Bab el Mandeb sundið – Tárahliðið

Grein/Linkur: Tárahliðið

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

Mynd – googlemaps.com 14.03.2023

.

Tárahliðið

Bab el-Mandeb_map

Bab el-Mandeb_map

Like some ill-destined bark that steers

In silence through the Gate of Tears
Þannig orti írska skáldið Thomas Moore fyrir um tveimur öldum síðan. Í tragíska ástarkvæðinu Fire Worshippers, um ungu elskendurna Hafed og hina fögru Hindu.
Í dag ætlar Orkubloggið að ímynda sér að bloggið sé nýkomið í gegnum Tárahliðið. Sundið sem tengir Adenflóa og Rauðahaf – og skilur að Arabíuskagann og austurhorn Afríku. Á frummálinu – arabísku – heitir sundið Bab el-Mandeb.
Við getum líka ímyndað okkur að farkosturinn sé íslenska olíuskipið Svartifoss. Og nú er tilefni til að þakka sínum sæla fyrir að sjóræningjarnir á Adenflóa náðu hvorki okkur né þessu nýja stolti íslenska íslenska skipaflotans. Frá Tárahliðinu er siglt áfram norð-norðvestur eftir Rauðahafinu og að Súez-skurðinum.
Arabia_hormuz_map

Arabia_hormuz_map

Svartifoss gæti verið eitt af hinum fjölmörgu olíuskipum, sem flytja svarta gullið frá framleiðslulöndunum við Persaflóa, til okkar vesalinganna á Vesturlöndum.
Meira en helming af öllum olíubirgðum heimsins er að finna hjá Persaflóa-ríkjunum. Í dag framleiða þessi sólbökuðu ríki eyðimerkurinnar um þriðjung allrar olíu í heiminum – u.þ.b. 28 milljón tunnur á dag. Þar á meðal eru Írak, Saudi-Arabía, Kuwait og ríkin innan Sameinuðu Arabísku furstadæmanna. Og Íran.
Hluti af þessari gríðarlegu olíu er auðvitað nýttur af bæði Persunum og Arabaríkjunum sjálfum. Og hluti hennar er fluttur með miklum olíuleiðslum til viðskiptavina í nágrenninu. En stærsta sneiðin fer um borð í olíuskip, sem svo sigla með fullfermi suður Persaflóann og út um Hormuz-sund, áleiðis til síþyrstra Bandaríkjamanna, Evrópubúa, Japana og annarra landa út um víða veröld.
Sirius-Star-tanker

Sirius-Star-tanker

Út um sundið góða – Hormuz – er daglega siglt með u.þ.b. 17 miljón tunnur af olíu á degi hverjum (þetta magn er auðvitað breytilegt eftir eftirspurninni hverju sinni og er talan líklega eitthvað minni í dag). Þetta samsvarar um 20% af allri olíunotkun heimsins og gróflega 40% af öllum olíuviðskiptum milli ríkja.
Flest tankskipin eru gríðarlega stór og á venjulegum degi eru það ca. 15 olíutankskip sem fara um Hormuz-sund. Þar að auki fer allt fljótandi gas frá Qatar einnig með skipum þarna um sundið – en Qatar er einmitt stærsti LNG-útflytjandi heims.
Það sem Orkubloggið er að reyna að segja: Hormuz-sund er einfaldlega þýðingamesta siglingaleiðin á okkur dögum. Nefna mætti að Japanir fá 75% af allri sinni olíu um þessa siglingaleið. Þannig er veröldin í reynd háð því að olíuskip eigi greiða leið um þetta tæplega 30 sjómílna breiða sund, þar sem íranskir byssubátar og bandarísk herskip kýtast reglulega. Og allt getur farið í háaloft hvenær sem er.
oil_tanker_2

oil_tanker

Um Hormuz-sund liggur líka aðalflutningaleiðin með hergögn til bandaríska hersins í Írak. M.ö.o. þá er þetta þrönga sund þarna milli Arabíu og Íran ekki beint rólegasti staðurinn á bláa hnettinum.
Flest þeirra olíuskipa sem koma frá Hormuz, sveigja fljótlega hart í bak – með stefnu í átt til A-Asíu. Engu að síður tekur um fimmtungur skipanna stefnuna til Evrópu og austurstrandar Bandaríkjanna – með laufléttri beygju á stjórnborða.
Þau allra stærstu sigla suður fyrir Góðravonarhöfða. En öll þau olíutankskip sem geta troðið sér gegnum Súez-skurðinn – skip í s.k. Suezmax stærðarflokki – taka nokkuð krappari beygju í átt að Rauðahafi. Og sigla sem leið liggur frá Hormuz, meðfram ströndum Oman og Jemen, inn á hinn alræmda Adenflóa og í átt að Tárahliðinu – innganginum að Rauðahafi. Og þaðan í gegnum Súez-skurðinn. Þar í gegn fara nú um 3,3 milljónir tunna af olíu daglega.
Þar að auki er sífellt að aukast olíudæling frá stórum olíuskipum í gegnum olíuleiðsluna sem liggur frá suðurenda Súez og norður að Sidi Kerir-höfninni við Alexandríu í Egyptalandi. Á strönd Miðjarðarhafsins. Það gæti þýtt enn meiri umferð risatankskipa inn á Rauðahaf.

pirate_flag

En áður en skipin komast að Tárahliðinu og inn á Rauðahaf, þurfa áhafnir þeirra að horfast í augu við
nýjasta vandamálið á höfunum. Sem eru snarbrjálaðir sjóræningjar frá anarkíinu í Sómalíu. Þeir hafa gert Adenflóa að leikvelli Svartskeggja nútímans.
Lengi vel var Rauðahafið vissulega ekki beint rólegasta hafsvæði heims. En nú er það nánast orðið griðastaður. Því eftir að skip eru komin í gegnum Tárahliðið getur áhöfnin andað léttar. Sloppnir frá ströndum Sómalíu og skrílnum á Adenflóa.
Sómölsku sjóræningjana hafa reyndar verið að færa sig duglega upp á skaftið og herja nú líka á skip sem fara suðurleiðina – eru farnir að ráðast á skip á úthafinu fleiri hundruð sjómílur austur af Sómalíu og Kenía. Nú síðast náðu þeir þar risaolíuskipinu Sirius Star, sem sagt hefur verið frá í fréttum síðustu dagana. Það er í s.k. VLCC-flokki olíuskipa; Very Large Crude Carriers. Sem á mannamáli merkir að þetta er mjög stórt olíuskip og farmurinn allt að 2 milljón tunnur af olíu. En í dag ætlar Orkubloggið ekki að spá í stærð olíuskipa, heldur halda sig við Tárahliðið.
sheikh_tarek_mohammad_bin_laden

heikh_tarek_mohammad_bin_laden

Það er reyndar alls ekki fyrst nú, á tímum olíuflutninga, sem Tárahliðið gegnir stórmerkilegu hlutverki. Það er nefnilega af mörgum talið hafa verið sú leið sem mannkynið fór frá Afríku fyrir svona 50-60 þúsund árum – og þar hafi jafnvel einungis verið á ferðinni um 150 einstaklingar. Þaðan hafi mannkynið dreifst smám saman um jörðina alla og við öll komin af þessum fámenna flokki afrískra sjófarenda. En líklega er Kári Stefánsson betur til þess fallin að útskýra tilurð þessarar kenningar, en Orkubloggið.
Tárahliðið er aðeins 14 sjómílur að breidd (25 km ) – og var enn mjórra fyrir 50 þúsund árum, þegar sjávarstæða var lægri en nú. Og nú er þetta sögulega sund enn og aftur í fókus. Stutt er síðan vellauðugur Sádi lýst því yfir að hann hyggist reisa brú yfir sundið, þarna á milli Jemen og Djibúti. Sá snillingur heitir Sjeik Tarek Mohammad Bin Laden og er vel þekktur kaupsýslumaður í Saudi Arabíu. Svo skemmtilega vill til að hann á hálfbróður sem heitir Osama Bin Laden. Já – þetta er lítill heimur. Sem því miður er samt ekki alltaf auðvelt að brúa.
Al Noor Cities

Al Noor Cities

En ljúflingurinn Tarek Bin Laden er hvergi banginn. Brúin yfir sundið góða er aðeins smáflís í miklu stærri áætlun, sem hann er að ýta af stokkunum þarna á Afríkuhorninu. Sitt hvoru megin brúarinnar yfir Tárahliðið á nefnilega að rísa ný stórborg; Al Noor Cities.
Þetta er verkefni upp á litla 200 milljarða dollara og meiningin er að Al Noor muni í framtíðinni keppa við borgir eins og London og New York. Alltaf metnaður í gangi hjá Bin Laden fjölskyldunni.
En hverjir skyldu eiga að hanna þetta mikla samgöngumannvirki yfir Bab el-Mandeb sundið? Því miður ekki íslenska verkfræðistofan Mannvit né aðrir Íslendingar – heldir eru það frændur okkar Danir sem fengu það þetta verkefni.
Nánar tiltekið „barn“ þeirra dönsku verkfræðinganna Christen Ostenfeld og Wriborg Jönson. Danska verkfræðifyrirtækið COWI. Það er óneitanlega athyglisvert að COWI var stofnað 1930 – rétt í þann mund að heimskreppan var skollin á. Hin nýstofnaða verkfræðiskrifstofa lognaðist þó ekki aldeilis útaf við fæðingu – er nú með starfsemi um allan heim. Og verður fyrir valinu til að hanna geggjaða framkvæmd eins og Al Noor brúna. Danir eru seigir.
Ostenfeld

Ostenfeld

Eins og gildir um svo mörg af öflugustu fyrirtækjum í Danmörku er COWI nú að mestu leyti í eigu sjálfseignastofnunar (COWI-sjóðsins). Sem er þvert á öll lögmál kapítalismans um velgengni fyrirtæka. Af einhverjum ástæðum virðist þetta undarlega danska viðskiptamódel fúnkera hreint prýðilega!
En aftur að Bin Laden og félögum. Bin Ladenarnir er ein af auðugustu fjölskyldunum í Saudi Arabíu. Líklega eiga þessar stórhuga byggingaáætlanir Tarek's Bin Laden þarna í Jemen og Djibútí, rætur að rekja til þess að hann á einmitt ættir að rekja til Jemen. Þeir hálfbræðurnir Tarek og Osama (samfeðra) munu eiga um eða yfir 50 systkini og eru börnin sögð fædd af 22 mæðrum.
Saudi Bin Laden Group logo

Saudi Bin Laden Group logo

Auður fjölskyldunnar er risastór bygginga- og iðnaðarsamsteypa; Saudi Bin Laden Group. Það var fjölskyldufaðirinn, sjeikinn Mohammed Bin Awad Bin Laden, sem byggði upp þetta risafyrirtæki. Hann fæddist í Jemen 1908, en fór barn að aldri yfir til Saudi Arabíu. Örlögin höguðu því þannig að þessi fátæki Jemeni varð náinn vinur og samstarfsmaður Abdul Aziz Al-Saud.
RooseveltArabia

RooseveltArabia

Ef nafnið Abdul Aziz Al-Saud klingir ekki bjöllum hjá einhverjum lesenda, hefur viðkomandi ekki lesið eldri færslur Orkubloggsins nógu vel!
Þetta var nefnilega maðurinn sem stofnaði nútímaríkið Saudi Arabíu og varð fyrsti konungurinn þar í landi. Maðurinn sem fundaði með fársjúkum Roosevelt á Jaltaráðstefnunni 1945, þegar sá snjalli forseti Bandaríkjanna tryggði landinu sínu aðgang að einhverjum mestu olíuauðlindum heims. Á meðan þeir Stalín og Churchill voru á barnum og stóðu í þeirri misskildu trú að þeir væru aðalgæjarnir.
Bush_Abdulla_2005

Bush_Abdulla_2005

Núverandi konungur Sádanna er einmitt sonur Abdul Aziz Al-Saud. Og enn er mjög spes samband milli æðstu ráðamanna þessara tveggja ríkja; Bandaríkjanna og Saudi-Arabíu (núverandi konungur Sádanna, sem sést hér á myndinni með Bush, heitir Abdullah Bin Abdul Aziz Al-Saud).
Það var ekki amalegt fyrir höfuð Bin Laden fjölskyldunnar að verða góðvinur konungs Sádanna. Einmitt um það leyti sem hinar gríðarlegu olíuauðlindir landsins uppgötvuðust á fjórða áratug liðinnar aldar. Mohammed Bin Awad Bin Laden, fékk gríðarlega verktakasamninga upp á milljarða dollara, um uppbyggingu á moskum og ýmsum öðrum byggingum í landinu. Fyrir vikið auðgaðist hann gríðarlega. Góður peningur í trúar-bissnesinum þarna í Arabíu.
Sheikh Mohammed bin Awad bin Laden

Sheikh Mohammed bin Awad bin Laden

Þessi goðsögn frá Jemen, faðir þeirra Osama og Tarek Bin Laden, er sagður hafa látist í flugslysi seint á sjöunda áratugnum. Í dag er fjölskyldufyrirtækið einkum þekkt fyrir að koma að bæði skipulagningu og byggingu risavaxinna mannvirkja, bæði fasteigna og samgöngumannvirkja eins og flugvalla og járnbrauta. Við ættum kannski að fá Saudi Bin Laden Group til að sjá um Vatnsmýrarsvæðið? A.m.k. yrði þá væntanlega minni hætta á að allt fari á sama veg og Tónlistarhúsið hjá Portus og Nýsi. Sic.
————————————
thomas-moore

thomas-moore

Já – menn skulu muna að saga þjóðanna á Arabíuskaganum er stórmerk. Og ætti auðvitað að vera námsefni á Orkumálabraut Háskóla Íslands. Sem er reyndar ekki til. Það þykir Orkublogginu þyngra en tárum taki.
PS: Ljóðlínurnar hér efst eru úr bókinni „Lalla Rookhan Oriental Romance“, sem kom út árið 1817. Eftir írska ljóðskáldið, rithöfundinn og söngvaskáldið Thomas Moore (1779-1852).

Fleira áhugavert: