Umhverfisvernd, ofstæki – Sorpið, óværa

Grein/Linkur: Vistvænt skipulag

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

.

September 1998

Vistvænt skipulag

Sigurður Grétar Guðmundsson 1934-2013

Við verðum að hætta að líta á sorpið sem einhverja óværu. Líta verður á sorpið sem verðmæti, sem náttúran hefur lánað okkur og við eigum að skila henni til baka.

INN um bréfalúguna hrynja ókjörin öll af bæklingum og pésum, flestum er ætlað það hlutverk að láta okkur falla fyrir freistingum hvers konar, éta pitsur, drekka gos, sprikla í tækjum og láta fitubrákina renna í stríðum straumum. En stundum kemur eitthvað bitastæðara og svo brá við nýlega að inn datt vandað rit frá hendi prentaranna og við nánari skoðun að efnistökum einnig, margar ágætar greinar, svo sem grein eftir Guðmund Bjarnason, umhverfisráðherra.

Þetta er ritið „Byggiðn“ sem Menntafélag byggingariðnaðarins gefur út, fyrst og fremst til að kynna iðnaðarmönnum hvað þeim stendur til boða í endurmenntun, sem er orðin lykillinn að því hvort stéttir iðnaðarmanna verði við lýði fram á næstu öld eða hverfi sporlaust.

Það er þó fyrst og fremst grein eftir dr. Einar Val Ingimundarson sem er kveikjan að þessum pistli og líklega best að leyfa sér að birta hér orðréttan inngang greinar hans:

„Flestir þekkja orðið ágætlega nokkur alþjóðleg vandamál umhverfisins; mengun lofts, láðs og lagar. Súrt regn, gróðurhúsaáhrif, ósoneyðing eru hugtök, sem voru aðeins fræðimönnum tungutöm fyrir 10 árum en eru á hvers manns vörum í dag.

Það reynist samt mörgum erfitt að skilja hvernig einstaklingurinn kemur inn í þessa mynd. Margir virðast halda að umhverfisvernd felist í því að tína rusl á tyllidögum, en gera sér ekki grein fyrir því að byltingar er þörf á háttum manna hér á jörðinni ef ekki á illa að fara. Íbúar Vesturlanda þurfa að breyta neyslumynstri sínu. Inn í hagkerfin vantar stærðir sem kunna að gjörbreyta núverandi ástandi. Sá hagvöxtur sem margir hrífast af hefur alltof lengi byggst á kolröngum forsendum. Öllum umhverfiskostnaði hefur verið sleppt út úr dæminu. Rányrkjunni verður að linna og aukinn jöfnuður jarðargæða á meðal íbúanna er forsenda þess að næstu 25 árin leiði ekki yfir okkur hörmungar.

En það er ástæðulaust að halda að þetta séu óyfirstíganleg vandamál. Þekking okkar á betri lausnum er fyrir hendi. Það er bara spurning um hvernig best er að koma þekkingunni á framfæri.“

Umhverfisvernd er ekki ofstæki

Þetta um ofstækið kann að hljóma einkennilega, en er þó ekki sagt að ástæðulausu. Því miður hafa ýmis samtök, sem höfðu verndun umhverfis, dýra og gróðurs á stefnuskrá sinni og voru vel meinandi í upphafi, snúist upp í andhverfu sína, fallið fyrir freistingum Mammons og láta nú tilganginn helga meðalið.

Slík samtök hafa því miður komið óorði á verndunarstarf og fara offari í flestu, nú síðast berast fregnir af því að einn þrjótur úr þeirra röðum hafi keypt sér kafbát til að koma í veg fyrir að bláfátækir indíánar í nyrstu byggðum Kanada geti veitt þá 5 hvali, sem hin alvitra ríkisstjórn Bandaríkja Norður-Ameríku hefur af örlæti sínu fallist á að leyfa þeim að veiða og eta.

Í þessum pistlum hefur stundum verið reynt að vekja athygli á ýmsu sem kemur fram í grein Einars Vals, svo sem því að hætta að líta á sorp sem einhverja óværu sem verði að losna við með illu eða góðu, heldur líta á sorpið sem verðmæti, sem náttúran hefur lánað okkur og við eigum að skila henni til baka.

Þá hefur verið bent á það, ýmsum pótintátum til óhugnaðar, að það sem við skilum frá okkur líkamlega, þvag og saur, er einnig verðmæti sem á að skila aftur til náttúrunnar. Þetta er vitaskuld umræðuefni sem uppum nútímans af báðum kynjum finnst ógeðfellt að hugsa um, hvað þá nefna í ræðu eða riti.

Þessi pempíuháttur gengur svo langt að sá ágæti fjölmiðill, sem þessum pistli er ætlað að birtast í, felldi eitt sinn aftan af pistli ferskeytlu eina vegna þess að í henni kom fyrir það ágæta íslenska orð „kúkur“ svo nú reynir á hvort frjálslyndið hafi aukist á þeim bæ.

Það er ekki hægt í stuttum pistli að endursegja meira úr þessari ágætu grein Einars Vals, enda væri það hrein misþyrming að birta greinina í fleiri pörtum en orðið er, hverjum og einum bent á að verða sér út um hana, lesa síðan og dæma. Víst er að hún er hverjum nútímamanni, ekki síst yngri kynslóð þéttbylisbúa, holl lesning. Það gæti kannske orðið til þess að margur maðurinn færi að hugsa því það gera ekki nærri allir í dag.

Með því er átt við að menn hugsa ekki um það hvers vegna við erum að dæla skólpi lengst út í hafsauga, ekki um það að einkabílisminn er að kaffæra okkur í óleysanlegum vandamálum að óbreyttri stefnu, að í hvert skipti sem við sturtum niður úr klósetti erum við að fremja skemdarverk gegn náttúrunni, að við sóum og eyðum að óþörfu okkar vistvænu orku, heita vatninu, svo nokkuð sé nefnt.

Fleira áhugavert: