Bræðurnir frá Bakka, sólarorka – Voru þeir snillingar á undan sinni samtíð?

Grein/Linkur: Voru Bakkabræður snillingar á undan sinni samtíð?

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: mbl

.

Gísli, Eiríkur og Helgi ..ekki er ljóst hverra manna þeir voru

.

Júní 2006

Voru Bakkabræður snillingar á undan sinni samtíð?

Norður í Svarfaðardal á bænum Bakka bjuggu bræðurnir Gísli, Eiríkur og Helgi. Þeir hafa löngum verið taldir heimskustu Íslendingar sem nokkru sinni hafa í heiminn fæðst. Af þeim hafa verið sagðar margar sögur sem allar virðast styðja þá kenningu. Engum sögum fer af því að þeir bræður hafi verið við konur kenndir svo líklega stendur enginn ættbogi frá þeim í Svarfaðardalnum, það er þó aldrei að vita.

Víst má telja að baðstofur hafi ekki verið háreistar á Bakka og gluggar aðeins litlir skjáir. Það þótti nauðsyn á þeim tímum til að missa ekki þá litlu hlýju sem var í hreysunum á vetrum. Af sjálfu leiddi að þá barst lítil birta inn í bæinn þegar sól skein í heiði um hásumar. En bræðurnir á Bakka voru þó nokkrir hugsuðir og greinilega á undan sinni samtíð. Þeir voru ekki ánægðir með að sitja yfir súrmeti og drafla í hálfrökkri þegar sólarbirta flæddi um allt úti.

Hvergi er þess getið í annálum að nokkrum öðrum Íslendingum, hvort sem voru kotbændur eða höfðingjar, hafi dottið í hug að leiða sólskinið, eða réttar sagt bera það í bæi sína, nema Bakkabræðrum.

Þeir tóku ofan pottlokin og reyndu að fylla þau af sólskini og bera í inn, hafa síðan verið hafðir að háði og spotti af landsmönnum sínum fyrir Íslandsmet í heimsku.

En var þetta svo víðáttuvitlaust sem Bakkabræður voru að gera, voru þetta ekki miklu fremur spekingar sem voru langt á undan sinni samtíð? Fæðingarvottorð þeirra bræðranna hafi ekki varðveist svo vitað sé, á hvaða öld þeir voru uppi er nokkuð á reiki, en víst er að þeir voru uppi fyrir nokkuð löngu síðan. Eftir allar þessar aldir eru ungir Svíar að gera nákvæmlega það sem Bakkabræðrum mistókst, enda tækni þeirra tíma ekki saman að jafna við það sem nútíma Bakkbræður hafa yfir að ráða í sínum sænska Svarfaðardal. Eitt er víst; það er staðreynd að menn eru byrjaðir að leiða sólarljósið inn í hús. Þó gera þeir það ekki í kollhúfum sínum. Reyndar var fyrsta sólarljósakerfið ekki sett upp í Svíþjóð heldur í Baskalandi, nánar tiltekið í höfuðborg þeirra Bilbao þar sem vígamenn ETA hafa gengið um götur og senda menn til Madríd og víðar til að kála mönnum sem þeim var í nöp við. En auðvitað voru tengslin sænsk því sólarveitan var lögð í verslunarhús sænsku keðjunnar IKEA þar í borg.

En hvar er þörf fyrir slíkar sólarveitur, er ekki einfaldlega hægt að setja stóra glugga á öll hús eða einfaldlega nota rafmagnsljós? Svarið við fyrri spurningunni liggur í augum uppi ef komið er í verslun IKEA í Holtagörðum. Þar er á löngum göngum erfitt að fá sólarljósið inn í hvern krók og kima í gegnum glugga. Rafmagnið kostar alls staðar peninga, sólarljósið er ókeypis meðan sólin skín.

En það er ekki nema von að spurt sé; er hægt að fanga sólarljósið og senda það inn í myrk herbergi þar sem því er sleppt lausu? Já, það er hægt, þessi snjalla uppfinning Bakkabræðra er orðin að raunveruleika og enn sannast hið fornkveðna; fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá.

Örstutt lýsing á hvernig það er gert. Sólarljósið hefur lengi verið fangað til að framleiða varma og jafnvel raforku, þetta með sólarljósið er svipað ferli. Fyrst er sólarljósið fangað í ákveðna skerma og sent frá þeim um kapla sem enn er ekki búið fyllilega að finna íslenskt orð á, en Svíarnir kalla þá „fiberoptiska“ sem gróflega útleggst að vera trefjasjónpípa. Þegar á hinn dimma stað er komið er sólarljósinu hleypt inn á sérhannaða lampa þar sem sólskinið flæðir á sama hátt og utanhúss. Það sem er merkilegt við þessa tækni er hve harla einföld hún er, þannig er það oft um það sem skilar góðum árangri. Það þarf þetta þrennt; sólarljósafangara sem kallast SkyPort, trefjasjónpípu eða kapla sem nefnast SunWire og síðan sólarljósalampa sem eiga að skína svo glatt, gott hvort samlandi Bakkabræðra hefur ekki léð þeim nafn sitt, en þeir heita því ágæta nafni Björk.

En auðvitað verður sólin að skína til að hægt sé að fanga geisla hennar en það sparar peninga auk þess sem fólk finnur muninn á því að vera í sólskini eða raflýsingu, ekki vafi.

Fleira áhugavert: