Lagnakerfamiðstöð Íslands – Kennslutæki, samvinna
Grein/Linkur: Víðtæk samvinna um nýtt kennslutæki lagnamanna
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
.
September 1998
Víðtæk samvinna um nýtt kennslutæki lagnamanna
Það kemur öllum við hvort lagnakerfi eru rétt hönnuð, valin rétt efni og verkgæði, segir Sigurður Grétar Guðmundsson og segir það gilda um þá sem í húsum búa og starfa.
Islendingum tekst oft, því miður, að drepa hinum bestu málum á dreif með argaþrasi eins og sjá má og virðist ætla að verða raunin með hið stórmerka frumvarp á Alþingi um gagnagrunn, þar sem saman yrði safnað á einum stað upplýsingum um heilsufar og móðursýki þjóðarinnar, en ekki látið nægja að þær liggi í kompum og hillum út um allan bæ. Þá tekst sömu þjóð mætavel að láta hafa sig að ginningarfíflum eins og sjá má af yfirstandandi Keikófári, þar sem meirihluti Vestmanneyinga er farinn á skytterí með eigin tær sem skotmark. Því er það meira en ánægjulegt að á sama tíma komi saman nær allir hagsmunaaðilar í lagnamálum og taki um það einróma ákvörðun að smíða kennslugagn fyrir lagnamenn sem lengi hefur vantað og enn sem komið er kallast Lagnakerfamiðstöð.
Einhver kann að segja sem svo að óþarft sé að fjalla um Lagnakerfamiðstöð á opinberum vettvangi, þetta sé sérhæft tæki fyrir lagnamenn og komi almenningi ekki við. En svo er aldeilis ekki. Lagnir í húsum koma öllum við sem í húsum búa og í húsum starfa, þess vegna koma lagnir öllum við.
Ekki síður kemur það öllum við að lagnakerfi séu rétt hönnuð, í kerfin valin rétt lagnaefni, hvort sem það er venjulegt stál, plast, eir eða ryðfrítt stál, það verður á hverjum stað að velja rétt efni miðað við aðstæður. Öllum koma við gæði lagnarinnar og gæði vinnunnar við að leggja kerfi og þess vegna kemur öllum við þekking þeirra sem hanna og leggja, þekking verkfræðinga, tæknifræðinga, pípulagningamanna og blikksmiða. Fyrir þá verður Lagnakerfamiðstöðin gerð að veruleika, þar verður þekking þeirra aukin, þar verða efni rannsökuð, svo og lausnir í lagnamálum. Hvað er Lagnakerfamiðstöð? Hún er ekki skóli í eiginlegri merkingu, heldur geysistór verkfærakista. Þar verða sett upp lagnakerfi með margvíslegum stýringum þar sem allir þeir lagnamenn sem fyrr voru taldir geta gert tilraunir og þjálfað sig í að ná sem bestum árangri í t.d. stillingu hitakerfa. Þar geta menn viljandi gert mistök til að læra af því hvað gerist ef það kemur fyrir í raunveruleikanum.
Þar gæti verið þriggja hæða turn með margvíslegum frárennsliskerfum, öll rör gagnsæ svo hægt sé að sjá hvað gerist þegar vatnið rennur úr baðkerinu eða þegar sturtað er úr klósettinu. Þar gæti verið svæði þar sem nemar í pípulögnum lærðu að leggja frárennsliskerfi í grunn eða að leggja snjóbræðslurör. Þetta er mjög fátækleg upptalning af því sem í slíkri kennslustöð kann að verða því eitt er víst; Lagnakerfamiðstöð verður að veruleika. Þeir hópar sem standa að stofnun þessa kennslutækis koma víðs vegar að úr þjóðfélaginu. Í kjarnanum verður vonandi grasrótin, iðnaðarmennirnir, og ganga þar með í fótspor fyrirrennara sinna sem byggðu Iðnó fyrir einni öld og stofnuðu Iðnskólann í Reykjavík í upphafi aldar.
Þegar hugsað er til þessara stórvirkja ættum við nútíma iðnaðarmenn kannske ekki að hreykja okkur hátt af frumkvæði okkar í menntunarmálum, en vinna því betur að þeim í framtíðinni. Háskólarnir og Tækniskólinn, allir verkmenntaskólar og iðnskólar, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, Iðntæknistofnun, Samband ísl. sveitarfélaga eru meðal stofnaðila og Rannsóknarráð og menntamálaráðuneytið hafa heitið stuðningi. Lagnakerfamiðstöðin verður ekkert bákn í rekstri, þar mun starfa einn umsjónarmaður og einhver sér um ræstinguna. Þeir skólar sem nýta aðstöðuna senda eigin kennara með nemendum sínum, rannsóknarstofnanir senda rannsóknarmenn sína á vettvang.
Lagnakerfamiðstöðin verður í raun steindauð verkfærakista, hún vaknar til lífsins þegar gesti ber að garði, þeir fara síðan á braut með þá þekkingu sem þeir afla þar og koma henni á framfæri til allra þeirra sem á henni þurfa að halda. Hvar og hvernig? Kjarninn í þessu víðtæka samstarfi felur í sér mikla hagræðingu, það tryggir að aðeins ein slík kennslustöð verður byggð hér á landi og henni verður valinn staður á Keldnaholti í Reykjavík í námunda við rannsóknastofnanir sem þar eru. Með því er tryggt að stofnanir og skólar fara ekki hver fyrir sig að reyna að koma sér upp kennslutækjum, vélum og verkfærum til sömu kennslu, þannig yrði kröftunum dreift og allt yrði í skötulíki. Strax hefur komið fram sú spurning hvort þetta eigi að vera sjálfstæð eining, hversvegna hún verði ekki sett upp í skotinu hjá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins eða þá hjá Iðntæknistofnun.
Þessu er auðvelt að svara, sú breiða samstaða skóla, hagsmunaaðila og stofnana sem nauðsynlegt er að standi hér að baki, er einungis möguleg ef allir virða rétt annarra, til þess að þetta takist er höfuðatriði að enginn reyni að drottna yfir þessari kennslumiðstöð. Ef hún hefði verið sett í og undir stjórn einhvers skóla eða stofnunar hefði þróunin efalaust orðið sú að sá sem fékk Lagnakerfamiðstöðina í skotið hjá sér hefði einokað hana og þá er hætta á að aðrir hefðu dregið sig út úr samstarfinu. En málið er ekki enn endanlega í höfn, lokahnykkurinn er eftir og ekki er ástæða til að ætla annað en að hann takist vel. Til að svo verði þarf þó tvennt að vera tryggt; enginn má seilast til meiri áhrifa en annar í þessum stóra og mislita hópi sem að stofnuninni stendur og enginn má draga lappirnar í hálfvelgju, það er miklu ánægjulegra að taka þátt í getnaðinum en að sitja sem fúl yfirsetukona á rúmstokknum við fæðinguna. Ef það gerist ekki erum við að stíga spor í iðnsögu Íslands sem líkja má við það glæsilega framtak iðnaðarmanna í lok síðustu aldar er byggðu Iðnó og í byrjun þessarar aldar við stofnun Iðnskólans í Reykjavík.
LAGNAHEIMURINN er stór og allir sem þar starfa þurfa að auka þekkingu sína.