Neysluvatnshiti – Legionella pneumophila

Grein/Linkur: Lítill her sem elskar lungu

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: mbl

.

sturta a

.

Júní 2007

Lítill her sem elskar lungu

Orkuveita Reykjavíkur er með átak og vakningu til almennings um að lækka hita á kranavatni, sem á hitaveitusvæðum er víða 70–80°C heitt og sumstaðar jafnvel meira. Gefinn var út bæklingur og sendur á hvert heimili á veitusvæði OR ef ekki víðar. Í þessum bæklingi var því lýst hvaða leiðir væru færar til að ná hita vatnsins niður og hve langt skyldi ganga. Þar kom m.a. fram eftirfarandi viðvörun:

„Það er engin nauðsyn að það sé heitara en 60–65°C, ekkert á heimilum eða hjá öðrum notendum krefst hærri hita. Hins vegar er rétt að benda á að það kann að vera hættulegt að lækka hitann of mikið, alls ekki niður fyrir 50–55°C. Þetta er af heilsufarsástæðum. Til er lítið kvikindi, baktería sem nefnist Legionella pneumophila sem á íslensku getur kallast „lítill her sem elskar lungu“. Þessi baktería gerði fyrst rækilega vart við sig í Bandríkjunum 1976 og afleiðingar hennar voru lengi kallaðar hermannaveiki. Þessi baktería er hvarvetna í náttúrunni en hefur lítið orðið vart í neysluvatni á Íslandi líklega vegna þess hve heitt kranavatnið hefur verið.

Vegna þessa vágests má ekki lækka kranavatnið of mikið, alls ekki niður fyrir 50°C.“

Svo mörg eru þau orð og enn og aftur sannast að aðgát skal höfð í nærveru sálar.

sturtaÞað hefur komið í ljós að þessi viðvörun hefur vakið beyg hjá þó nokkrum og aldraður maður hringdi í höfund greinarinnar og spurði einfaldlega hvort það væri hættulegt að fara í heita pottinn, það væri hans líf og yndi, en þar væri hitastig vatnsins 38–40°C, en varað væri við því að nota vatn undir 50°C.

Til að taka strax af allan vafa þá er engin hætta í heita pottinum af þessari bakteríu, Legionella pneumophila sem á íslensku má kalla því skáldlega nafni „lítill her sem elskar lungu“, örsmá baktería sem er aðeins þúsundasti hluti úr millimetra að lengd.

Þessi baktería er hvarvetna í náttúrunni. Á heitum sumardegi er ekki ólíklegt að þreyttur göngumaður sem teygar vatn úr tjörn svolgri í sig þessa litlu bakteríu. En það er með öllu hættulaust, þó hún komist í meltingarveginn fer hún sína leið án þess að valda nokkrum skaða. Til að hún nái sér á strik í líkama manna og fari að tímgast þar og valda slæmum veikindum verður hún að komast í lungun, ef einhver veikist er það vegna þess að hann hefur andað henni að sér.

En kvikindið býr í vatni og tímgast þar við rétt hitastig, hvernig getur hún þá komist í lungun?

Það er aðeins einn möguleiki, þegar farið er í sturtu.

En nú skulum við fara okkur hægt og ekki verða hrædd að óþörfu. Til þess að veikjast af því að fara í sturtu þarf í fyrsta lagi Legionella pneumophila að vera með búskap í heitavatnslögninni og ef vatnið er nægjanlega heitt er það útilokað. Kranavatn á Íslandi hefur einmitt verið svo heitt að þessi litla baktería hefur ekki átt lífsvon nema í undantekningartilfellum, hennar hefur orðið vart hérlendis og menn hafa veikst af henni en einungis á sjúkrahúsum og þá aðeins þeir sem voru veiklaðir fyrir. Og það er einnig mikilvægt fyrir bakteríuna til að hún nái að gera usla að sturtuhausinn sundri vatninu í örsmáa dropa eða úða sem blandast þess vegna andrúmsloftinu og sá sem undir bununni stendur andi slíkri blöndu að sér. Þess vegna hefur gamli ömmuhausinn orðið vinsælli erlendis og þar með hérlendis á nýjan leik, hann sundrar vatninu ekki mikið, sendir frá sér sterkar vatnsbunur.

Niðurstaðan er því sú að það er öldungis óhætt að fara í góða sturtu með grófum haus eða fara í heita pottinn, það er óhætt að drekka vatn úr hverri sprænu og tjörn án þess að þurfa að óttast „lítinn her sem elskar lungu“.

Fleira áhugavert: