Hitakerfi sameign – Takmörkun ólögmæt

Grein/Linkur: Hrapalleg hrösun

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: mbl

.

.

Október 2019

Hrapalleg hrösun

Það er ekki nóg að setja lög. Það verður einnig að tryggja, að þeim sé rétt framfylgt.

Nágrannaerjur hafa þekkst frá upphafi Íslandsbyggðar. Allt fram yfir Sturlungaöld kostuðu þær oft mannslíf og þó slíkt hafi verið fátítt á síðari tímum hefur oft komið til pústra milli nágranna.

Það er því ekki að undra þó þetta héldi áfram með auknu þéttbýli en lengst af hafa verið í gildi lög um samskipti nágranna. Nýju lögin um fjöleignahús, sem tóku gildi 1. janúar 1995, eru tvímælalaust til mikilla bóta, áður var ætíð talað um sambýlishús en nýju lögin taka til allra bygginga sem fleiri en einn aðili á, íbúðarhúsnæði, verslunarhúsnæði, atvinnuhúsnæði o.s.frv.

En það er ekki nóg að setja lög, það verður einnig að tryggja hvernig á að framfylgja þeim og hver eigi að úrskurða í ágreiningsmálum, engin hætta á öðru en þau verði til um langa framtíð.

Tvær kærunefndir voru skipaðar skv. lögunum, kærunefnd fjöleignahúsamála og hins vegar kærunefnd húsaleigumála, hvora nefnd skipa þrír menn og skulu tveir lögfræðingar sitja í hvorri.

Eins og við mátti búast skorti ekki kærumál, á fyrsta starfsári 1995 úrskurðaði kærunefnd fjöleignahúsamála í 72 málum en 9 mál rak á fjörur hinnar kærunefndarinnar.

Allar álitsgerðir nefndanna 1995 eru komnar út og er að þeim fengur, þær ættu að verða upplýsandi og leiðbeinandi fyrir alla þá sem deila í fjöleignahúsum. Oft er deilt um sömu atriðin víðs vegar um land, þessvegna gætu fyrri álitsgerðir orðið deilendum vegvísar hvernig á að leysa málin.

Í skýrslunni er tíundað hverjir sitja í nefndunum og hverjir séu varamenn, það er fróðleg lesning því í þeim sitja eingöngu lögfræðingar fyrir utan að einn húsasmíðameistari er varamaður í kærunefnd fjöleignahúsamála. Enginn dregur í efa að lögfræðingar eru ómissandi í slíkar nefndir en spurningin er hvort ekki sé þörf á að í nefndinni starfi í hverju máli einstaklingur með tæknilega sérþekkingu í því máli sem fjallað er um.

.Mistök

Í hádegisfréttum ríkisútvarpsins var sagt frá nýlega uppkveðinni álitsgerð og er það nokkurt nýnæmi, fjölmiðlar mættu gera meira að slíku. En einhverjum hefur þótt álitsgerðin fréttnæm og það er hún vissulega þegar hún er lesin til enda. Helstu málsatvik og ágreiningsefni eru, hér vitnað orðrétt í álitið:

„Fjölbýlishúsið X nr. 2-6 er 7 hæðir og hluti þess er 8 hæðir, byggt 1970. Í húsinu eru 124 íbúðir.

Í janúar 1996 var ákveðið af stjórn húsfélagsins X nr. 4 að yfirfara hitakerfi í húsinu. Ástæðan var mikill hitakostnaður undanfarin ár að mati stjórnarinnar, miðað við álíka stór hús. Í kjölfar samþykktar stjórnarinnar voru ofnar í húsinu, sem allir eru með sjálfvirkum ofnkrönum, festir á hámarksstillingu nr. 3“ (tilvitnun lýkur). Eftir þessari lýsingu að dæma er um að ræða retúrventla, sjálfvirka Danfossventla sem stýrast af vatninu sem út af ofninum rennur, ekki lofthita.

Í sjálfu sér er þessi aðgerð, að stilla alla ventla á 3, ákaflega frumstæð og ófullnægjandi, en betri en engin. Hún þýðir það að ventillinn lokar fyrir rennsli um ofninn þegar vatnið, sem út af honum fer, er um 40 gráðu heitt að hámarki, sem er raunar allsendis óviðunandi, alltof hátt.

Einn húseigandi mótmælti þessari faststillingu á þeim forsendum að hann ætti rétt á að ráða sjálfur hitastigi í sinni íbúð. Niðurstaða nefndarinnar var þessi:

„Það er álit kærunefndar að ákvörðun hússtjórnar um að festa hámarksstillingu ofna í séreignahlutanum sé ólögmæt.“ Það er greinilegt að nefndin skilur ekki hvaða tæknilega þýðingu þessi aðgjörð hefur, að festa alla ventla á sömu tölu. Í húsinu er eitt sameiginlegt hitakerfi, að festa alla ventla á sömu tölu er gert til að reyna að tryggja að allar íbúðir í húsinu fái hita. Ef engar hömlur eru á því hvað hátt einstakir íbúðareigendur geta stillt sína ventla má búast við því að sumir stilli á 7 eða 8 með þeim afleiðingum að aðrir hlutar hússins fá engan hita en vatnið fossi í gegnum ventla með þessari stillingu nánast jafn heitt út af ofninum eins og það kemur inn í hann. Þessi einfalda og frumstæða stilling mundi koma í veg fyrir að sumir yrðu hitalausir og stuðla að því að allir sætu við sama borð, en eins og fyrr var sagt þá þarf miklu nákvæmari rennslisstillingar til að tryggja sem besta nýtingu heita vatnsins.

Frá Héðni hf. fylgja þessar leiðbeiningar með ventlunum: „Á hitaveitukerfum með framrásarhitastigi u.þ.b. 70-80 gráður C, er nauðsynlegt að stillisvið hitastillisins sé læst þannig að hæsta möguleg stilling tölukvarðans geti ekki orðið hærri en 3-4. Ef þessa er gætt er komið í veg fyrir að hitastillirinn sé stilltur á of mikið hitastreymi og einnig er komið í veg fyrir óþarfa varmasóun“ (tilvitnun lýkur). En nú er búið að úrskurða að þessi fyrirmæli framleiðanda og umboðsmanns eru ólögleg hérlendis!

Hinsvegar er það alvarlegasta við þennan úrskurð að hann segir okkur að allar nákvæmnisstillingar, sem takmarka rennsli inn á einstaka ofna, eru ólögmætar og það verða að teljast slík tíðindi að enginn fagmaður má láta þessum úrskurði ómótmælt. En undir þennan úrskurð skrifa ekki aðeins lögfræðingar, skyndilega er kominn á vettvang verkfræðingur, einn af þremur.

Ætli það sé ekki best framvegis að lögfræðingarnir sjái um þetta einir?

Fleira áhugavert: