Heitt Neysluvatn – Kælt hitaveituvatn, sagan
Grein/Linkur: Því ekki kæla heitt vatn í stað þess að hita kalt vatn?
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
.
Nóvember 2006
Því ekki kæla heitt vatn í stað þess að hita kalt vatn?
Skáld eiga það til að vera svo háfleyg að enginn skilur skáldskap þeirra, þau hafa löngum haft sín skáldaleyfi og jafnvel þótt fínt stundum að vera mátulega óræð, sérstaklega í bundnu máli. En venjulegur einfaldur pistlahöfundur hefur vart rétt til að setja saman svo ruglingslega fyrirsögn að fáir skilji, en getur ekki verið að hans aðferð sé sú sama og skáldsins; vera svolítið óræður til að vekja áhuga?
Við erum enn og aftur að ræða þann vanda og slysahættu sem af heitu kranavatni stafar. Það er búið að fara yfir allar aðferðir að við héldum og vankanta hverrar til að lækka hitann. Þess vegna hefur verið traðkað á tám virðulegra seljenda, sem eru sárfættir eftir, fyrir að bjóða tengigrindur sem mundu mjög líklega eyðileggja leiðslurnar, en búast má við að allt að 90% af lögnum fyrir heitt kranavatn séu úr galvaniseruðum stálrörum. Það er búið að sýna fram á það að í flestum tilfellum þola lagnir úr því efni ekki upphitað og súrefnisríkt kalt vatn.
En eins og í fyrirsögninni segir þá er hægt að snúa ferlinu við. Í stað þess að hita upp kalt vatn með hitaveituvatni og láta síðan upphitaða vatnið renna inn á lagnirnar er hægt að kæla hitaveituvatnið með köldu vatni og láta hitaveituvatnið renna áfram inn í sömu lagnir. Þetta er hugmynd sem er ekki alveg ný af nálinni en þegar það kom í ljós að hún er þegar komin í framkvæmd kom ekki annað til greina en að kynna sér málið.
Á Landspítalanum, þeirri gömlu, góðu og umdeildu stofnun, hefur verið settur upp búnaður sem fer þessa leið. Hitaveituvatnið rennur eftir sem áður inn á lagnir og út úr krönum en við upphaf vegferðarinnar innanhúss fer vatnið í gegnum varmaskipti. Í andstæðu hólfi varmaskiptis rennur kalt vatn öndverða leið. Þegar hitaveituvatnið kemur út úr varmaskiptinum er það komið niður í 60-65°C en kalda vatnið er ekki lengur kalt, það er komið allt að 80°C eða orðið jafnheitt og hitaveituvatnið var þegar það rann inn í varmaskiptinn.
Hér er búið að snúa ferlinu við. Í stað þess að hita upp kalt vatn og gera það að kranavatni er hitaveituvatnið notað áfram sem kranavatn en hiti þess lækkaður með köldu vatni.
Hvað vinnst með því?
Það sem vinnst með því er að galvaniseruðu leiðslurnar, sem hafa flutt heita vatnið í kranana, flytja vatn af sama stofni áfram. Þar með er leiðslunum engin hætta búin en stóri ávinningurinn er sá að hitinn á vatninu hefur lækkað umtalsvert og er ekki sá slysavaldur sem var áður.
Ætla mætti að allir starfsmenn við þetta stærsta sjúkrahús landsins væru menntaðir í að lækna og líkna fólki og það má kannski segja að það sé rétt að mestu. Iðnaðarmennirnir, sem eru stöðugt að störfum þar innan veggja, gegna vissulega miklu hlutverki í að sjúklingum líði þar vel sem og starfsfólki.
Pípulagningamennirnir Óskar Árni Hilmarsson og Daníel Halldórsson vinna stöðugt við nýlagnir og endurbætur á eldri lögnum og ekki veitir af. Líklega veit enginn hve margir metrar, eða kílómetrar, eru af rörum innan þessara miklu og stóru bygginga en þar er ekki aðeins um að ræða hefðbundnar lagnir fyrir hita-, neysluvatns- og frárennsliskerfi. Koparlagnir, sem við Íslendingar köllum ávallt eirlagnir, eru eins og kóngulóavefur um spítalann og flytja ýmsar gastegundir að skurðstofum, en það verður ekki tíundað nánar að sinni.
En aftur að efninu, því að kæla heitt vatn í stað þess að hita kalt vatn. Það er Eggert Aðalsteinsson, verkfræðingur hjá Verkfræðistofu Guðmundar & Kristjáns, sem hefur hannað búnaðinn. Það sem athygli vekur er í fyrsta lagi að búnaðurinn er hannaður sérstaklega fyrir tilefnið, ekki settur upp einhver flókinn staðlaður búnaður og í öðru lagi að hann er einfaldur að uppbyggingu. Þar sannast enn einu sinni að einfaldleikinn er ávallt bestur en krefst eigi að síður hugsunar og góðrar hönnunar. Kerfinu er stýrt með Danfoss-stjórnstöð, hún er stillt á ákveðna kælingu og stendur stöðugt vaktina með litlum frávikum. Hún stjórnar mótorloka á rennsli kalda vatnsins sem að sjálfsögðu þarf að aukast með aukinni notkun á heitu vatni, en lokar nær alfarið fyrir rennslið sé lítil sem ekkert heitavatnsrennsli.
Og með þessu er leiðslunum engin hætta búin, um þær rennur sams konar vatn og runnið hefur um þær árum saman, aðeins með lægra hitastigi og þar með hættuminna fyrir þá sem þurfa að nota það.
Þetta er aðferð til að lækka hitastig á heitu kranavatni sem fleiri ættu að skoða gaumgæfilega.