Vindorka BNA – Leysi vatnsorkuna af, Styrja
Grein/Linkur: Endurkoma styrjunnar?
Höfundur: Ketill Sigurjónsson
.
.
Júní 2009
Endurkoma styrjunnar?
Landsvirkjun undirbýr nú virkjanir í neðri hluta Þjórsár og þar á meðal stendur til að virkja Urriðafoss. Væntanlega stendur til að a.m.k. verulegur hluti þeirrar raforku fari í nýjan áliðnað á suðvesturhorni landsins. Á sama tíma eru nú uppi hugmyndir um að loka nokkrum af helstu vatnsaflsvirkjununum á vatnasvæði Columbiafljótsins vestur í Bandaríkjunum og láta stórar, nýjar vindrafstöðvar leysa þær af hólmi.
Vindorkuver spretta nú upp víða á vindbörðum sléttum Bandaríkjanna – og það jafnvel í nágrenni jarðhitavirkjananna í Kaliforníu og vatnsaflsvirkjana norðvesturfylkjanna Oregon og Washington. Vindorkan er einfaldlega að verða einn albesti kosturinn í virkjanamálum og stundum jafnvel sá sem bestur þykir.
Í síðustu færslu minntist Orkubloggið á hinar svakalegu vatnsaflsvirkjanir í Columbiafljótinu. Þær voru mikilvægur hluti í endurreisnaráætlun Roosevelt forseta í Kreppunni miklu og veittu mörgum atvinnulausum Bandaríkjamanninum vinnu og nýja von. Ódýr raforkan frá virkjununum varð undirstaða gríðarlegs áliðnaðar þar vestra og sá iðnaður var lengi mikilvægur hluti atvinnulífsins í viðkomandi fylkjum.
En tíminn stendur ekki í stað og allt er breytingum háð. Að því kom að álverin í norðvestrinu gátu ekki lengur keppt við nýja kaupendur. Inn á svæðið komu háþróaðri fyrirtæki sem gátu skilað meiri virðisauka en álverksmiðjurnar og voru viljug til að borga mun meira fyrir raforkuna en álfyrirtækin treystu sér til.
Fyrir vikið hefur hverju álverinu á fætur öðru verið lokað þarna í nágrenni hinnar ægifögru náttúru í nágrenni Klettafjallanna. Og álfyrirtækin leitað á ný mið – til landa sem eiga mikið af ónýttri orku og eru með lítt þróaðan iðnað. Ekki skemmir ef í viðkomandi landi eru stjórnmálamenn við völd sem eru æstir í að virkja jafnvel þó svo lítill arður fáist af orkusölunni.
Hátækniálverin þarna vestra gátu sem sagt ekki keppt við „eitthvað annað“ sem kom inn á svæðið. Það voru talsverð tímamót. Og nú gætu enn á ný verið að bresta á tímamót í orkuiðnaði Washington og Oregon. Það eru nefnilega uppi hugmyndir um að nýta vindorku til að loka vatnsaflsvirkjunum í Columbiafljóti og endurheimta fjölbreytt lífríki árinnar.
Hugmyndin er sem sagt sú að vindorkan leysi vatnsorkuna af hólmi – að einhverju marki. Það er reyndar alls óvíst að þessar hugmyndir gangi eftir. Satt að segja þykir Orkublogginu heldur ólíklegt að svo fari, því stóru vatnsaflsvirkjanirnar í Columbia framleiða líklega einhverja ódýrustu raforku sem þekkist. Á móti kemur að virkjanirnar höfðu mikil neikvæð umhverfisáhrif í för með sér og freistandi að endurheimta hluta af hinum horfna heimi.
Columbiafljót var áður m.a. þekkt fyrir gríðarlega laxagengd og margar fallegar fossaraðir. Heiti eins og Celilo Falls, Priest Rapids og Kettle Falls eru nú einungis endurminning um villt straumvatnið sem var kæft með stíflumannvirkjum fyrir mörgum áratugum og sökkt í djúpið. Vegna virkjananna og miðlunarlóna hvarf fjöldi flúða og fossa og laxinn gat ekki gengið lengur upp fljótið eins og verið hafði. Á svæðum þar sem áður höfðu veiðst milljón laxar á ári varð Columbia einfaldlega laxalaus. Efnahagslega bitnaði þetta einkum á indíánaættflokkum á svæðinu sem áttu veiðiréttinn og kannski var það ein ástæða þess að menn gerðu ekki mikið úr þessu á sínum tíma.
Auk laxins hafði Columbia að geyma mikið af styrju, en vegna stíflnanna eyðilögðust mörg helstu hrygningarsvæðin og styrjan hætti að geta gengið upp með ánni eins og verið hafði síðan í árdaga. Í dag er stofn Hvítstyrjunnar í Columbia ekki svipur hjá sjón. Þar að auki fór talsvert mikið land undir miðlunarvatn, sem eftirsjá þykir í. Þess vegna eru margir sem nú vilja nota vindorkuna til að leysa virkjanir í Columbia af hólmi og færa hluta árinnar til fyrra horfs.
Maður hefði kannski ætlað að möguleikar í vindorku í Bandaríkjunum miðuðu fyrst og síðast að því að draga úr þörfinni á rafmagni frá gas- og kolaorkuverum! En nú eru sem sagt komnar fram hugmyndir um að vindorka leysi af hólmi einhverjar af stóru vatnsaflsvirkjununum á vatnasvæði Columbia-fljótisins. Raforkufyrirtækið Bonneville Power Administration (BPA), sem selur stærstan hluta raforkunnar frá virkjununum í Columbia, Snákafljóti og öðrum virkjunum á þessu gríðarstóra vatnasvæði, íhugar nú að auka mjög raforkuframleiðslu frá vindorkuverum. Einkum til að mæta vaxandi eftirspurn eftir raforku og líka til að skapa sér grænni ímynd. Með nýjum vindorkuverum gæti BPA dregið úr raforku sinna frá gasorkuverum, sem nú er næst stærsta raforkuuppspretta BPA (á eftir vatnsaflinu).
Vafalust bjuggust stjórnendur BPA við því að þessum áætlunum þeirra yrði fagnað með látum. En það fór ekki alveg eins og þeir vonuðust eftir. Því til eru þeir sem vita að laxastofnarnir í stórám norðvestur-fylkjanna voru annað og meira fyrir tíð vatnsaflsvirkjananna. Margir eygja nú möguleikann á að endurheimta eitthvað af forni frægð Columbia-laxins. Þess vegna hefur BPA vinsamlegast verið bent á að þeir eigi einfaldlega að nýta vindorkuna til að minnka þörfina á vatnsaflsvirkjununum, þ.a. þær megi rífa niður og frelsa laxinn úr áratuga ánauð sinni.
Það kom BPA örlítið á óvart að vindorkuverin þeirra yrðu vatn á myllu þess að loka virkjunum í Columbiafljótinu. Þeir hafa beint á að vatnsaflsvirkjanir og vindorkuver spili mjög vel saman. Henti vel til að jafna álagið og þetta sé einfaldlega samsetning sem smellpassar í raforkuframleiðslu. Vatnsaflið muni þróast í að verða varaafl, en það hlutverk er nú aðallega í höndum gasorkuveranna.
Það er óneitanlega athyglisvert ef aukning vindorku þarna í æpandi náttúrufegurð Oregon og Washington verður ekki til að fækka um eitt einasta gasorkuver og hvað þá kolaorkuver. Heldur að vindorkan leysi þess í stað gamlar og löngu uppgreiddar vatnsaflsvirkjanir af hólmi. Svolítið undarleg þróun, a.m.k. svona við fyrstu sín. Maður hélt jú að endurnýjanleg orka í bæði Evrópu og Bandaríkjunum hefði einkum það hlutverk að takmarka kolefnisbruna og þörf á innfluttri orku.
Augljóslega yrði kostnaðarsamt að ráðast í aðgerðir af þessu tag, þ.e. að loka vatnsaflsvirkjunum. En líklega hefur það þó sjaldan verið eins auðvelt og nú. Kreppupakkinn kenndur við Obama (Obama Stimulus Package) felur það í sér að lánamöguleikar BPA frá alríkisstjórninni hafa aukist úr tæpum 4,5 milljörðum dollara í næstum því 8 milljarða dollara. Fyrirtækið á nú m.ö.o. greiðan aðgang að miklu og ódýru lánsfé og þrýst er á þá að hugleiða sína siðferðislegu ábyrgð og bæta fyrir eitthvað af því mikla umhverfistjóni sem fylgdi virkjununum á vatnasvæði Columbia.
Sérstaklega hefur verið bent á þann möguleika að rífa burtu virkjanirnar í neðri hluta Snákafljóts, sem er ein stærsta þverá Columbia. Virkjanirnar þar reyndust hafa hvað neikvæðust áhrif á laxinn og með því að fjarlægja þær mætti líklega stórefla lífríkið á svæðinu. Af hálfu BPA hefur verið bent á að bygging nýrra vindorkuver sem einungis myndu mæta framleiðslutapinu vegna umræddra virkjana, myndu kosta 400-550 milljónir dollara (til samanburðar má nefna að á liðnu ári voru heildartekjur BPA rétt rúmir 3 milljarðar dollara). Sumir segja aftur á móti að þetta séu smápeningar miðað við ávinninginn sem þetta myndi skila lífríkinu í Snákafljóti. Og nú sé tækifæri að láta enn umhverfisvænni orku bæta fyrir umhverfistjón fyrri tíma. Skyldi koma að því að vindorka verði meginuppspretta raforkuframleiðslu Landsvirkjunar, en vatnsaflið verði fyrst og fremst varaafl?