Neysluvatn – Hitastig, slysahætta

Grein/Linkur: Slysahætta af heitu vatni

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: mbl

.

.

Febrúar 1997

Slysahætta af heitu vatni

Til þess að hindra slys af heitu kranavatni er aðeins eitt úrræði til og það er að lækka hitann, segir Sigurður Grétar Guðmundsson. Þar má nefna þrjár öruggar leiðir. ngar takmarkanir eru á því hérlendis hversu heitt vatn má renna úr krönum og blöndunartækjum, við höfum verið svo ánægð með gnægð af heitu vatni úr iðrum jarðar að annað hefur vart komist að. Víðast hvar erlendis er hámarkshiti á kranavatni 55-65 gráður, en þar er um að ræða upphitað kalt vatn og einfalt að stýra því hvað heitt það verður.

Í frétt hér í þessu ágæta blaði sl. þriðjudag var haft eftir fulltrúa Slysavarnafélags Íslands að yfir tuttugu börn brendust árlega af heitu kranavatni, svo það er augljóst mál að það er kominn tími til að gera eitthvað til að koma í veg fyrir þessi slys. Sem betur fer er það auðvelt, tæknin er fyrir hendi og hefur verið lengi og raunar hafa margir nýtt sér hana.

Fyrir hálfu ári var þetta vandamál rætt hér í pistli en það kann að hafa farið fram hjá mörgum svo kannski er ástæða til að árétta það.

Aðalhvatinn að því að ræða þetta nú eru þó þær ráðleggingar sem fram komu frá fyrrnefndum fulltrúa SÍ, hvernig auka má öryggið með því að einu að takmarka rennslið.

Þetta er furðulegt ráð því hitinn lækkar ekki við það, þetta mundi því aðeins veita falskt öryggi.

Hver eru ráðin sem duga?

Það má nefna þrjár öruggar leiðir til að lækka hitann á vatninun og það er það eina sem kemur að gagni; að lækka hitann!

.

Hitastýrð blöndunartæki

Það er fyrsta aðferðin og hún er orðin mjög útbreidd nú þegar, sem betur fer. Það mun vera næsta fátítt að í handlaugum, eldhúsvöskum eða við baðker sé sérstakur krani fyrir kalt vatn og annar fyrir heitt vatn, þó er það til. Blöndunartæki hafa verið notum lengi og í áratug eða meira hefur notkun hitastýrðra blöndunartækja sífellt verið að vinna á og uppsetning þeirra er tvímælalaust einhver besta vörn gegn því að börn brenni sig á heitu kranavatni.

Hitastýrð blöndun við vatnsinntak

Ef einhverjum vex í augum sá kostnaður sem því fylgir að setja upp hitastýrð blöndunartæki við öll hreinlætistæki er hægt að gera þetta á einfaldari hátt. Lítið einfalt tæki með þremur stútum og handfangi, lítur út eins og kross og er ekki dýrt. Þetta litla tæki er oft sett á leiðslur við diskaþvottavélar þegar notað er bæði heitt og kalt vatn á vélina, sem er tvímælalaust ódýrara heldur en láta hana hita allt vatnið með rafmagni. En inn á flestar slíkar vélar má ekki setja heitara vatn en 60 gráður og þá er litla hitastýrða blöndunartækið tengt við heita og kalda leiðslu og stillt þannig eftir hitamæli að hiti vatnsins haldist ætíð undir hámarkinu.

Það er einnig hægt að nota þetta litla tæki á inntakið og raunar er ekki rétt að tala um „litla tækið“ eingöngu, þessi tæki eru til í mörgum stærðum, t.d. notuð til að blanda vatn inn í margar sturtur í baðklefum við íþróttahús og sundlaugar.

Þetta tæki er sett upp í hitaklefanum, blandar sjálfvirkt köldu vatni í heita vatnið og heldur því stöðugt á réttu og stilltu hitastigi, t.d. 60 gráðum.

.

.

Millihitari

Þriðja ráðið er að setja upp millihitara, hann vinnur þannig að heita vatnið hitar upp kalt vatn, hitaveituvatnið kemur því aldrei í handlaug, bað eða eldhúsvask. Með nákvæmum stýritækjum, t.d. AVTQ-lokanum frá Danfoss, verður lítil rýrnun, en að sjálfsögðu verður hún alltaf einhver þegar varmi er fluttur úr einum vökva í annan.

Margir vilja losna við að fá hitaveituvatn úr blöndunartækjum og eitthvað var minnst á það í margumtalaðri könnun að erlendum ferðamönnum líkaði ekki af því lyktin. Við þessa lausn verður þó að hafa í huga í eldri byggingum að þetta getur haft neikvæð áhrif á leiðslur, þær gætu tærst vegna þess að nú er það ekki lengur hitaveituvatn sem um þær rennur heldur upphitað ferskvatn.

Í nýbyggingum er hins vegar hægt að velja lagnaefnið út frá þessum forsendum, að minnsta kosti í þeim byggðarlögum þar sem byggingaryfirvöld leyfa eitthvert val.

Fleira áhugavert: