Framtíðareldsneyti – Okkar eigin orka
Grein/Linkur: Fjármunir til rannsókna á hitaveitum
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
.
Júlí 2008
Hvert verður framtíðareldsneyti bíla hérlendis?
Það er olíukreppa í heiminum og verð á olíu hefur náð hæðum sem engan óraði fyrir að gæti orðið staðreynd. En svona er þetta, heimsmarkaðsverðið er komið upp úr öllu valdi og trukkastjórar allra landa efna til óláta og heimta lægra olíuverð. Meira að segja hér á landi hafa orðið til lukkuriddarar sem hefja sig upp á þeirri baráttu og auðvitað láta Frakkar ekki sitt eftir liggja frekar en endranær þegar mótmæla skal einhverju.
En á meðan sitjum við á okkar heimilum við birtu og yl gjörsamlega óháð því sem er að gerast úti í heimi, eigin orkulindir eru okkar bjargvættur og verða það um langa framtíð ef íslenska afturhaldinu tekst ekki að koma í veg fyrir að nokkur spræna verði virkjuð eða gufuaflið nýtt.
En það þýðir lítið að væla í stjórnvöldum um að lækka olíuverðið, það eru önnur og sterkari öfl sem ráða ferðinni þar. Og þeir sem nánast hafa sligað efnahagslífið með gengdarlausri eyðslu í alls kyns óþarfa og skapað gífurlegan viðskiptahalla gagnvart útlöndum á undanförnum árum sitja nú margir með sárt ennið. Ekki síst þeir sem skelltu sér á ofurjeppa og skúffubíla til að koma börnunum í leikskólann og sér í vinnuna, tankurinn heimtar alltaf meira og meira af verðlitlum krónum, en forsætisráðherra segir að íslenska krónan sé svo einstaklega þægileg og lipur til að hafa í veskinu.
Það hafa verið gerðar miklar tilraunir með vetni, vetnisknúnir strætisvagnar hafa verið á götum Reykjavíkurborgar, vetnisstöð hefur verið sett upp til að þjónusta slíka bíla og vetni hefur verið framleitt hérlendis. En nú hefur vetnisröddin hljóðnað og það er vel, vetni væri slæmt val. Að framleiða vetni með rafmagni er óhagkvæmt, nýting raforku til þeirrar framleiðslu er slæm, gleymum vetninu.
En nú hefur iðnaðarráðherra verið snöggur að velja framtíðareldsneytið og látið boð um það út ganga. Það skal verða metan og hann boðar að í samvinnu við dreifendur og seljendur bílaeldsneytis verði settar upp metanstöðvar vítt og breytt um landið. Kannski verða komin hér fjögur metanfélög sem öll eiga sínar dreifingarstöðvar í hverjum firði eins og olíufélögin eiga í dag.
En nú er full ástæða til að segja; iðnaðarráðherra; ekki meir, ekki meir, farðu þér hægt, er metan rétt val, eigum við ekki betri kost?
Það eigum við svo sannarlega. það er orka sem krefst ekki að sett sé upp nýtt dreifikerfi, dreifikerfið er þegar til.
Það er okkar eigin orka, raforkan sem við framleiðum nú þegar í okkar vatns- og gufuaflsvirkjunum, orka sem er til á hverjum stað og meira að segja á hverju heimili.
Nú þegar hefur orðið mikil þróun í framleiðslu á svonefndum tvinnbílum, sem bæði nota olíuorku og raforku. Ekki er nokkur vafi á því að þessi þróun heldur áfram, bílar sem aðeins nota raforku eru þegar til og þeir eru í hraðri þróun. Það sem aðallega hefur staðið rafbílnum fyrir þrifum eru rafgeymarnir. Það hefur orðið ótrúlega lítil framþróun í rafgeyminum frá því Ford smíðaði fyrsta bílinn í sinni verksmiðju. En því fleiri sem veðja á raforku sem framtíðarorkugjafa ökutækja á landi því hraðari verður þróun alls búnaðar þar að lútandi, þá mun rafgeymirinn taka stórstígum framförum ef sú þróun er ekki þegar orðin.