Snjóbræðslukerfi – Með eða án varmaskipta

Grein/Linkur: Snjóbræðslukerfi – Með eða án varmaskipta

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: mbl

.

.

Febrúar 2002

Snjóbræðslukerfi með eða án varmaskipta

Hvernig bera menn sig að við að fá snjóbræðslukerfi við sitt hús?

Líklegast er að hringt sé í verktaka sem auglýsir að hann taki að sér hellu- og snjóbræðslulagnir, við hann samið og verkið unnið.

En hver er ráðgjafi húseigandans, hver gætir hagsmuna hans, hver gætir þess að farin sé skynsamlegasta leiðin bæði tæknilega og fjárhagslega?

Ráðgjafar húseigandans geta verið verktakinn sem tekur verkið að sér, afgreiðslumaður í lagnaverslun eða hönnuður á verkfræðistofu.

Er þá ekki húseigandanum borgið, á hann ekki kost á þeirri bestu ráðgjöf sem fáanleg er?

snjobraedslaFörum nú með tímavélinni aftur til fortíðar, til þess tíma að snjóbræðslukerfi héldu innreið sína á Íslandi, eða allt aftur til ársins 1973. Engin hefð var fyrir lögn snjóbræðslukerfa hérlendis á þeim tíma þótt framsæknir lagnamenn hefðu gert nokkrar tilraunir til þess. Það sem einkum hleypti skriðunni af stað var tvennt; í fyrsta lagi tilkoma plaströra og í öðru lagi tækniþekking sem flutt var til landsins frá Svíþjóð. En í þessu sem öðru var ekki hægt að taka erlenda tækniþekkingu óbreytta og nota við íslenskar forsendur. Það var einkum okkar ríkulegi forði af jarðhita sem gerði snjóbræðslukerfi jafn ódýr í rekstri og raun bar vitni, afrennslisvatnið af hitakerfum húsa var tilvalin orka í snjóbræðslukerfi, stundum nægði hún eingöngu, stundum þurfti ekki nema svolitla viðbót af heitu vatni frá mæli. En við þróun snjóbræðslukerfa hérlendis var sérstaklega farið eftir því að kerfin væru sem ódýrust í stofnkostnaði og örugg í rekstri, ekki þyrfti að búast við rekstartruflunum né að stjórnbúnaður væri flókinn.

Á þessum rúmum þrjátíu árum hefur þessari stefnu verið fylgt en nú virðist breyting vera í uppsiglingu til hins verra. Yfir 90% af öllum minni snjóbræðslukerfum eru tengd beint við afrennsli hitakerfa, stundum með beinni viðbót frá mæli, vatnið látið renna beint út í kerfið og sömu leið til baka. Sumum fannst þetta djarft, að láta vatn renna beint út í lagnakerfi utanhúss. En það eru ótalmargir til vitnis um að þessi kerfi hafa unnið sitt verk með prýði, sum í þrjátíu ár, önnur skemur.

Þau uppfylltu þau skilyrði að stofnkostnaður var hóflegur, skiluðu góðum árangri og hafa reynst mjög gangörugg.

En nú er farin í gang undarleg herferð fyrir því að það verði að setja á þessi minni snjóbræðslukerfi varmaskipta og þar með frostlög, sem einnig kallar á tvöfaldan jafnvel flókinn stjórnbúnað.

Hverjir standa fyrir þessari herferð?

Á borðinu liggur teikning frá löggiltum hönnuði af snjóbræðslukerfi, lítið kerfi, tvær slöngur við lítið fjöleignahús. Á þetta kerfi er teiknaður varmaskiptir og ekki nóg með það, heldur skal það stýrast af rafeindastýrðri stjórnstöð sem nemur útihita og stýrir mótorlokum sem bæta við heitu vatni inn á kerfið.

snjobraaedsla vinSkyldi þessi hönnuður ekki hafa leitt hugann að því hve mikinn aukakostnað hann var að leggja á húseigandann að óþörfu?

Verktakar taka undir sönginn og hafna einfaldleikanum, mæla með varmaskiptum með frostlegi og tvöföldum stjórnbúnaði. Og svo eru það lagnaverslanirnar sem fara offari í sölumennsku og bjóða öllum tilbúnar stjórnstöðvar með varmaskipti, dælu, mótorlokum og stýribúnaði. Þetta er ekkert annað en grimm sölumennska, tæknilegar forsendur eru ekki til og hvað leggur þetta mikinn aukakostnað á húseigandann?
Það er dapurlegt að húseigendur skuli dregnir út í mikinn aukakostnað sem skilar engu nema viðkvæmara snjóbræðslukerfi sem mun örugglega ekki ganga í þrjátíu ár án truflana eins og einföldu beintengdu kerfin hafa sannarlega gert.

Að leggja í allan þennan óþarfa kostnað við stjórnbúnað er álíka skynsamlegt og að kaupa sér hundrað flöskur af góðu víni og hella innihaldinu í vaskinn.

Fleira áhugavert: