Irkutsk Síberíu – Sögufræg vatnsaflsvirkjun

Heimild: 

.

September 2011

Vatnsaflið í Síberíu

irkutsk-dam-lagoon.png

irkutsk-dam-lagoon

Á 6. áratug liðinnar aldar reis mikil vatnsaflsvirkjun austur í Síberíu – skammt frá landamærum Sovétríkjanna að Mongólíu. Þegar virkjunin tók til starfa 1956 þótti hún eitthvert mesta verfræðiundur í Sovétríkjunum. Enda fengu flestir þeirra sem komu að hönnun og byggingu virkjunarinnar þessar líka fínu orður, sem hetjur alþýðunnar.

Þessi umrædda virkjun frá 6. áratugnum þarna austur í Síberíu er í fljótinu Angara, en Angara er stærsta útfallið úr hinu fræga Baikal-vatni. Frá vatninu rennur Angara-fljótið um 1.800 km leið, uns það sameinast Jenu (Yenisei). Jena er eitt af hinum víðfrægu stórfljótum Síberíu, en hin tvö eru Ob og Lena, eins og við ættum öll að muna úr gömlu barnaskóla-landafræðinni. Það eru sem sagt margar aðrar stórár austur Í Síberíu, en bara þríeykið Jena, Ob og Lena. Og Angara er ein þeirra.

angara-river-storms-2.jpgÞessi sögufræga virkjun í Angara-fljóti er kennd er við borgina Irkutsk. Og svo skemmtilega vill til að Irkutsk-virkjuniner nánast nákvæmlega jafnstór eins og önnur vatnsaflsvirkjun, sem reist var á Íslandi hálfri öld síðar. Þeirri sem kennd er við Kárahnjúka. Hvort verkfræðingarnir og verkamennirnir við Kárahnjúkvirkjun fengu Riddarakross er allt önnur saga.

Það var nú reyndar ekki þannig að með Kárahnjúkavirkjun værum við Íslendingar nálægt því að eiga jafnstóra virkjun eins og Rússarnir. Irkutsk-virkjunin hafði ekki starfað lengi þegar ennþá stærri virkjanir risu þarna austur í Síberíu. Enda voru Rússarnir á mikilli siglingu í þá daga; skutu Sputnik upp í geiminn og virtust nær óstöðvandi.

Angara-Yenisei-mapSenn voru nýjar virkjanir í Síberíu ekki mældar í einhverjum hundruðum MW heldur þúsundum. Árið 1967 var lokið við nýja 4.500 MW virkjun í Angara-fljóti og enn var af nægju vatnsafli að taka í Angara og öðrum stórfljótum Síberíu. Á áttunda áratugnum voru svo lögð drög að enn einni risavirkjuninni í Angara-fljótinu. Hún átti að rísa við bæinn Tayozhny í héraðinu Boguchany.

Sovétmenn höfðu þá lengi keppst við að reisa jafnöflugar vatnsaflsvirkjanir austur í Síberíu eins og Bandaríkjamenn gerðu t.d. í Columbia-fljótinu. En nú kom að vendipunkti; efnahagsmaskína kommúnismans fór að hiksta. Og þegar kom fram undir 1980 virtist tekið að halla verulega undan fæti. Ekkert varð af virkjuninni og Kremlverjar máttu játa að þeir yrðu ekki konungar vatnsaflsins.

boguchany-power-dam-built_1096202.jpgEn maður skyldi aldrei segja aldrei. Nú þremur áratugum síðar er skyndilega komið nýtt iðnveldi í næsta nágrenni Angara-fljótsins. Kínverski drekinn öskrar á meiri orku og allt í einu var á ný kominn grundvöllur til að reisa risavirkjunina í Angara. Já – draumurinn er loks að verða að veruleika þarna óralangt í austri. Og það er til marks um stærðina að þessi nýja virkjun – Boguchany-virkjunin – mun fullbyggð framleiða nánast nákvæmlega jafn mikið rafmagn eins og öll raforkuverin á Íslandi framleiða til samans! Eða um 17,5 TWst á ári. Að afli jafngildir Boguchany-virkjunin u.þ.b. fjórum Kárahnjúkavirkjunum; verður 3.000 MW (Fljótsdalsstöð er 690 MW). Virkjunin er langt kominn í byggingu og verður tilbúin á næsta ári (2012).

rusal-web-05_1096376.pngEfnahagsuppgangurinn í Kína veldur því að Síberíu upplifir nú gríðarlegar fjárfestingar og mikinn efnahagsuppgang. Það eru ekki eru nema um 500 km frá Boguchany-virkjuninni til kínversku landamæranna. Raforkan frá virkjuninni verður einmitt annars vegar seld beint til Kína og hins vegar notuð til að knýja stóriðjuver í grennd við virkjunina, sem munu fyrst og fremst framleiða fyrir Kínamarkaðinn. Eitt af þessum iðjuverum er nýtt risaáver sem nú er að rísa við Boguchany.  Boguchany-álbræðslan verður fullbúin árið 2013 og mun þá framleiða 600 þúsund tonn árlega. Verður sem sagt næstum því tvöfalt stærri bræðsla heldur en álver Alcoa á Reyðarfirði, sem er vel að merkja stærsta álverið á Íslandi.

deripaska-putin-3_1096383.jpgÞað er ekki bara ofsaleg stærð álbræðslunnar sem vekur athygli – heldur líka eignarhaldið að henni. Sem er kannski skýr táknmynd um farsælt samstarf ljúflinganna glaðlegu; þeirra Pútín's fyrrum forseta og núverandi forsætisráðherra Rússlands og iðnjöfursins Oleg Deripaska. Það er nefnilega svo að 50% hlutabréfanna í nýju álverksmiðjunni við Boguchany eru í eigu rússneska ríkisorkurisans RusHydro og hinn helmingurinn er í eigu Rusal. Þarna fallast því rússneska ríkið og Rusal í faðma.  Rusal er vel að merkja langstærsti álframleiðandi heimsins og sem kunnugt er þá lýtur fyrirtækið stjórn og meirihlutaeigu Deripaska. Og rússneska ríkisfyrirtækið RusHydro er eitt stærsta vatnsaflsfyrirtæki veraldarinnar.

Þetta netta álver við Boguchany er bara byrjunin. Deripaska og Rusal eru hreinlega á æpandi fullri ferð þarna austur í Síberíu. Enda er Deripaska með mikla reynslu af viðskiptum og stóriðju þar í austrinu (það var á þeim slóðum sem hann lagði grunninn að því að eignast stærstan hluta rússneska áliðnaðarins). Ekki fjarri Boguchany er Rusal að reisa annað ennþá stærra álver! Þar er um að ræða Taishet-álbræðsluna, sem verður með um 700 þúsund tonna árlega framleiðslugetu. Ráðgert er að bæði þessi álver verði komin í gagnið innan örfárra ára og verður Rusal þá á stuttum tíma búið að auka árlega álframleiðslu sína í Síberíu um lauflétt 1,2-1,3 milljón tonn! Bara þessi aukning ein og sér er langtum meira en öll álverin þrjú á Íslandi geta framleitt.

rusal-web-10.pngÞetta er veruleikinn sem íslenski orkugeirinn stendur frammi fyrir. Eins og staðan er í dag eru um 75-80% af allri raforku sem framleidd er á Íslandi seld til álvera. Íslensku orkufyrirtækin eru því í reynd miklu fremur í samkeppni við rússneska ríkisorkufyrirtækið RusHydro, fremur en að þau starfi á hefðbundnum evrópskum orkumarkaði með fjölbreyttan kaupendahóp. Komi til þess að nýtt álver rísi á Íslandi þýðir það væntanlega að nýja álverið fái raforkuna á verði sem er svipað eða lítið hærra en gerist hjá nýjum risavirkjunum austur í Síberíu. Stóra spurningin er bara: Vilja Íslendingar keppa við RusHydro í verðum?

boguchany-power-turbine_1096382.jpgÞarna austur í Súberíu er vel að merkja  gnægð er af ónýttu vatnsafli. Það er líka vert að hafa í huga að gert er ráð fyrir að langmesta aukningin í eftirspurn eftir áli á næstu árum og áratugum muni koma frá Asíu. Síbería með sín miklu fljót og nálægð við Kína hentar því  fullkomlega fyrir nýja stóriðju af þessu tagi. Það ætti því öllum að vera augljóst að hugmyndir um að byggja nýjar álbræðslur á Íslandi munu ekki ganga eftir – nema þá að viðkomandi álfyrirtæki fái raforkuna á mjög lágu verði. Ef auka á arðsemi í raforkuframleiðslu á Íslandi eru fleiri álver því varla í spilunum.

Sjálfur segir Deripaska að hann stefni að því að gera Síberíu að nýju Kanada. Þetta risastóra landsvæði er afar auðugt af náttúruauðlindum, en hefur engu að síður lengst af verið þjakað af fátækt. Deripaska segir íbúa Síberíu nú hafa tækifæri til að byggja upp öflugt efnahagslíf – rétt eins og gerðist í Kanada snemma á 20. öld þegar vatnsaflið í Kanada varð grundvöllur fyrirtækja eins og Alcan og Alcoa.

deripaska-thinking_1096385.jpgNú er bara að bíða og sjá. Kannski er þetta enginn fagurgali hjá Deripaska. Sumum kann að vísu þykja það hálf dapurleg framtíðarsýn fyrir Síberíu, ef hún nú snemma á 21. öldinni á sér þann draum æðstan að líkjast iðnvæddum svæðum N-Ameríku eins og þau voru í upphafi 20. aldar. En Deripaska lætur sér líklega fátt finnast um slíkt raus.

Fleira áhugavert: