Rússnesk olía – ESB: Innflutningur bannaður?
Grein/Linkur: ESB gæti bannað innflutning rússneskrar olíu
Höfundur: Jónas Atli Gunnarsson
.
.
Apríl 2002
ESB gæti bannað innflutning rússneskrar olíu
Evrópusambandið vinnur nú að tillögu um innflutningsbann á allri rússneskri olíu í kjölfar frétta af voðaverkum Rússa í Úkraínu. Þó er óvíst hvort öll aðildarríkin samþykki hana, en óeining hefur verið innan sambandsins um refsiaðgerðir gegn Rússlandi.
Aðildarríki Evrópusambandsins gætu hert refsiaðgerðir sínar gegn Rússlandi enn frekar og bannað allan innflutning á rússneskri olíu. Hingað til hafa ríkin verið ósammála um hversu langt sambandið ætti að ganga í viðskiptaþvingunum sínum vegna innrásarinnar í Úkraínu, en líkurnar á meiri hörku gegn rússneskum stjórnvöldum hafa aukist eftir að fréttir hafa borist af hugsanlegum stríðsglæpum rússneska hersins. Þetta kemur fram í frétt frá Politico.
Óeining um aðgerðir
Eystrasaltsríkin og Pólland hafa kallað eftir enn harðari aðgerðum gegn Rússlandi á síðustu vikum, þar sem núverandi aðgerðir hafa ekki enn skilað tilætluðum árangri. Líkt og Politico greindi frá síðasta föstudag vill ríkisstjórn Póllands að háir tollar verði settir á rússneskan orkuinnflutning, en Eistland hefur einnig lagt til að greiðslur fyrir þennan innflutning verði frestaðar þangað til að Rússland dregur herlið sitt úr Úkraínu.
Önnur aðildarríki, með Þýskaland í fararbroddi, hafa aftur á móti sett sig á móti hingað til. Fyrir tveimur vikum síðan sagði Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, að áherslan ætti fyrst og fremst að vera á að styrkja eftirfylgni núverandi viðskiptaþvingana.
Hins vegar nefnir Politico að greina megi hugarfarsbreytingu innan sambandsins þessa vikuna, í kjölfar frétta af fjöldamorðum og pyntingum rússneska hersins á óbreyttum borgurum í hernumdum bæjum í Úkraínu. Samkvæmt utanríkismálastjóra Evrópusambandsins, Josep Borell, er hér um stríðsglæpi að ræða.
Sambandið vinnur nú að útfærslu nýrra refsiaðgerða gegn landinu, sem verður kynnt fyrir embættismönnum aðildarríkjanna á morgun. Á meðal þeirra sem eru til umræðu er innflutningsbann á allri rússneskri olíu.
Þjóðverjar opnari fyrir olíubanni
Forsætisráðherra Póllands, Mateusz Morawiecki, sagði í gær að þýsk stjórnvöld væru helsta hindrun þess að sambandið herti refsiaðgerðirnar sínar gegn Rússum. Samkvæmt Politico hafa Þjóðverjar þó verið opnari fyrir slíkum aðgerðum á síðustu dögum, þótt ólíklegt sé að algjöru innflutningsbanni verði komið á.
Miðillinn hefur eftir einum embættismanni að gasinnflutningur frá Rússlandi, sem er þýskum heimilum mjög mikilvægur fyrir húshitun, yrði líklega ekki bannaður. Líklegra væri að bann yrði sett á innflutning á olíu. Þetta er í samræmi við ummæli fjármálaráðherra Þýskalands, Christian Lindner, en hann hefur sagt að bann á gasinnflutningi væri ekki mögulegt þessa stundina, nauðsynlegt væri að aðskilja það frá öðrum orkuútflutningi Rússlands.
Rúblan jafnsterk en hagkerfið kólnar
Rússneska rúblan, sem hrundi í virði á fyrstu dögum innrásarinnar og varð verðminni en íslenska krónan um tíma, hefur nú náð fyrri styrk. Að hluta til er þessi virðisaukning gjaldmiðilsins tilkomin vegna skarpra stýrivaxtahækkana í landinu, en einnig hefur gjaldeyrir haldið áfram að streyma inn í landið þar sem orkuútflutnings til Vesturlanda hefur ekki stöðvast.
Þrátt fyrir jafnsterka rúblu hefur innrásin í Úkraínu og refsiaðgerðir Vesturlanda vegna hennar haft afgerandi áhrif á efnahag Rússlands. Líkt og New York Times bendir á eru Vesturlönd nú að undirbúa sig fyrir að verða óháð rússneskri orku til frambúðar með auknum fjárfestingum í öðrum orkugjöfum.
Einnig má búast við að hækkun stýrivaxta muni hafa kælandi áhrif á rússneska hagkerfið. Vextirnir voru rúm fjögur prósent í fyrra en hafa núna hækkað upp í 20 prósent til að koma í veg fyrir fjármagnsflótta frá landinu. Einnig hefur seðlabanki Rússlands nú mun minna svigrúm til að bregðast við gengissveiflum, þar sem tæpur helmingur af gjaldeyrisforða þess hefur verið frystur.