Lagnir í sameign – Fúll á móti

Grein/Linkur: Lagnir í sameign

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: mbl

.

.

Júní 2006

Lagnir í sameign

Hann er ekki einn í heiminum, hann á sér marga albræður og reyndar systur líka. Stundum býr hann á fyrstu hæð eða á annarri eða þriðju, sárasjaldan í kjallaranum. Hann er stjórnsamur að eðlisfari, tilfinningalegur einfari og ætti í raun að heita Palli því að stundum má ætla að hann sé einn í heiminum, hans er ríkið, mátturinn og dýrðin. Hann er sem sagt eigingjarn púki með afbrigðum.

Auðvitað ætti hann að búa einn upp til afdala langt frá öðrum mannlegum verum því hann er gjörsamlega óþolandi.

Hver er hann? Þú þekkir hann jafnvel, hann er Fúll á móti. Hann býr í þessu óþolandi sambýlisformi þar sem fjórar íbúðir eða færri eru í sama húsi, í þessu sambýlisformi sem heppnast stundum ágætlega ef hann er ekki einn af eigendunum hann Fúll á móti.

Það skyldi þó ekki vera að hann sé nágranni þinn, þeir eru út um allt og öllum til leiðinda sem þá verða að umgangast.
Fyrir alllöngu síðan voru sett nokkuð ítarleg lög um fjöleignahús. Þá var ekki lengur talað um fjölbýlishús því þessi lög giltu um öll hús, hvort sem þau voru íbúðarhús eða atvinnuhúsnæði, sem voru í eigu fleiri en einnar persónu eða lögaðila. Nú skyldi það ekki vera álitamál hver væru réttindi og skyldur þeirra sem ættu hlut í slíkum fasteignum. Að sjálfsögðu áttu allir sín réttindi en þeir báru einnig skyldur.

Þessi lög hafa gert mikið gagn og nú má segja að þau séu tekin alvarlega af flestum, en á því er samt misbrestur. Það skrítna er að eftir því sem fjöleignahúsið er minna og eigendurnir færri er minna tillit tekið til laganna.

Og það er ótrúlega algengt að í þessum fámennu samfélögum komist einstaklingar upp með að taka öll völd, taka ekkert tillit til sameigenda og nágranna. Þeir tilheyra þó nokkuð fjölmennum hópi í okkar samfélagi, þeir hafa engin samtök með sér, þeir vinna hver í sínu horni enda algjörir einstaklingshyggjumenn.

En þeir eru allir alnafnar og heita Fúll á móti.

En hvað hafa þessir vesalings menn, sem hér er verið að ráðast á, af sér gert? Aðallega það að í samskiptum við sameigendur sína hundsa þeir algjörlega lög sem gilda í landinu og þeir komast upp með það.

Stundum hefur þeim tekist það sem á slangri kallast að terrórísera þá sem eru undir sama þaki, stundum fara þeir miklu mýkri leiðir. En allt kemur niður á sama stað, samskiptareglur sem þó eru lög, eru að engu hafðar.

Tökum nokkur dæmi.

Húsið er orðið áratuga gamalt og veitti ekki af málningu utanhúss.

Tveir eigendur hafa í nokkur ár reynt að fá því framgengt að húsið sé málað. En Fúll á móti segist ekki hafa nein efni á slíku og þar við situr og hefur setið lengi. Skyndilega deyr forrík amma þess Fúla og honum tæmist mikill arfur. Fúll bankar á dyr nágrannana og segir að hann sé búinn að ráða Hvít málara til að mála að utan og hann byrji í næstu viku. Þeir voga sér ekki að mæla á móti, ekki annað að gera en fara í bankann og slá lán.

Á öðrum stað fer að bera á raka í gólfum í kjallaraíbúðinni, þetta eykst stöðugt. Svo fara litlar títlur, skólpmaurar, að skokka um gólf. Eigandinn, ung einstæð móðir með þrjú börn, fær margfróðan föður sinn til að líta á vandmálið. Hann kemur með Gvend pípara með sér. Ekki vafi, segir Gvendur, skólplögnin í grunninum er farin í sundur, það verður að endurnýja hana. Ráðsettur maður á fyrstu hæð hefur fullan skilning á vandanum, en Fúll á annarri hæð segir; kemur mér ekki við og heldur áfram að sturta úr sínu klósetti í ónýtar skólplagnir undir fótum einstæðu móðurinnar. Að lokum hrekst hún út og fær að vera í einu herbergi hjá mömmu, íbúðin ónothæf. Eftir mikla rekistefnu, með dómkvöddum mönnum meira að segja, er hægt að þröngva þeim fúla til að láta undan. Allir hafa tapað miklum peningum, ekkert tillit tekið til þeirrar armæðu sem unga konan í kjallaranum mátti þola.

Ungt par kaupir sér íbúð í húsi á fyrstu hæð í 101 Reykjavík, hafa himin höndum tekið að þau halda. Hefjast handa um að rífa gamla skápa og innréttingar og hvað finna þau? Hitaveitumæli Orkuveitunnar í skáp í eldhúsinu, hvarvetna við loft eru gamlar röraflækjur, sem greinilega eru fyrir hæðirnar tvær fyrir ofan. Þau hafa samband við Orkuveituna sem sendir menn strax á staðinn. Þeir skoða og kanna, segja ófært að hafa hitaveitumælinn í eldhúsi unga parsins, finna ágætan stað í sameiginlegum gangi, ákveða að leggja þurfi ný inntök í húsið bæði fyrir kalt vatn og heitt. Inntökin verði húseigendum að kostnaðarlausu, en þeir þurfi að láta endurnýja og breyta lögnum innanhúss til að tengja við nýju heimæðarnar.

Það er gleði hjá unga fólkinu sem sér fram á skjóta og góða endurnýjun, En það breytist fljótt í vonbrigði, einn af kynstofninum býr á fyrstu hæð. Fúll á móti segir; mér kemur þetta ekki við, hann samþykkir engar breytingar á sameign eða ný inntök þar fyrir heitt og kalt vatn.

Og þar við situr.

Árið líður, þras, lögfræðikostnaður, enn meira þras. Unga fólkið gefst upp, selur með ágöllunum á lægra verði en það keypti og forðar sér uppgefið á sál og líkama.

Komst Fúll á móti upp með þetta? Nei, harðskeyttur nýr eigandi knúði réttlætið fram, Orkuveitan endurbætti það sem hún hafði viljað endurbæta alla tíð, allir eigendur töpuðu verulegum fjármunum vegna þess að einn Fúll á móti þurfti að láta sínar andfélagslegu hneigðir ráða framvindunni, en auðvitað tapaði hann ekki síður en aðrir.

En hann fékk í sárabætur þá fullnægju sem slíkir persónuleikar fá af því að traðka á öðrum.

Er þetta ekki allt saman uppspuni og skáldskapur?

Nei, því miður, þetta eru harðsoðnar staðreyndasögur og þær eru miklu fleiri og eru alltaf að gerast.                  

Fleira áhugavert: