Gorgon gasauðlindin – Kínverjar kaupa Ástralíugasið

Grein/Linkur: Kínverjar á orkuveiðum

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

.

Ágúst 2009

Kínverjar á orkuveiðum

Hvernig myndi Íslendingum líða í dag, ef Hafró hefði í vikunni birt lauflétta fréttatilkynningu um endurskoðað mat á stærð þorskstofnsins? Nánar tiltekið að líkur væru á að þorskstofninn hafi fram til þessa verið stórlega vanmetinn; um næstum 40 %. Það væri líklega tilefni til að skála í sosum eins og einum öl.

GAS-flames

GAS-flames

Tilefni þessara vangaveltna Orkubloggsins er að það birtist frétt um það vestur í Bandaríkjunum að gasbirgðir þar í jörðu séu að öllum líkindum 40% meiri en áætlað hefur verið. Þetta er enn eitt lóð á vogarskál þeirra sem ásamt Orkubloggaranum hafa talið að Bandaríkin standi þrátt fyrir allt nokkuð vel í orkumálum.

Þetta breytir því samt ekki að Bandaríkjamenn verða að huga vel að því hvaðan þeir eiga að fá olíu og gas í framtíðinni. Þeir kæra sig ekki um að lenda í sömu sporum og Evrópa – sem er orðin skuggalega háð gashrammi Rússa. Kínverjar og Indverjar eru líka meðvitaðir um mögulegan orkuvanda heimsins í framtíðinni. Jafnvel ennþá meðvitaðri en Bandaríkjamenn. Þess vegna fara þessi risastóru Asíuríki nú eins og eldur í sinu um heiminn í þeim tilgangi að tryggja sér yfirráð yfir orkulindum.

Þar hefur Kínverjunum orðið sérlega vel ágengt. Alkunnar eru t.d. fjárfestingar þeirra í olíulindum Angóla; þeim mikla olíuspútnik sem á örskömmum tíma er orðin annar stærsti olíuframleiðandi í Afríku. Og nú síðast voru Kínverjar að tryggja sér væna sneið af einhverri mestu gaslind í Suðurhöfum; nánar tiltekið gaslind utan við norðvesturströnd Ástralíu.

Hvorki Bandaríkin né Evrópa hafa sömu langtímahugsunina eins og kínversk stjórnvöld. Það hlægilegasta í þessu nýjasta dæmi suður í Ástralíu er kannski sú staðreynd að fyrirtækin sem munu næstu áratugina selja ástralska flotgasið (LNG) til Kína, eru öll með rætur í Bandaríkjunum og Evrópu.

Það verður íklega seint sagt að ShellChevron eða ExxonMobil  þjáist af sterkri föðurlandsást. Sá sem fær gasið sem þau vinna úr ástralska landgrunninu, er einfaldlega sá sem býður best. Með úttroðnar kistur af dollurum eiga kínversk stjórnvöld létt með að yfirbjóða allar aðrar þjóðir, nú í á tímum lánsfjárkreppu. Þess vegna hefur þetta vestræna olíuþríeyki nú samþykkt að selja Kínverjunum Ástralíugasið.

Gorgon gas project_map

Gorgon gas project_map

Ástralska gasið sem Kínaverjarnir voru að festa sér mun koma frá svæði sem kallað er Gorgon  og liggur undir hafsbotninum um 80 sjómílur utan við NV-strönd Ástralíu. Hafdýpið þarna er víðast einungis u.þ.b. 200 metrar en í reynd ná umræddar gaslindir yfir 2 þúsund ferkílómetra svæði og dýpið sumstaðar allt að 1.300 m. Í samanburði við Drekasvæðið er þetta þó hreinn barnaleikur.

Gasið verður svo leitt eftir pípum dágóðan spotta (50 sjómílur) til Barrow-eyjar, sem mun breytast í gasvinnslustöð. Þar á þessari 200 ferkm eyju sem liggur í nágrenni við Montebello-eyjarnar, þar sem Bretar stunduðu kjarnorkutilraunir sínar á 6. áratugnum, verður gasinu umbreytt í flotgas  (LNG; liqified natural gas). Þaðan verður gasið flutt með sérstökum tankskipum um langan veg til kaupendanna í Kína og fleiri ríkja í A-Asíu.

Gas_Australia_Peter_Garret

Gas_Australia_Peter_Garret

Það var 18. ágúst s.l. að hún Donna Faragher, umhverfisráðherra fylkisins Vestur-Ástralía, veitti endalegt leyfi fyrir gasstöðvunum á Barrow-eyju og nú virðast allar hindranir úr vegi fyrir þessari gríðarlegu fjárfestingu. Að vísu þarf umhverfisráðherra alríkisstjórnarinnar í Canberra, Peter nokkur Garret, einnig að blessa gjörninginn, en talið er víst að það muni gerast nokkuð ljúflega. Framkvæmdaaðilarnir eru jafnvel að gæla við að geta hafist handa á Barrow-eyju strax núna í september.

Gorgon-gaslindirnar vestur af sólbökuðum eyðimörkum Ástralíu eru kenndar við risann ógurlega; ófreskjuna með gullvængina sem sagt er frá í grísku goðafræðinni. Þarna eru sagðir liggja heilir 1.100 milljarðar teningsmetra af gasi. Sem er nokkuð mikið – t.d. fimm sinnum meira en norsku Mjallhvítarlindirnar eru sagðar hafa að geyma. Sem sagt mikið – mjög mikið af gasi.

LNG-framleiðslan á að komast í gang 2014 og ganga fyrir fullum afköstum næstu 40 árin. Þegar framleiðslan verður í hámarki á að verða unnt að framleiða 15 milljón tonn af LNG árlega, sem samsvarar u.þ.b. 20 milljörðum rúmmetra af gasi á dag (Mjallhvít hin norska mun framleiða hátt í 6 milljarða rúmmetra árlega).

PetroChina_Sign

PetroChina_Sign

Það er kínverski ríkisorkurisinn PetroChina  sem er nú búið að festa kaup á samtals rúmum fimmtungi af Gorgon-gasinu næstu 20 árin eða 3,25 milljónum tonna árlega. Seljendurnir eru áðurnefnd Chevron, Shell og ExxonMobil, sem hafa með höndum vinnslu á þessu geggjaða gassvæði. Nú eru horfur á að LNG sé sú orkuvinnsla sem mun vaxa hvað mest á næstu árum og áratugum. Það er aftur á móti óvíst að Vesturlönd fái mikið af þeim gasbita til sín. Sífellt meira er um það að Asíuþjóðir á borð við Kínverja, Indverja og Suður-Kóreumenn festi sér LNG áratugi fram í tímann.

Til marks um umfang Kínverja, þá er gassölusamningurinn vegna Gorgon hvorki meira né minna en stærsti samningur í ástralskri viðskiptasögu. Þessi risasamningur er til marks um það hvernig Kínverjarnir eru snillingar í að tryggja sér framtíðaraðgang að helstu auðlindum jarðar. Þar að auki gæti tímasetningin vart verið betri fyrir Kínverjana. Verð á gasi er í nefnilega djúpum skít þessa dagana. Af einhverjum dularfullum ástæðum hefur gasverð haldið áfram að lækka, þrátt fyrir verðhækkanir á olíu og aukna bjartsýni í efnahagsmálum.

LNG_ship_carrier

LNG_ship_carrier

M.ö.o. þá er gas einfaldlega á tombóluverði nú um stundir og Kínverjarnir með fullar hirslur af dollurum sjá sér leik á borði að kaupa nú upp gas langt fram í framtíðina. Enda veitir þeim ekki af. Búist er við að gasnotkun í Kína þrefaldist á næstu tíu árum. Í dag flytja Kínverjar inn um 6 milljón tonn af fljótandi gasi árlega og segjast ætla að auka þetta í 20 milljón tonn fyrir 2020. Þess vegna eru þeir nú í óða önn að tryggja sér aðgang að bæði gasi og olíu um veröld víða.

Hér heima á Klakanum góða er fólk eitthvað að rífast út af því að verið sé að selja útlendingum orkuauðlindir landsins. Það sorglega er að upphæðirnar sem þar er verið að tala um eru soddan tittlingaskítur. Í stað þess að vera að eyða tíma í þennan kanadíska Silfurref  frá Magma Energy og aurana sem hann þykist ætla að borga fyrir HS Orku, væri nær að gera þetta almennilega. Munum hvað Kínverjar eru hrifnir af drekum. Nú er barrrasta að nota tækifærið og einfaldlega selja þeim vinnsluréttindin á Drekasvæðinu.

Kronan_sekkur

Kronan_sekkur

Verðið fyrir Drekann íslenska? Til dæmis sama upphæð og Kínverjarnir borga fyrir ástralska gasið frá Gorgon-lindunum: 40 milljarðar dollara. Það eru rúmir 5 þúsund milljarðar ISK á druslugengi dagsins. Ætti að bjarga okkur yfir versta hjallann eftir dýrasta viðskiptaævintýri sögunnar.

En svo talað sé í fullri alvöru… Nú er verið að stíga fyrstu skref í þá átt að selja íslensku orkufyrirtækin til útlendinga. Orkublogginu líst reynda nokkuð vel á þennan mann að baki Magma Energy; Ross Beaty. En því miður er samt ekki ólíklegt að hér muni þjóðin vakna upp einn daginn við það að orkufyrirtækin hafi verið seld – á slikk. Stjórnmálamönnum á Íslandi virðist a.m.k. einkar lagið að búa illa um hnútana þegar kemur að sölu (einkavæðingu) mikilvægra opinberra fyrirtækja.

Fleira áhugavert: