitthvað segir mér að þeir hjá Sagex ættu að kíkja aðeins betur á minnismiðana sína. Áður en við öll hreinlega drukknum í þessum tugmilljörðum tunna af olíu. Það er hreinlega ekki trúverðugt að setja fram spá upp á 10 milljarða olíutunna á íslenska Drekasvæðinu.

Og íslenskir fjölmiðlar ættu að vinna heimavinnuna sína örlítið betur. Álfarnir hjá bæði Morgunblaðinu og Sagex – afsakið orðbragðið – ættu að vita það að ef 10 milljarðar tunna af olíu myndu finnast á Drekasvæðinu íslenska, yrði Ísland einfaldlega á svipstundu eitt mesta olíuríki heims. Þetta magn myndi standa undir áratugaframleiðslu upp á ca. 2 milljónir tunna a dag. Við Íslendingar yrðum þá með sambærilega framleiðslu eins og Brasilía eða Alsír eða Angóla eða Líbýa. Og með næstum fjórðung á við olíuframleiðslu Bandaríkjanna. Nema hvað við erum þúsund sinnum færri en Bandaríkjamenn – og yrðum því hreinlega fáránlega rík.

money!

money!

Því miður hefur Mogginn augljóslega hlaupið á sig.  Þetta er alltof mikil bjartsýni að spá 10 milljörðum tunna af olíu á íslenska Drekanum (og 20 milljörðum tunna á svæðinu öllu). Kreppan mun ekki hverfa eins og dögg fyrir olíusól.

Og því miður virðast þeir hjá Sagex heldur ekki mjög sleipir í tölum. Svolítið óhugnarlegt ef iðnaðarráðuneytið byggir olíuáætlanir sínar aðallega á slíkum „sérfræðingum“. Er ráðgjöfin hjá Össuri og félögum gjörsamlega í molum? Þeim hjá ráðuneytinu hefði kannski verið nær að tala fyrst við Orkubloggið!

Fleira áhugavert: