Snjóbræðslukerfi – Er þörf á frostlegi?

Grein/Linkur: Eigum við hreinasta land og vatn í heimi?

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: mbl

.

Apríl 1996

Eigum við hreinasta land og vatn í heimi?

Sumir hönnuðir snjóbræðslukerfa hafa tekið þau trúarbrögð, að frostlög skuli þvinga inn í öll snjóbræðslukerfi, segir Sigurður Grétar Guðmundsson , án tillits til þess, hvort þörf er á því eða ekki.

Fullyrðingar þar um hafa glumið í eyrum okkar undan farið, það er verið að auglýsa íslenskar landbúnaðarafurðir.

Fullyrðingar þessar má þó mjög draga í efa, vissulega er vatnið víða hreint, tært og heilnæmt, landið er enn víða óskaddað og meira að segja hafa landgæði sums staðar verið bætt með landgræðslu og skógrækt.

En er það ekki einmitt á þeim svæðum sem við og forfeður okkar höfum spillt landinu?

Þar erum við komin að kjarna málsins; landið er víðáttumikið og þjóðin hefur alla tíð verið fámenn. Þessi þjóð hefur ekki haft bolmagn til að spilla landinu meira en hún hefur gert en svo sannarlega hefur hún unnið að því af atorku, vitandi og óvitandi.

Einhver nærtækasta sönnunin fyrir hroðalegri eyðileggingu er hernaðurinn gegn votlendi. Ef ekið er um blómlegar byggðir suðurlands, um Árnes- og Rangárvallasýslur, blasa þessi skemmdarverk við hvarvetna. Einhverntíma var ef til vill þörf á því að ræsa fram mýrlendi til að rækta tún en því miður héldu bændur áfram framræslu mýranna löngu eftir að sú þörf var úr sögunni. Þess vegna gapa skurðir út um allt og meðfram þeim eru tilheyrandi haugar, hið sterka lífríki mýrarinnar horfið, hún hefur breyst í þurrt og þýft land.

Hrossastóð landsmanna sér svo jafnvel um að breyta því í örfoka land.

Við Íslendingar erum umhverfissóðar oft á tíðum.

Olíuslysin

Við og við berast fréttir utan úr heimi um hrikaleg olíuslys, risavaxin tankskip full af olíu stranda við Hjaltland og Wales, menga strendur, drepa fugla og margar aðrar dýrategundir. Raunar þarf ekki að fara svo langt til að finna olíuskaða með ströndum, þetta hefur gerst nýlega bæði á Álftanesi og Seltjarnarnesi.

En ekkert er svo með öllu illt að ekki fylgi nokkuð gott. Áður fyrr réðust menn gegn olíumengun með alls kyns tilbúnum efnum til að eyða henni úr fjörum og sjó. Oftast bar þetta nokkurn árangur, olían hvarf en því miður hafði þetta aukaverkanir eins og svo mörg lyf sem mannskepnan er látin éta og drekka til að lækna ýmiskonar krankleika. Þótt olían hyrfi var oft eftir lífvana lögur og láð og það gat tekið langan tíma að ýmis smákvikindi ættu lífsvon í sínum fyrri heimkynnum.

En ýmsir framsýnir og hugsandi vísindamenn hafa nú tekið upp nýjar baráttuaðferðir þegar mengunarslys verða og má segja að lánið í óláninu hafi verið eitt hrikalegasta olíuslys sem orðið hefur, þegar stórtankurinn Exxon Valdes strandaði við Alaska og gífurlegt magn af olíu fór í sjóinn.

Þá fengu menn tækifæri til að reyna nýjar leiðir í baráttunni við óvininn, mengunina. Þeir fengu í lið með sér besta bandamanninn, sjálfa náttúruna.

Í náttúrunni lifa hin ólíklegustu kvikindi stór og smá. Það eru einmitt þau smáu, örverurnar, sem eru hermennirnir í styrjöldinni við mengun jarðar, einkum olíumengun og mengun af öðrum óæskilegum efnum.

Örverur eru til í svo mikilli fjölbreytni að undrum sætir, sumar þrífast best þar sem ekki er vottur af súrefni og aðrar kunna sér ekki læti í gjósandi hverum.

Með því að notfæra sér þessa mismunandi eiginleika örveranna er oftast hægt að finna einhverja bandamenn til að bæta spillta jörð á lífrænan hátt og svo er nú komið að þetta er að verða atvinna fyrirtækja og einstaklinga í iðnþróuðum löndum.

Á meðan þessi jákvæða þróun á sér stað víða erlendis sitja hálærðir verkfræðingar við teikniborð sín hérlendis og láta aðra lagnamenn strita við að dæla baneitruðum frostlegi í snjóbræðslukerfi út um allar holtagrundir og ekki nóg með það; flestöll sumarhús í fegurstu sveitum landsins eru uppfull af þessum óþverra. Um bílana þarf ekki að ræða, á þeim er góður sopi og fróðlegt væri að vita hve mikið af mengandi frostlegi fósturjörðin geymir í sér og á.

Sumir hönnuðir snjóbræðslukerfa hafa tekið þau trúarbrögð að frostlög skuli þvinga inn í öll slík kerfi án tillits til þess hvort þörf er á því eða ekki.

Hefur enginn hugleitt hvað gerist ef frostlögur lekur af því víðáttumikla snjóbræðslukerfi sem er við orkuverið á Nesjavöllum?

Það er slurkur af frostlegi í snjóbræðslukerfum hérlendis.

Fleira áhugavert: