Skurðurinn mikli – Beijing-Hangzhou Grand Can
Grein/Linkur: Kínverski risaskurðurinn
Höfundur: Ketill Sigurjónsson
.
.
Ágúst 2009
Kínverski risaskurðurinn
Það er allt ofurlítið stærra í Kína en annars staðar. Um það þarf líklega ekki sérstök lýsingarorð. Einfaldlega stórt land og margt fólk.
En sumt það ótrúlegast við Kína er lítt umtalað. Meðal þess er Skurðurinn mikli – oft kallaður Beijing-Hangzhou Grand Canal. Þessi nærri 1.800 km langi skipaskurður tengir saman milljónahundruðin í norðanverðu og sunnanverðu Kína og hefur í 2.500 ár verið einhver mikilvægasta samgönguleiðin í landinu. Í dag heldur Orkubloggið á slóð þessa merkilega skurðar þarna óralangt í austri.
Flestar stórár Kína renna frá vestri til austurs. Skipaskurðurinn liggur aftur á móti norður/suður og tengir því saman allar helstu ár Kína.
Þessi samgönguleið hefur haft ómælda efnahagslega þýðingu fyrir Kína í gegnum aldirnar. Þó svo rekja megi elstu hluta skurðsins þúsundir ára aftur í tímann var stærstur hluti hans grafinn á áratugunum í kringum aldamótin 600. Þetta var á tímum Sui-keisaraættarinnar en þá áttu sér stað miklar umbætur í landbúnaði og koma þurfti afurðunum á áfangastað. Sagt er að litlar 5 milljónir verkamanna hafi unnið við skurðinn á tímabilinu ca. 580-620.
Og til að gera laaaanga sögu stutta, skal látið nægja að nefna að næstu aldirnar var talsvert miklu bætt við þetta magnaða skurðakerfi. Sem í dag hlýtur að teljast eitt af verfræðiundrum veraldarinnar og jafnast á við sjálfan Kínamúrinn. Orkubloggarinn hefur reyndar aldrei séð þessi mögnuðu fyrirbæri með eigin augum. En Marco Polo hreifst af skurðinum og þó einkum af hinum mörgu glæsilegum brúm þar yfir.
Já – Kínverjar hafa lengi kunnað þá list að leika sér með vatn. Byrjuðu fyrir þúsundum ára á þeim lipra leik að grafa skurð þvert yfir landið til að tengja landshlutana saman. Og í dag er það Þriggja gljúfra stíflan – stærsta vatnsorkuver heims sem nú rís í ánni Yangtze – sem er helsta táknmyndin fyrir snilli Kínverja í að nýta vatnið.
Allra mestu tækifærin í kínversku vatnssulli kunna þó að leynast í því að byggja upp nýjar og betri vatnsveitur í hinum hratt vaxandi stórborgum Kína. Vandamál sem skapast hafa vegna iðnaðaruppbyggingarinnar í Kína síðustu árin, hafa leitt til þess að kínversk stjórnvöld eru í stórum stíl að einkavæða vatnsveiturnar. Þarna í landi hins austræna kommúnisma eru evrópsk risafyrirtæki orðin stórtæk í einhverjum stærsta vatnsveitubransa veraldarinnar. Að reka vatnsveitur í Kína er sko engin sjoppubransi, heldur risavaxin viðskipti. Kannski meira um þau blautu en gríðarlega ábatasömu tækifæri í næstu færslu Orkubloggsins.