Írak, Vestur Qurna – Risaolíulindir

Grein/Linkur: Paradís á Jörðu?

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

Mynd – geoexpro.com 10.02.2022

.

September 2009

Paradís á Jörðu?

Tree_of_Knowledge

Tree_of_Knowledge

Þar sem hin fornfrægu fljót Efrat og Tígris mætast má kallast vagga menningarinnar. Enda hafa verið uppi kenningar um að sjálfur Edensgarður hafi legið á þeim slóðum þar sem fljótin tvö mynda Shatt al-Arab, sem nú skilur að fjandvinina í Írak og Íran.

Þó svo langt sé um liðið síðan kviknakin Eva teygði sig eftir eplinu af Skilningstré góðs og ills í þessum þá dásamlega Paradísarreit, býr svæðið ennþá yfir mikilli og sérstakri fegurð. Nei – ekki af því að þarna á bökkum fljótsins sprangi gjafvaxta stúlkur um á Evuklæðum. Það ku vera löngu liðin tíð. Í dag er þetta svæði betur þekkt sem vettvangur hinna grimmilegu stríðsátaka Írans og Íraks í Persaflóastríðinu fyrra

Nútímafegurð svæðisins lýsir sér aftur á móti í því að í augum olíuspekúlanta er þarna hugsanlega að finna Paradís á Jörðu. Þarna undir liggja nefnilega einhverjar mestu peningauppsprettur framtíðarinnar. Olíulindirnar kenndar við Vestur-Qurna.

Shatt-al_Arab_map

Shatt-al_Arab_map

Olíulindirnar við Qurna draga nafn sitt af samnefndu þorpi þarna í sunnanverðu Írak – ekki langt frá hinni umtöluðu Basra, sem við heyrum svo oft um í fréttunum. Þó svo lindirnar í Vestur-Qurna séu ekki stærstu olíulindirnar í Írak eru þær með þeim stærstu. Þar er talið að unnt sé að vinna 10-15 milljarða tunna af olíu og að dagsframleiðslan geti náð allt að 1 milljón tunna á dag.

Þetta eru vel að merkja sannreyndar birgðir (proven reserves). Og magnið slagar hátt í helminginn af allri olíuframleiðslu Norðmanna og er tíundi hluti þess sem Sádarnir gætu framleitt með því að setja allt í botn. Vestur-Qurna hefur sem sagt að geyma einhverjar mikilvægustu olíulindir heimsins.

Nú í sumar gafst öllum helstu olíufélögum heimsins kostur á að bjóða í risaolíulindirnar í Vestur-Qurna. Í einhverju stærsta olíuútboði sem nokkru sinni hefur farið fram – ef ekki einfaldlega það allra stærsta. Niðurstaðan lá fyrir nýlega og mönnum til mikillar furðu voru öll tilboðin í Vestur-Qurna svo lág að þeim var einfaldlega hafnað af íraska olíumálaráðuneytinu.

iraq_Oil_West-Qurna

iraq_Oil_West-Qurna

Því miður voru Chevron, ExxonMobil og aðrir olíurisar heimsins sem sagt samstíga í því að bjóða skít og kanil í svörtu jarðeplin í Eden. Og var þess vegna hent út úr Edensgarði – í bili. Líka gaman að geta þess að meðal þeirra sem höfðu mikinn áhuga á að komast yfir olíuna í Vestur-Qurna voru frændur okkar hjá Mærsk og Statoil. Þau Skandínavísku félög mynduðu hóp með spænska Repsol og vildu komast í þessa milljarða tunna gegn því að Írakarnir greiddu þeim tæpa 20 dollara fyrir tunnuna.

Það þætti kannski mörgum prýðilegur díll fyrir írösku þjóðina nú þegar olíuverð er langt yfir 60 dollara tunnan og sumir spá því yfir 100 dollara innan skamms. Írösk stjórnvöld vildu aftur á móti einungis borga tunnugjald upp á 1,9 dollara!  Þarna á milli Norðurlandabúanna og Írakanna var sem sagt himinn og haf. Og enn hefur enginn náð samningum við Írak um aðgang að megalindunum í Vestur-Quarna. Það er sem sagt laust herbergi í Paradís. Og Freistarinn líklega ennþá á ferli þar í nágrenninu.

Fleira áhugavert: