Snjóbræddar heiðar – Hellisheiði
Grein/Linkur: Snjóbræðslukerfi stjórna hvorki veðri né vindum
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
.
Febrúar 2015
Snjóbræðslukerfi stjórna hvorki veðri né vindum
Það eru ríflega þrír áratugir síðan snjóbræðsluöldin hófst á Íslandi. Fram að því höfðu nokkrir stórhuga menn gert nokkrar tilraunir og lagt lítil kerfi sem sum hver plumuðu sig ágætlega. Það væri fróðlegt að kanna hvort einhver af þeim séu enn í notkun og hvert sé elsta gangfæra snjóbræðslukerfið hérlendis.
Þeir fyrstu, sem lögðu í það ævintýri að láta leggja snjóbræðslukerfi, höfðu enga vissu um hvernig þau mundu reynast. Nokkrir djarfir einstaklingar létu slag standa, en það voru fyrst og fremst tvö sveitarfélög sem gerðust strax stórtæk í snjóbræðslulögnum, Kópavogskaupstaður og Reykjavíkurborg.
Upphaf snjóbræðslulagna hófst fyrir alvöru árið 1974, þá voru stór kerfi lögð í báðum fyrrnefndum sveitarfélögum. Það voru því margir eftirvæntingarfullir þegar vetur gekk í garð, fyrsti vetur snjóbræðslukerfanna. Þá brá mörgum í brún, frá sumum heyrðist ramakvein. Sum snjóbræðslukerfin höfðu ekki við snjókomunni, sérstaklega þegar bæði var mikil ofankoma og hífandi rok.
Hvað var að gerast, höfðu menn keypt köttinn í sekknum? Síðan hefur mikið hitaveituvatn runnið um snjóbræðslukerfi og mörg snjókornin hafa fallið, reynslan segir okkur í dag hvers við getum krafist af snjóbræðslukerfum.
Sláum strax þessari staðhæfingu fastri; það er ekki til það snjóbræðslukerfi sem hefur við að bræða snjó í öllum íslenskum veðrum. Slík kerfi þyrftu svo geysilega orku að ekkert vit væri í og nánast má segja að slík afköst séu tæknilega óframkvæmanleg.
Þessar hugleiðingar eru nokkurs konar áframhald af síðasta pistli þar sem reynt var að svara þeirri spurningu hvort vit væri í því að leggja snjóbræðslu í veginn yfir Hellisheiði.
Ekki er ólíklegt að lesendum hafi þótt gæta þar nokkurra þversagna, annarsvegar við lestur pistilsins og hins vegar þegar rýnt er í texta undir mynd sem pistlinum fylgdi.
Fullmikil bjartsýni væri að reyna að endursegja allan pistilinn en ekki verður hjá því komist að endurtaka textann undir myndinni sem var á þessa leið: „Ef snjóbræðsla yrði lögð í veginn yfir Hellisheiði yrði umferð um heiðina ólíkt greiðfærari að vetrarlagi en nú og myndir af þessu tagi sjaldséðari, en myndin er tekin í blindbyl fyrr í vetur. Fjöldi bifreiða var þá skilinn eftir í ófærð á Hellisheiði á meðan fólki var bjargað í öruggt skjól fyrir veðri“.
Það eru margar vistarverur í húsum fjölmiðlanna en óneitanlega brá pistlahöfundi í brún þegar þessi texti birtist á prenti enda hafði hann aldrei séð hann fyrr, hann kom einhverstaðar að eins og landsynningurinn sem undanfarið hefur verið að hrella íbúana á suðvesturhorni landsins.
En það er ekki allt út í hött sem í þessum texta stendur, hver svo sem höfundurinn er. Ekki er nokkur vafi á því að vegurinn yfir Hellisheiði yrði oft greiðfærari ef í hann væri komin snjóbræðsla. Hins vegar er snjóbræðsla með öllu gagnslaus þegar ofanbylur og hvínandi rok geisa á heiðinni, snjóbræðsla hefur engin áhrif á ferðir lægða eða hæða. Það er því ekkert sem bendir til þess að sú sjón, sem í myndinni birtist, yrði fátíðari í framtíðinni, enginn getur spáð um það.
En gagnsemi snjóbræðslunnar yrði ótvíræð, ekki vafi. Eftir áhlaup, þegar snjór hefur gert Hellisheiðina ófæra, verður að senda hefla og sköfur eftir sem áður. Þá kemur nokkuð í ljós sem lýsir best gagnsemi góðrar snjóbræðslu. Undan sköflunum kæmi vegur, hreinn vegur án nokkurrar hálku. Án snjóbræðslunnar verður eftir frosið þunnt snjólag við veginn sem gerir hann hálan og viðsjárverðan.
Þess vegna mundi snjóbræðsla í veginn yfir Hellisheiði gera hann miklu öruggari allri umferð. En hún mundi ekki hafa nein áhrif meðan annað eins veður geisar og var miðvikudaginn 16. febrúar síðast liðinn sem enn hlýtur mörgum austan heiða að vera í fersku minni.
En á meðan stórviðrið lætur öllum illum látum og stöðvar alla umferð er snjóbræðslan samt að vinna allan tímann. Hún varnar því að snjórinn frjósi við veginn, hún heldur honum alltaf í plúshita og gerir hann öruggari öllum vegfarandi þegar búið er að moka. En það verður að moka eins og áður, á því er enginn vafi, vegurinn getur lokast af völdum stórhríðar, á því er enginn vafi þrátt fyrir snjóbræðslu undir malbikinu.
En er þá nokkurt vit í því að leggja snjóbræðslu í veginn yfir Hellisheiði? Auðvitað ekki því sá vegur á enga framtíð fyrir sér. Það hljóta að koma göng undir þennan stutta kafla frá Hveradölum og austur í Ölfus.
Hinsvegar ætti nú þegar að taka formann Orkuveitu Reykjavíkur á orðinu, þiggja hans rausnarlega boð um orku í snjóbræðslukerfið og næga peninga til að leggja það.
Bráðum verður hafist handa um að leggja nýja vegi yfir Svínahraun, sem tengjast í gatnamótum Suðurlandsvegar og Þrengslavegar. Þarna er tækifærið, leggjum snjóbræðslu í þessa nýju vegi og mislægu gatnamótin sem þar verða byggð, þau gatnamót verða mislæg vegna einarðrar baráttu fólksins í strandþorpunum þremur, Þorlákshöfn, Eyrarbakka og Stokkseyri.
Nú ættu þessir sömu þorpsbúar að láta í sér heyra og þá ekki síður Selfyssingar og Hvergerðingar og reyndar allir Sunnlendingar. Krafan er snjóbræðsla í nýju vegamannvirkin um Svínahraun og göng undir Hellisheiði.
Hvernig væri að Sunnlendingar sýndu nú og sönnuðu að það sé ekki allt blóð úr þeim fyrir löngu. Það má líka rifja upp gamla sögu, vill ekki svo vel til að Sunnlendingar eigi nokkra fulltrúa á Alþingi Íslendinga? Leitið og þér munuð finna.