Vatnsúðakerfi – Íbúðarhús

Grein/Linkur: Er vit í að setja vatnsúðakerfi til eldvarna í íbúðarhús?

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: mbl

.

sprinker einbylishus

.

September 2004

Er vit í að setja vatnsúðakerfi til eldvarna í íbúðarhús?

Hvað er það sem veldur mestum skaða á byggingum hérlendis? Það er ekki nokkur vafi að það er tvennt, annarsvegar eldur, hinsvegar vatn.

Það kann því að vera eins og öfugmælavísa að nota vatnskerfi til að sporna við eyðandi kröftum eldsins þegar það er næstum borðleggjandi að vatnsskaðar eru jafnþungur baggi, ef ekki þyngri, á þjóðarbúinu eins og brunaskaðar á fasteignum.

En hér er ekki allt sem sýnist. Um langt árabil hefur svokallað sprinkler-lagnakerfi verið viðurkennt sem eitt öflugasta varnarkerfi gegn eldsvoðum, en auðvitað verða þá jafnframt vatnsskaðar. Þá er komið að því að skýra í stuttu máli hvað sprinkler-kerfi er, hvernig það er lagt, uppbyggt og hvernig það vinnur þegar eldur kemur upp.

sprinker einbylishus a

sprinker einbylishus

Kerfið er rörakerfi sem lagt er neðan á loft þess rýmis sem það á að verja við eldsvoða. Á kerfinu eru stútar eða „dýsur“ sem við leyfum okkur að kalla svo. Ef eldur, eða hiti yfir ákveðnum mörkum, leikur um stútinn opnast hann og dreifir vatnsúða yfir ákveðið svæði, svo miklum að eldurinn slokknar. Það fer ekki hjá því að við þetta kann að verða einhver skaði af eldi en einnig af vatni, þarna kemur þetta tvennt, sem er ómissandi í daglegu lífi, sem eyðandi og skemmandi öfl.

En ef ekkert sprinkler-kerfi hefði verið á brunastað, hvað hefði þá gerst? Mjög líklegt að miklu meiri brunaskemmdir hefðu orðið og ekki síður vatnsskemmdir, sem eru óumflýjanlegar þegar gífurlegu magni af vatni er dælt á eldinn.

.

sprinker einbylishus c

.

Sprinklerkerfi hafa nær eingöngu, fram til þessa, verið lögð í atvinnuhúsnæði, ekki í íbúðarhús. Þetta er eina vatnslagnakerfið sem beinlínis er lagt með það fyrir augum og í þeirri von að það verði aldrei notað, forsendan komi aldrei sem að sjálfsögðu er að eldur verði laus.

En hnykkjum svolítið á þessu. Af tvennu illu er skárra að verða fyrir vatnsskaða en brunaskaða. Meiri líkur eru á að margt í okkar eigu komist lítt skemmt úr vatnsskaða þar sem eldurinn mundi engu eira, en það mikilvægasta er ónefnt. Það er lífið. Vatnið getur bjargað lífi okkar en það gerir eldurinn aldrei ef hann nær að læsa klónum í okkur beint eða með eimyrju sinni, sem hann framleiðir í stórum stíl þegar hann breytir eignum okkar í loft sem fýkur burt.

sprinker einbylishus dSænska Wirsbo- sprinkler-kerfið

Til er sænskt fyrirtæki sem heitir Uponor Wirsbo, að segja sænskt, kann að vera vafasamt því Finnar eiga það eins og mörg eða flest af stórfyrirtækjum í Svíaríki. En það er önnur saga, segjum svolítið frá þessu merka fyrirtæki. Það var í fararbroddi í þróun pexröra, sem eru plaströr með einstökum eiginleikum og eru nú loksins leyfð til notkunar hérlendis.

Það hefur einnig verið í fararbroddi í þróun gólfhita sl. 20 ár, en gólfhiti er í mikilli sókn hérlendis sem erlendis. Og nú senda þeir frá sér nýtt lagnakerfi sem er Wirsbo Sprinkler-kerfið fyrir íbúðarhús. Tvennt er athyglisverðast við þetta kerfi eða „leyndarmálin tvö“ sem þeir kölluðu svo í byrjun, er eru að sjálfsögðu engin leyndarmál lengur.

Í fyrsta lagi er kerfið í heild lagt úr grönnum rörum eða 16 mm plaströrum, þau eru sem sagt rúmlega einn og hálfur sentimetri að þvermáli, eða eins og baugfingur að sverleika. Í öðru lagi er kerfið lagt sem net af rörum, fjögur rör tengjast hverri „dýsu“ eða vatnsdreifistút. Þess vegna geta rörin verið svona grönn. Þetta kerfi er síðan tengt við inntak kalda vatnsins, í því er sama vatn og við fáum úr krönunum, þannig er stöðugt á kerfinu þrýstingur. Það er alltaf tilbúið til að takast á við hugsanlegan óvin, eldinn sem víða liggur í leyni, í sjónvarpinu, í sígarettunni eða raflögninni.
sprinker einbylishus bÁ Íslandi eru flest hús byggð úr steinsteypu. Þannig yrði einfalt að steypa kerfið inn í hvert loft, hvort sem um er að ræða einbýlis- eða fjölbýlishús. Ef um timburhús væri að ræða yrði lögnin lögð fyrir ofan loftklæðningar, það eina sem sést eru „dýsurnar“ eða vatnsúðastútarnir. Sá tími kann að koma að það þyki flott að hafa slíka stúta í loftinu, jafnvel stöðutákn, annað eins hefur nú skeð. Og að sjálfsögðu er notað rör-í-rör kerfi, rörið sem flytur vatnið er lagt í barka og þannig hægt að skipta um rör ef einhver borar í gegnum það.

Til að tryggja að alltaf sé örugglega vatn á kerfinu undir eðlilegum þrýstingi datt mönnum það snjallræði í hug að tengja við það þó ekki væri nema eitt salerni. Þannig er kerfið prófað í hvert sinn sem skolað er niður. En hvað kostar svona kerfi? Tuttugu þúsund sænskar krónur uppsett segja Svíar í eitt einbýlishús, en það er ekki fjarri að vera tvö hundruð þúsund íslenskar krónur.

Fleira áhugavert: