Klór – Klórgas
Grein/Linkur: Klórgas setur enginn í potta þótt rafkyntir séu
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
.
Janúar 2008
Klórgas setur enginn í potta þótt rafkyntir séu
Hér hefur verið bent á að ekki sé alls staðar farið varlega þegar skipt er um vatn í pottunum, sem á að vera a.m.k. á þriggja mánaða fresti. Borist hefur fullyrðing um að við Þingvallavatn hafi það gerst að klórvatn úr rafhituðum potti hafi verið látið renna beint út í vatnið. Þetta er alvarlegt mál eins og svo rækilega kom í ljós í klórslysinu í Laugaskarði í Ölfusi þar sem klórblandað vatn rann út í Varmá og drap líklega flesta fiska sem voru í ánni fyrir neðan slysstaðinn. Það er staðreynd að ef fiskur er settur í sundlaug með klórblönduðu vatni þá er hann dauður á stundinni.
En það virðist vera að það séu ekki allir nægilega vel upplýstir um hvernig skuli umgangast klórblöndun.
Sem betur fer berast oft viðbrögð við því sem í þessum pistlum birtist. Mest er það póstur á netinu sem verður oft ástæða til skemmtilegra skoðanaskipta og jafnvel innblásturs að nýju efni í pistla. Sjaldan koma fram athugasemdir í fjölmiðlum, þó gerist það, að undanförnu nokkrar greinar vegna rafhitaðra potta með klórblöndun.
En því miður virðist ekki öllum ljóst hvað þeir eru með í höndum og sú ábyrgð sem á þeim hvílir. Hér er tekið það leyfi að birta einn póst sem barst eftir að pistillinn um klórblandað vatn og Þingvallavatn birtist, að sjálfsögðu undir nafnleynd:
„Samkvæmt Wikipedia er klór gastegund og er nauðsynlegt flestu lífi, þar með mönnum“.
Klórið fer því ekki í ár og vötn við skipti á vatni í heitum pottum – það hefur einfaldlega gufað upp við notkun til að halda örverum niðri. Þess vegna þarf að bæta klóri í potta/sundlaugar( um allan heim) eftir notkun.
Grein þín í Morgunblaðinu er því til þess fallin að hræða fólk frá notkun rafpotta og er „tóm della“
Svo mörg eru þau orð. Vissulega er klór til í margvíslegu formi og styrk. Klór sem selt er í búðum er ekki nema 5% klór og 95% vatn. Klór sem fer til sundlauga er nokkru sterkara eða 15% klór.
En það er rétt hjá þeim sem póstinn sendi að klór er einnig til sem gas, þannig er það um flesta vökva, þeir geta ýmist verið fljótandi eða í loftkenndu formi, sem sagt gas. Þannig getur vatn verið rennandi en einnig sem gufa sem kalla má gas.
En aftur að klórgasi.
Hreint klór er í gasformi. Það var fyrst uppgötvað af Svíanum Carl Wilhelm Davy og þar með rétti hann stríðhrottum heimsins eitt þeirra sterkasta vopn. Klórgas er gulgrænt að lit með mjög sterka lykt. Það er eitrað og ef það kemst í öndunarfæri manna í nokkru magni er bráður bani vís.
Fyrstir til að nota það sem drepandi vopn í stríði voru Þjóðverjar í fyrri heimsstyrjöldinni, nánar til tekið árið 1915 við Ypres í Frakklandi. Eftir að mikill fjöldi hermanna, liggjandi í forarfeni skotgrafanna, mátti gjalda með lífi sínu var farið að framleiða gasgrímur sem gátu veitt nokkra vörn gegn þessum vágesti.
Það er því mikill misskilningur að halda að menn séu að nota klórgas í rafhitaða potta. Klórgas er sem betur ófáanlegt hérlendis og verður vonandi um alla framtíð.
Það er enginn vafi að það væga klór sem fáanlegt er í búðum og notað í rafhitaða potta mengar það vatn sem í pottunum er. Svo lengi sem vatnið er í pottunum er það klórblandað, er það þannig einnig þegar það er látið renna úr þeim og getur þá grandað öllu lífi sem á vegi þess verður svo sem fiskum, hvort sem þeir eru í Þingvallavatni eða öðrum vötnum eða lækjum.
Klórslysið í Varmá er víti til varnaðar.