Vakúmventlar – Ólykt, óveður

Grein/Linkur: Óveður geysar neðanjarðar

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

.

Janúar 1998

Óveður geysar neðanjarðar

Oft er kvartað um ólykt á böðum. Ein algengasta orsökin er sú, að það sogast smátt og smátt úr vatnslásum, einkum úr lásum undir baðkerum.

Landsmenn voru rækilega minntir á hvar þeir búa þegar frostið seig niður í tveggja stafa tölu og í kjölfarið kom austan fárviðri, sem varpaði bílum út af vegum með hörmulegum afleiðingum. Þá var hver sæll og heppinn sem gat kúrt inni í upplýstum og hlýjum hýbýlum, þökk sé okkar sístreymandi jarðhita og öruggu orkuverum.

Þótt ótrúlegt megi virðast nær slíkt fárviðri undir yfirborð jarðar og því til sönnunar hefur margur eflaust séð að það var talsverð ágjöf í klósettskálinni, vatnsborðið sveiflaðist upp og niður.

Hvað var að gerast?

Slíkt hífandi rok eins og var hér í byrjun síðustu viku hefur áhrif niður í holræsakerfið, þar geysar lítil útgáfa af fárviðri. Það gerist á þann hátt að þessir sterku vindar ýfa hafið, bylgjur rísa og falla, skella að landi og breyta loftþrýstingi í holræsakerfinu. Þessvegna rís og hnígur vatnið í klósettskálinni en líklega meira í eldri byggingum en yngri.

Þar vantar víða það sem við daglega köllum útloftunarrör á frárennsliskerfi húsa.

Ólykt á böðum

Það er oft kvartað um ólykt á böðum og margar húsmæður (það lendir alltaf á þeim) berjast gegn þessum kvilla með því að hella ýmiskonar ilmefnum í böð, handlaugar og klósett. En allt kemur fyrir ekki, ólyktin kemur aftur.

Þetta getur stafað af mismunandi orsökum, sé þetta á jarðhæð er ekki ólíklegt að frárennslislagnir í grunni sú farnar að gefa sig og þá er endurnýjun óhjákvæmileg, óþéttar lagnir geta líka verið orsök hvarvetna í húsum.

En ein algengasta orsökin er sú að það sogast smátt og smátt úr vatnslásum, einkum úr lásum undir baðkerum. Oftast gerist þetta þegar sturtað er niður úr klósetti og því líklegra er að þetta gerist eftir því sem íbúðin er hærra í húsi.

Í nýrri byggingum, segjum frá síðasta aldarfjórðungi, eru frárennsliskerfi með útloftun frá frárennsliskerfi upp úr þaki. Það varnar því að undirþrýstingur verði í frárennsliskerfinu þegar sturtað er niður úr klósetti.

Þegar vatnið hrapar niður leiðsluna eins og tappi þarf loft að komast inn í hana eins og þegar vatni er hellt úr fullri flösku með því að hvolfa henni, vatnið rennur út en jafnmikið af lofti sogast inn í staðinn.

Vakúmventlar

Á tærri íslensku heita þeir reyndar undirþrýstingsventlar. Þeir eru þeirrar náttúru að hleypa ekki ólyktarlofti út úr frárennsliskerfi, en þegar sog eða undirþrýstingur myndast opna þeir og hleypa lofti inn í kerfið. Hvergi sogast úr vatnslásum, hvorki undir baðkeri né annarsstaðar og engin ólykt kemst inn í vistarverur.

Þessir vakúmventlar hafa talsvert verið notaðir hérlendis en reynslan hefur ekki verið nógu góð og af hverju? Auðvitað er tækinu, vakúmventlinum, kennt um en þar eru menn oftar en ekki að hengja bakara fyrir smið.

Meginreglan hefur því miður oft verið brotin og hver er hún? Hún er sú að í húsum þar sem vakúmventlar eru notaðir verður að minnsta kosti einn stofn frá frárennsliskerfinu að fara upp úr þaki eða vegg. Ef ekki getur myndast svo mikill yfirþrýstingur í kerfinu að vakúmventlarnir skemmast og fara að leka, hleypa í gegnum sig gufu og ólykt.

En svolítil mótsögn í lokin

Ef þú átt við ólyktarvandamál að stríða í baðinu í nokkuð öldruðu húsi sem vitað er að hefur ekki útloftun frá frárennsliskerfi, er einfaldasta og ódýrasta úrbótin að setja vakúmventil á frárennslið frá handlauginni. Þetta er ódýr tilraun til úrbóta, ventillinn er sýnilegur og ef hann hættir að vinna rétt kemur það umsvifalaust í ljós, lyktin leynir sér ekki. Í sumum tilfellum er skynsamlegast, þegar leitað er lausnar á vanda, að byrja á því ódýrasta og einfaldasta.

Fleira áhugavert: