Raforkuspá Íslandi – Skortur, olíubruni

Grein/Linkur:  Raforkuskortur næstu ár með skerðingum og olíubruna

Höfundur: Bjarni Rúnarsson

Heimild: 

.

Smella á mynd til að heyra umfjöllun

.

Janúar 2022

Raforkuskortur næstu ár með skerðingum og olíubruna

Það stefnir í raforkuskort hér á landi. Landsnet kynnti í dag nýja skýrslu um afl og orkujöfnuð á árunum 2022-2026. Þar er metið hvort uppsett afl og orka virkjana geti annað eftirspurn. Fyrirséð er að brenna þurfi olíu til að framleiða rafmagn á næstunni að mati yfirmanns greiningar og áætlana hjá Landsneti. Aflskorturinn ætti að sveiflast undir og yfir viðmiðunarmörk Landsnets á næstu árum, en 2025 og 2026 verður skorturinn orðinn þónokkur.

Raforkuspá gerir ráð fyrir að þörf fyrir raforku aukist um 105 megavött til ársins 2026 en fyrirséð aukning í framboði er ekki nema tæp 37 megavött. Gnýr Guðmundsson er yfirmaður greiningar og áætlana hjá Landsneti

„Helstu niðurstöðurnar eru að það lítur allt út fyrir að það sé nú þegar orðinn orkuskortur í landinu. Það er á þessu ári eins og við vitum og það er viðbúið að þetta ástand sé komið til að vera, amk næstu ár yfir það tímabil sem þessi skýrsla nær yfir sem er til 2026.“

Og af hverju stafar það?

Það stafar af því að notkun á raforku hefur verið að aukast jafnt og þétt seinustu árin. Framleiðslugeta raforku hefur ekki haldið í við þessa þróun. Bilið á milli þess sem við erum að nota og því sem við getum framleitt hefur alltaf verið að minnka. Nú er það orðið það lítið að það dugar ekki. Nú hafa sveiflur í vatnsárum mjög mikið að segja eins og það lítur út fyrir núna. Núna er slæmt vatnsár eins og við vitum, og það þarf að skerða talsvert mikið af raforku. Það er hætt við því að strax á næsta ári þurfi að skerða í mun betra vatnsári heldur en er nú. Eins og við sjáum þetta þá er þetta komið til að vera eins og staðan lítur út fyrir í dag og ef þróunin verður eins og Raforkuspá gerir ráð fyrir.“ segir Gnýr.

Lítið um nýjar virkjanir eða stækkanir

Við vinnslu skýrslunnar var horft til Raforkuspár til ársins 2060 og tekið tillit til þróunar í almennri notkun miðað við fólksfjöldaspár og litið til þeirra stórnotendasamninga sem þegar liggja fyrir. Því er ekki gert ráð fyrir stórfelldri aukningu í notkun hjá t.d. stóriðju eða slíku.

„Þannig að þetta er aðallega aukning á þessarri almennu raforkunotkun. Svo bara þessi áform sem við þekkjum um uppbyggingu á orkuframleiðslueiningum sem eru ekki miklar núna. Það er verið að byggja tvær smávirkjanir sem við þekkjum til og svo er verið að stækka virkjunina úti á Reykjanesi um 30 MW. Þetta dugir ekki til að halda. Það er þarna munur á þessu, það er að bætast við mun meiri notkun en er að virkja í rauninni.“

Það hefur sprottið upp þessi umræða um orkuskort. Raforkuverð fer hækkandi í löndunum í kringum okkur, t.d. í Noregi. Er raforkuparadísin Ísland ekki sú sama og hún var áður?

Ég held að þetta eigi eftir að breytast hérna eitthvað. Þessi þróun gefur amk tilefni til þess. En þess ber þó að geta eins og hefur komið fram víða að stór hluti af orkunotkun hérna er bundin í samningum við þessa stóru aðila sem eru að kaupa stóran hluta af orkunni. Það er kannski á föstum verðum. Það er spurning hvað gerist með hitt.“ segir Gnýr.

Einfaldast að virkja og styrkja flutningskerfið

Hvað er til ráða?

„Já það er eins og kemur fram í skýrslunni. Það eru nokkrar leiðir. Einfaldasta leiðin er bara að virkja meira, þó að það sé kannski ekki vinsælt að segja það þá er það bara staðreynd. Svo getum við líka reynt að spara orku. Til dæmis með því að minnka töp í þessum kerfum. Stærsti hluti af sóun raforku á Íslandi er í töpum í flutningskerfinu sem dæmi. Það er gert með því að byggja sterkari línur, eins og við erum þegar í gangi með að endurnýja byggðarlínuna sem er að verða 50 ára gömul. Svo er hægt að nýta betur þær virkjanir sem til eru. Við erum að tapa talsvert mikilli raforku út af flutningskerfinu. Það er hægt að byrja á að nýta það. Svo er hægt að taka ákvörðun um að minnka notkun á raforku markvisst. Það er líka ein leið en það er ekki eitthvað sem við getum ákveðið.

Olíubrennsla fyrirséð

Það virðast ekki vera nein stór áform um virkjanir á teikniborðinu en þetta er vandamál sem virðist vera að skella á innan fárra ár, skemmri tíma en það tekur að byggja virkjanir. Hvað verður hægt að gera í því?

Ég held að við þurfum bara að reyna að lifa við þetta næstu árin. Við þurfum að reyna að spara orku eins og við getum og stýra því hvernig við högum okkur í þessu en það er alveg ljóst að það tekur tíma að byggja virkjanir. Það eru náttúrulega einhverjar virkjanir í undirbúningi en þær eru ekki að fara að detta inn á næstu tveimur árum. Þannig að þetta verður svolítið erfitt, töff hjá okkur. Við erum að fara að brenna einhverri olíu á næstu árum, það er fyrirsjáanlegt.“ segir Gnýr.

Hamlar ekki orkuskiptum í samgöngum

Orkuskipti eru á fullri ferð og rafvæðing bílaflotans og annarra farartækja er þar fyrirferðamikil. Þrátt fyrir fyrirséðan orkuskort segir Gnýr að raforkuskorturinn ætti ekki að hamla þeim umskiptum.

„Ég held að almenningur þurfi ekki að spá í þetta. Almenningur getur alvegt haldið áfram að kaupa sér rafmagnsbíla eins og þau hafa verið að gera. Við mælum bara eindregið með því  að fólk geri það. Þetta er kannski ekki af þeirri gráðu. Til lengri tíma litið verðum við að gera eitthvað í þessu því orkuskiptin þurfa mikla orku. Ég veit að Samorka hefur verið að skoða þetta mikið, sem eru öll orkufyrirtækin og veitufyrirtækin á landinu. Stærðargráðurnar sem eru nefndar þar eru þess eðlis að það er nauðsynlegt að fara í einhverjar aðgerðir til að mæra þeirri orkuþörf. En það kemur ekki inn alveg strax, þetta kemur hægt og rólega til að byrja með allavega.“ segir Gnýr.

Fleira áhugavert: