Golíat – Sækir svarta gullið, Barentshaf

Heimild:  

 

Febrúar 2015

Goliat-Oil-Platform_Sevan-1000-FPSO

Goliat-Oil-Platform_Sevan-1000-FPSO – SMELLA Á MYNDIR TIL AÐ STÆKKA

„Tíminn líður hratt á gervihnattaöld, hraðar sérhvern dag, hraðar sérhvert kvöld“. Söng Pálmi Gunnarsson hér í Den. Orkubloggarinn tekur undir þessi orð. Því það er líkt og gerst hafi í gær að bloggarinn fjallaði um upphafið að nýju olíuævintýri Norðmanna; olíuna lengst norður í Barentshafi.

Reyndin er þó sú að það eru liðin rúm sex ár síðan fjallað var um Golíat hér á Orkublogginu. Og nú er loksins komið að því að vinnslan hefjist. Því rétt í þessu var verið að koma risastórum olíuborpallinum fyrir á sérstökum ofurpramma austur í skipasmíðastöðinni Ulsan á suðausturströnd Suður-Kóreu. Og hefst nú æði löng sigling þarna frá skipasmíðastöð Hyundai allt suður fyrir Góðrarvonahöfða og svo norður eftir endilöngu Atlantshafi og allt norður í Barentshaf.

Þar, um 50 sjómílur norður af Hammerfest, verður pallurinn tjóðraður niður og byrjað að sækja svarta gullið úr djúpi ævafornra jarðlaga langt undir hafsbotninum. Hafdýpið á svæðinu er um 350-400 m, en sjálf olían liggur þar undir u.þ.b. 700-1.400 m undir hafsbotninum.

Goliat-FPSO-platform-and-wells-system

Goliat-FPSO-platform-and-wells-system

Þarna verður pallurinn tengdur flóknu kerfi borhola á sjálfum hafsbotninum. En Golíat-pallurinn er ekki aðeins fljótandi undrabor, heldur líka vinnslustöð (FPSO). Þetta er því gríðarleg fjárfesting – og því miður hefur þetta mikla verkefni verið þjakað of kostnaði og töfum. Kostnaðaráætlun hefur rokið úr um 4 milljörðum USD og í um 7 milljarða USD, sem nemur næstum 800 milljörðum ISK! Það er því eins gott að vinnslan skili dágóðum tekjum.

Pallurinn hefur vinnslugetu sem nemur um 100 þúsund tunnum á dag og með pláss fyrir hátt í milljón tunnur af olíu. Það má því gera ráð fyrir að olíuskip komi og tæmi herlegheitin af tönkunum á innan við tíu daga fresti. Vonandi að það gefi á sjó!

Það er ítalski olíurisinn Eni sem er stærsti hluthafinn í Golíat-verkefninu (65%), en norska Statoil er einnig með stóran hlut (35%). Þess er vænst að vinnslan standi yfir í um 15 ár eða svo. Og að alls muni Golíat skila nettum 174 milljónum tunna af olíu. Miðað við olíuverð upp á 50 USD/tunnu gerir það tæpa 9 milljarða USD í tekjur. Að teknu tilliti til fjármagnskostnaðar virðist því á tæpasta vaði að dæmið gangi upp. En olíuverð á sjálfsagt eftir að hækka – og það nógu mikið til að verkefnið skili viðeigandi arðsemi. Það er auðvitað mikilvægt til að Golíat verði góð tekjulind fyrir olíusjóð Norðmanna.

Goliat-FPSO-illustration

Goliat-FPSO-illustration

Þar að auki kunna að finnast meiri lindir þarna í nágrenninu sem unnt verður að nýta pallinn til að vinna. En mikið hlýtur það samt að vera svekkjandi fyrir Eni og Statoil að sjá olíuverð hrynja í sama mund og þetta hátækniundur nú siglir á áfangastað í Norðurhöfum. Og fyrirtækin eiga alla samúð Orkubloggsins í harðri samkeppni sinni við sogrörasötrið vestur í Bandaríkjunum. Því það er ekki annað en hægt að dást að Golíat, sem mun standa sem útvörður mannkyns þarna langt í norðri. Og bara að vona að hinn íslenski Fáfnir verði brátt ráðinn til að þjónusta Golíat.

Svo má bæta hér við einni skemmtilegri staðreynd. Olíulindin kennd við Golíat er nokkuð stór – þó svo þetta sé ekki risalind enda er orðið mjög sjaldgæft að slíkar finnist (þ.e. olíulindir sem skila jafnvel milljarði tunna af olíu). Á degi hverjum notar heimurinn nú um 90 milljónir tunna af olíu eða rúmlega það. Þegar hugsað er til þess að kostnaðurinn við það að sækja stöffið þarna úr djúpinu á þessu eina vinnslusvæði jafngildir um 800 milljörðum ISK er svolítið magnað að öll olían sem unnin verður á Golíat myndi einungis nægja heiminum í tæplega tvo sólarhringa.

Barentshaf

Fleira áhugavert: