Vatnsúðakerfi, sagan – Brunavarnir hundsaðar

Grein/Linkur:  Á að hundsa brunavarnir endalaust?

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: mbl

.

Bruni í Miðhrauni Apríl 2018

.

Október 2004

Á að hundsa brunavarnir endalaust?

Enn hafa orðið stórbrunar hérlendis, mikil verðmæti fara forgörðum og margir standa uppi atvinnulausir. Þeir sem í þessum hremmingum lenda fá óskipta samúð, þessi bruni er bara enn eitt óhappið, ekkert við því að gera. Eldurinn er sterkur þegar hann læsir klóm sínum í hús og verðmæti, slökkviliðsmenn berjast vonlítilli baráttu, vinna stundum sigra, en oftar er leikurinn tapaður. Við Íslendingar erum skrítin þjóð, stundum dómharðir með afbrigðum, en samúðin mikil þegar slys og óhöpp verða.

Vestur í Ólafsvík brennur fiskverkunarhús og norður á Blönduósi brennur hús sem hýsti nokkur fyrirtæki sem voru mikilvæg í ekki stærra byggðarlagi. Eigendur harma sinn skaða, starfsmenn standa uppi án atvinnuöryggis, ekki er hlaupið að því að fá störf í minni þorpum úti á landi.

Svo virðist sem flestir líti á það sem náttúrulögmál að svo og svo mörg hús brenni til kaldra kola árlega, menn yppta öxlum og vorkenna öllum sem þar verða fyrir tjóni, missa eignir eða verða án lífsafkomu.

Það er með ólíkindum hve mörg fiskvinnsluhús hafa brunnið á undanförnum áratugum. Ætla mætti að í slíkum fyrirtækjum sé meiri hætta á eldsvoða en í öðrum fyrirtækjum, eða þá að þau séu byggð úr brennanlegra efni en önnur hús. Staðreyndin er hins vegar sú að síðan gasverksmiðjan Ísaga við Rauðarárstíg brann fyrir nær hálfri öld hafa ekki orðið stórbrunar í þeim húsum og fyrirtækjum sem hafa innan sinna veggja framleiðslu og vöru sem sérstök eldhætta fylgir.

Hvers vegna skyldi það vera, af hverju brenna fiskverkunarhús árlega?

Það er gott og indælt að sýna þeim, sem missa fyrirtæki sín í eldsvoða, samúð og rétta þeim hjálparhönd til að byggja aftur upp á rústunum, svo sannarlega.

En er ekki kominn tími til að tala um þessi mál, hina tíðu eldsvoða, tæpitungulaust og hætta öllu sífri um aumingja mennina?

Gátu þeir ekkert gert til að koma í veg fyrir eldvoðana, gerðu þeir kannski ekkert til þess, hundsuðu þeir allar brunavarnir? Þetta kann að þykja harðneskjulega sagt en það er ekki hægt að þegja lengur. Margir, sem reka fyrirtæki í húsum án brunavarna, hugsa eins og böðlarnir í umferðinni; það kemur ekkert fyrir mig, ég þarf engin öryggisbelti, ég ek eins hratt og mér sýnist, ég tek fram úr bíl hvar og hvenær sem er.

Sá sem á fyrirtæki og fasteign, hvað hugsar hann,? Hundsar hann allar ábendingar um brunavarnir, veit hann ekki að það er hægt að gera ýmsar varúðarráðstafanir?

.

.

Vatnsúðakerfi, öðru nafni sprinkler-kerfi

Það er víst ekkert að treysta á skammtímaminnið en skal þó reynt. Fyrir stuttu var í pistli fjallað um sérstaka gerð af vatnsúðakerfi til brunavarna í íbúðarhúsum, en slík kerfi hafa fram að þessu nær eingöngu verið sett í atvinnuhúsnæði eða stærri byggingar.

En hvers vegna nýta ekki fleiri húseigendur sér sprinkler-kerfi til brunavarna? Svarið hjá þeim sem það gera ekki er nær alltaf það sama; það er svo dýrt.

Þarna er komið að kjarna málsins, menn hafa þarna nokkuð til síns máls, kerfin eru dýr.

Og kjarni málsins er einmitt kostnaðurinn sem er spenntur upp af furðulegum ef ekki heimskulegum reglugerðum sem engum virðist detta í hug að hægt sé eða rétt að breyta.

Meginkrafan við lögn sprinkler-kerfa er nefnilega arfavitlaus, hún gerir ráð fyrir að afkastageta kerfisins, vatnsflutningurinn, sé svo mikill að kerfið geti allt verið í gangi í einu í allri byggingunni. Og það er ekkert smávegis magn af vatni sem þarf til að uppfylla slíka kröfu, inntakið er ekkert venjulegt tveggja tommu rör, nei, miklu, miklu víðara í venjulegu atvinnuhúsnæði.

En hvernig er hægt að taka svo stórt upp í sig að segja að þetta sé arfavitlaus krafa? Einfaldlega vegna þess að ef einhverntíma kæmi upp sú þörf að allt kerfið væri að vinna í einu í öllu húsinu væri það of seint, þá er húsið orðið alelda og engu yrði bjargað.

.

.

Það er sjálfsagt að sprinkler-kerfi sé í öllu húsinu og dýsur, sem dreifa vatninu, af þeim þéttleika sem reglugerð segir. Segjum að í húsi einu séu 100 dýsur og vatnsöflun og rörakerfi sé hannað til að anna þeim öllum samtímis. Segjum svo að í einu horni hússins komi upp eldur. Hvað gerist þá? Líklegt að þær dýsur sem eldurinn nær til, segjum 10 dýsur, opnist og slökkvi eldinn.

En afkastageta kerfisins er hannað fyrir 100 dýsur eða tíu sinnum meira en þörf er á.

Þess vegna ber allt að sama brunni; sprinkler-kerfi er dæmigert fyrir kerfi sem frýs fast í hugum manna, eða réttara sagt; menn hætta að hugsa, halda áfram að hanna eftir sömu reglum og í gær, í síðustu viku, eins og á síðustu árum.

En getur það staðið undir hugtakinu hönnun? Nú er finnsk-sænska fyrirtækið Uponor Wirsbo komið fram með nýja hugmyndafræði, nýtt sprinkler-kerfi sem er bæði einfaldara og miklu ódýrara.

Það kerfi er að vísu hugsað fyrir minni hús en hvers vegna skyldi það ekki geta gagnast í stærri byggingum? Hvernig væri nú að láta gráu heilasellurnar hreyfast örlítið.

Er það ekki klént ævistarf að sitja stöðugt á sínum rassi og láta heilann eiga náðuga daga?

Fleira áhugavert: