Er sama hvernig/hvenær við drekkum vatn?

Grein/Linkur: Hvers vegna þurfum við að drekka allt þetta vatn?

Höfundur: Ingibjörg Sigfúsdóttir

Heimild:

.

.

Apríl 2008

Vatn er frumskilyrði alls lífs á jörðinni. Það á sér hvorki upphaf né endi í náttúrunni,

Það er á eilífri hringrás. Vatn er uppspretta heilsu og vellíðunar. Auðfengið og ódýrt á Íslandi. Íslendingar njóta þeirra forréttinda að geta neytt ómengaðs vatns nær takmarkalaust. Neysluvatn hér á landi er mest allt ómeðhöndlað grunnvatn. Það fæst úr lindum, borholum og brunnum. Yfirborðsvatn er í flestum tilfellum geislað með útfjólubláu ljósi til að eyða örverumagni sem berst í vatnið frá dýrum og úr jarðvegi.

Vatnið og mannslíkaminn
Vatn gegnir margvíslegum hlutverkum og er lífsnauðsynlegt manninum og öðrum lífverum. Daglegt vatnstap líkamans er um 2-2,5 lítrar. Hlutverk vatns er að flytja úrgangsefni, sem verða til við efnaskipti, með þvagi úr líkamanum. Vatn tapast einnig með útöndun, svita og með hægðum. Vatnsinntaka verður að mæta þessu tapi sem verður. Mannslíkaminn er 66% vatn og 75% heilans er vatn. Einstaklingur getur lifað án matar í allt að mánuð, en einungis 5-7 daga án vatns.

Vökvajafnvægi líkamans
Nýrun gegna lykilhlutverki í því að viðhalda vökvajafnvægi líkamans og losa hann við úrgangsefni. Nýrun sía vatn og úrgangsefni úr blóðinu og skila mestum hluta vatnsins aftur út í blóðrásina. Sérstakar frumur, nýrnafrumur, fjarlægja úrgangsefni (þvagefni og fleiri efni) úr blóðinu. Síuðu efnin fara í gegnum örfín göng í nýrum. Úrgangsefnin fara til þvagblöðru og skilast þannig út úr líkamanum sem þvag, en vatn sem líkaminn endurnýtir fer aftur út í blóðrásina. Á hverjum degi fara um 1.5 lítrar af þvagi til blöðrunnar. Nýrun sjá um að varðveita/stjórna vökvajafnvægi líkamans og halda vatnsjafnvægi blóðsins í eðlilegu horfi. Frumur kallaðar osmóviðtakar sjá um að salt-og vatnsmagn blóðsins sé í jafnvægi. Ef vatnsmagn líkamans minnkar t.d. þegar við svitnum eða það er heitt og blóðið verður of salt senda osmóviðtakarnir sem staðsettir eru í undirstúku heilans merki til heilans um að auka framleiðslu á þvagdempandi hormón. Þá losar líkaminn minna vatn með þvagi og endurnýting vatns sem líkaminn notar aftur eykst. Við þurfum sjaldnar að pissa og þvagið verður dekkra. Þannig fer ekkert vatn til spillis.

Drekki maður aftur á móti mikið vatn og þynnir blóðið, senda osmóviðtakarnir boð um minni framleiðslu á þvagdempandi hormón. Þar af leiðandi skila nýrun meira af vatni til þvagblöðru og minni þörf er á endurnýtingu. Við þurfum oftar að pissa og þvagið er ljósara. Liturinn á þvaginu er góður mælikvarði á magn vatns í líkamanum. Þorsti er ekki besti mælikvarðinn á vatnsbúskap líkamans. Ef vatnsbúskapurinn er í lagi ætti þvagið að vera ljósgult eða nánast glært á litinn. Dökkgult eða brúnleitt þvag er aftur á móti merki um að líkamann skorti vatn. Vatn er mikilvægt fyrir starfsemi nýrna og losun á efnum úr líkama. Margir taka lyf og eykur það álag á ýmis líffæri svo sem nýru og lifur. Lifrin gegnir mikilvægu hlutverki í afeitrun líkamans. Vatn skiptir þar miklu máli svo líffærin vinni vel.

.

Hvað þurfum við að drekka mikið vatn daglega?
Munum að tveir þriðju líkamans er vatn og við töpum um 2-2,5 lítrum daglega. Við þurfum að bæta líkamanum upp þetta vökvatap. Mælt er með að drekka 6-8 glös af vatni á dag. Það er 11/2 – 2 lítrar. Meiri þörf er fyrir vökva í heitu veðri og við líkamlega áreynslu. Við líkamlega áreynslu eins og líkamsrækt getur líkaminn misst þó nokkuð af vökva með svita. Væg einkenni ofþornunar geta komið fram t.d. svimi, slappleiki og þreyta. Þá er mikilvægt að bæta vökvatapið upp og drekka vatn og einnig drykki sem innihalda natríum og kalíum t.d. ávaxtasafa. Almennt er best að uppfylla vatnsþörf með drykkjarvatni. Kaffi og drykkir með koffíni eru ekki góðir vatnsgjafar þar sem í þeim eru efni sem eru þvagdrífandi og ýta því undir vatnstap úr líkamanum. Sætir drykkir eru óheppilegir vega þess að þeir eru orkuríkir og innihalda oft aukefni. Ýmis matvæli innihalda einnig vatn. Grænmeti og ávextir eru mjög vatnsrík fæða. Ferskir safar eru vatnsríkir og hollir en þeir eru einnig orkuríkir. Eitthvað af vatni er í flestum matvælum.

Er sama hvernig / hvenær við drekkum vatn?
Ýmis ráð og kenningar eru til um vatnsdrykkju. Dr Gillian McKeith (höfundur bókarinnar You are what you eat) ráðleggur að drekka ekki vatn með mat heldur hálftíma fyrir mat og hálftíma eftir mat. Vatn með mat þynnir út meltingarhvatana í maganum og upptaka næringarefna verður verri. Fólk með MS er einnig viðkvæmt fyrir köldum mat og köldum drykkjum. Mörgum verður betra af volgu vatni en köldu. Ráð er að sjóða vatn og láta það kólna og standa við herbergishita og drekka eftir þörfum. Einnig væri gott að mæla það vatn sem er drukkið yfir daginn. T.d.vera með hálfslítra flösku og drekka þrjár til fjórar slíkar yfir daginn. Betra er að drekka fleiri skammta en að þamba mikið í einu. Við erum mjög lánsöm hér á landi að eiga nóg af ómenguðu góðu vatni.


Of lítil/mikil vatndrykkja
Ef líkaminn fær of lítinn vökva eða tapar miklum vökva við veikindi, er hætt við ofþornun. Helst einkenni ofþornunar er þurrkur í munni, þorsti, lítil þvaglát, svimi, höfuðverkur og slappleiki. Alvarleg einkenni ofþornun eru m.a. lágur blóðþrýstingur, hraður hjartsláttur, engin þvaglát, sokkin augu og svefnhöfgi. Lítil hætta er á ofneyslu vatns, vatn umfram þörf er auðveldlega losað með þvagi. Ef drukkið er mjög mikið magns hreins vatns, 10-20 lítrar eða meira á dag getur styrkur natríums í blóðinu lækkað. Lækkun natríums í blóði veldur einkennum eins og máttleysi, rugli og krampa.


Hollráð:
Drekka eitt til tvö glös af volgu vatni á morgnana áður en nokkurs annars er neytt. Gott að bæta sítrónusafa í vatnið. Súra bragðið er gott fyrir lifrina. Vatnið hreinsar þarmana og losar líkamann við óhreinindi. Vatn drukkið strax að morgni leggur einnig grunn að vatnsbúskap líkamans og eykur þar með vellíðan yfir daginn. Einnig er gott að taka eina matskeið af hörfræolíu á morgnana með vatninu, en olían örvar ristilinn og úthreinsun.

Lokaorð
Margir með MS eiga við blöðruvandamál að stríða. Margir draga þess vegna úr vatnsdrykkju, en það er ekki rétta leiðin. Þá er meiri hætta á þvagfærasýkingu. Drekka þarf vatn yfir allan daginn. Ég drekk alltaf 2 glös á morgnana og tek 1 matskeið af hörfræolíu með. Reyni svo að drekka 1 glas fyrir hádegi , 3-4 glös fram að kvöldmat og eitt eftir kvöldmat. Ég drekk ekki vatn með mat. Allt vatn sem ég drekk er volgt ekki kalt. Ég drekk vatn sem ég sýð og læt svo kólna. Drekk ekki vatn seint á kvöldin og helst ekki eftir níu á kvöldin. Eins þarf að læra að hlusta á líkamann og prófa sig áfram. Hentar þér að drekka með mat? Líður mér betur ef ég drekk volgt vatn? Þarf ég að drekka meira vatn?. Ég held að við drekkum almennt of lítið vatn og þá er ráðið að mæla vatnsdrykkju í nokkra daga.

Fleira áhugavert: