Ghawar – Mikilvægasta olíulind veraldar
Grein/Linkur: Eldar í eyðimörkinni
Höfundur: Ketill Sigurjónsson
.
.
September 2019
Eldar í eyðimörkinni
Fyrir margt löngu söfnuðust upp umfangsmikil og þykk lífræn setlög á svæði þar sem nú liggja sandauðnir Saudi Arabíu. Á næstu tugmilljónum ára, þegar Himalayafjöllin fóru að rísa og fyrstu aparnir að spranga um jörðina, ummynduðust þessi niðurgröfnu setlög smám saman í fljótandi olíu. Enn liðu milljónir ára og til varð mannapinn og loks hinn viti borni maður. Sem eftir nokkra íhugun áttaði sig á því að þessi umræddi ólystugi dökki vökvi gat nýst sem afar öflugt eldsneyti. Og the rest is history!
Stærsta olíusvæði heimsins, Ghawar í Saudi Arabíu, var uppgötvað árið 1948. Olíuframleiðslan hófst nokkrum árum síðar og alla tíð síðan hefur Ghawar verið mikilvægasta olíulind veraldar, enda skilaði hún lengi vel um helmingnum af allri olíuframleiðslu Saudi Arabíu. Eftir að Sádarnir yfirtóku framleiðsluna úr höndum bandarísku ólíufyrirtækjanna á áttunda áratug liðinnar aldar, hefur Ghawar verið lang mikilvægasta uppsprettan að ofsalegum olíuauði yfirstéttar landsins.
Mikil leynd hvílir um alla tölfræði um olíuna í Ghawar, en til þessa hafa líklega verið sóttar þangað um 65 milljarðar tunna af olíu. Mögulega á eftir að sækja þangað annað eins magn, þ.a. Ghawar skili á endanum um 130 milljörðum tunna af olíu. Um þetta er þó veruleg óvissa og hafa sumir spáð því að framleiðslunni í Ghawar eigi eftir að hnigna hratt á næstu árum. Til samanburðar má nefna að öll olíuframleiðslan á öllu norska landgrunninu til þessa nemur nálægt 25 milljörðum tunna.
Þetta umtalaða olíusvæði í Saudi Arabíu er ekki aðeins mikilvægasta tekjulind landsins, heldur afar þýðingarmikið fyrir efnahagslíf heimsins alls og verður það sennilega lengi enn. Og einmitt þess vegna fór um marga þegar drónaárás var gerð á vinnslustöðvar í Ghawar nú um liðna helgi og stór hluti framleiðslunnar stöðvaðist eða a.m.k. varð fyrir skakkaföllum.
Samhliða því að gengið hefur á olíuna í Ghawar hafa Sádarnir ráðist í fleiri umfangsmikil ólíuverkefni. Eitt það allra stærsta er einmitt í nágrenni Ghawar og nefnist það Khurais. Einnig þar var gerð drónaárás um helgina, sem mun þó hafa valdið litlu tjóni og ekki stórvægilegum truflunum á vinnslunni. Rétt eins og Ghawar er Khurais mikilvægt svæði fyrir efnahagslíf veraldarinnar. Því Khurais er ein af stærstu risalindum heimsins með um 20 milljarða tunna af vinnanlegri olíu.
Frá Ghawar og Khurais kemur um 50% af allri olíuvinnslu Sádanna og þessi tvö svæði skila um 5% af allri olíuvinnslu í heiminum. Það munar um minna og ekkert annað en stórkostlegt áfall fyrir efnahagslíf heimsins ef öll þessi olía hverfur af markaðnum í lengri tíma. Enda er líklega hvergi jafn umfangsmikil öryggisgæsla um neinn atvinnurekstur í heiminum. Það er blautur draumur hryðjuverkamanna að skaða rekstur af þessu tagi og ekkert nýtt að reynt sé að ráðast á svæðið.
Einmitt vegna þeirrar staðreyndar að þessi vinnslusvæði standa sífellt frammi fyrir hryðjuverkaógn, hafa Sádarnir komið sér upp verulegum varabirgðum af olíu til að mæta mögulegum og skyndilegum áföllum af þessu tagi. Þar að auki hafa þeir möguleika til að auka framleiðslu á öðrum vinnslusvæðum sínum án mikils fyrirvara. Tímabundin vandræði við Ghawar eru því ekki endilega ávísun á olíuskort.
Miðað við þróun olíuverðs virðist sem flestir sem höndla með olíu geri ráð fyrir að Sádarnir kippi vinnslunni í liðinn nokkuð fljótt og örugglega. Sem er eins gott, því tryggur aðgangur að gnægð olíuafurða er einn allra mikilvægasti drifkraftur efnahagslífsins víðast hvar um heiminn. Um leið átta vonandi æ fleiri sig á því, að afar mikilvægt er að við drögum úr ægivaldi olíunnar og vinnum að metnaði að því að auka hlutfall endurnýjanlegrar orku!