Lélegt viðhaldi – Eigendur tapa stórfé

Grein/Linkur: Eigendur tapa stórfé á lélegu viðhaldi húsa

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: mbl

.

vidhald

.

Október 2007

Eigendur tapa stórfé á lélegu viðhaldi húsa

Í Svíþjóð er verið að setja í gang mikilvæga áætlun sem þarlendir nefna „Milljónaprógrammið“. Þetta snýst um endurbætur og skipulegt viðhald á húsum sem byggð voru á árunum 1960-1975. Talið er að um að átta hundruð þúsund íbúðir byggðar á þessum miklu uppgangstímum þar í landi séu nú í slæmu ástandi, þess vegna verði að fara í mikið átak, ekki seinna vænna.

En hvernig er ástandið hér á landi, hafa húseigendur sinnt eignum sínum, hafa menn hugað að skipulögðu viðhaldi húseigna?

Þessu er hægt að svara neitandi, skipulegt viðhald húsa hérlendis er nánast óþekkt og tilviljanakennt viðhald er oftast eingöngu vegna þess að allt er komið í óefni.

Það var fyrst með tilkomu stríðsgróðans í síðari heimsstyrjöldinni 1939-1945 að farið var að byggja húsnæði í stórum stíl hérlendis bæði í þéttbýli og til sveita. Talsvert er vissulega til af byggingum frá fyrri hluta síðustu aldar, eða frá millistríðsárunum, en fjölmörg hús eru um 40-50 ára gömul.

Hvernig hefur viðhaldi þeirra húsa verið sinnt?

Lítum fyrst á það sem stendur okkur næst að ætla má, lítum á lagnir og lagnakerfi.

Byrjum neðst og kíkjum undir botnplötuna. Því miður eru skólplagnir undir neðstu plötu úr steinrörum í flestum þessara húsa og þar er komið efni í heilan pistil, það vandamál er svo stórt og því miður oft á tíðum illvígt. Sænskt fyrirtæki, sem er farið að húða skólprör að innan og sagt hefur verið frá áður, hyggur nú á landvinninga hérlendis. En Svíarnir reka upp stór augu þegar þeir komast að því að steinrör eru í grunnum nær allra húsa hérlendis sem eru eldri en 25 ára. Þarlendis voru menn fyrir löngu farnir að nota eingöngu pottrör bæði í stofna og eins í grunna, betur að við hefðum gert það sama hér.

En því miður er það lenska að láta allt reka á reiðanum í lagnamálum, ekki síst í fjölbýlishúsum, og þess eru dæmi að þó hitakerfi hafi verið í lamasessi árum saman með þeim afleiðingum að sumir eru að krókna þegar aðrir eru í hitakófi og hitareikningurinn himinhár, þá er ekkert gert. Það þarf helst að koma til skjalanna frekur og ákveðinn formaður í húsfélaginu, en það er víst ekki slegist um þær stöður.

Í flestum húsum 30-50 ára gömlum eru hitakerfin oftast lögð úr stálrörum, snittuðum og skrúfuðum. Ef ekki kemst utanaðkomandi raki að þessum rörum geta þau enst eins lengi og húsið stendur. Ofnar eru stundum pottofnar, einnig mjög endingargóðir en oft farnir að fyllast af óhreinindum og því ekki jafn góðir hitagjafar og þegar þeir voru nýir. Svo er nokkuð um að hitakerfi voru lögð út eirrörum og voru það mikil mistök að nota það lagnaefni þar sem voru og eru jarðvarmaveitur. Geislahitun var mikið í tísku á árunum 1950-1970, þau hitakerfi eru algengari en ætla mætti. Það er eitt sem er mjög algengt á öllum eldri hitakerfum, að stjórnbúnaður hefur ekki verið endurnýjaður. Oft var það þó gert þegar skipt var frá olíukyndingu og til hitaveitu en síðan ekki söguna meir.

Það er engin ástæða til að kasta geislahituninni, eða réttara sagt hætta að nota það hitakerfi, hafi það verið lagt í húsið við byggingu þess. En á þeim kerfum er það yfirleitt stýribúnaðurinn sem er í lamasessi. Endurnýjun hans getur oft breytt miklu íbúunum til mikilla þæginda og jafnvel til sparnaðar.

Fleira áhugavert: