Átöppun á flöskur, sagan – Vatn á heimsminjaskrá, ósætti
Grein/Linkur: Ósátt við átöppun úr stöðuvötnum á heimsminjaskrá
Höfundur: Morgunblaðið
.
.
Mars 2017
Ósátt við átöppun úr stöðuvötnum á heimsminjaskrá
Áætlanir fyrirtækis nokkurs á Nýja-Sjálandi, um að leggja leiðslu úr stöðuvötnunum sem eru á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna og setja á flöskur og selja um heim allan, vekur mikla óánægju hjá heimamönnum og umhverfisverndarsamtökum.
Stöðuvötnin Greaney og Minim Mere eru bæði á heimsminjaskrá og er vatnstakan sögð ekkert annað en arðrán á náttúruauðlindum, enda greiðir fyrirtækið Alpine Pure lítið sem ekkert fyrir flutninginn á vatninu að sögn fréttavefjar Guardian.
Er þess nú krafist að framkvæmdirnar verði stöðvaðar, en vatnsflutningurinn hefur leitt til herferðar vegna meðferðar vatnsauðlinda á Nýja-Sjálandi.
Alpine Pure vill flytja 800 lítra á mánuði af „ónýttu“ jökulvatni sem rennur í stöðuvötnin Greaney og Minim Mere. Fyrirtækið ætlar að flytja vatnið, sem það segir „ósnert af manninum“, um 20 km leið eftir leiðslum til Jackson Bay á vesturströnd Nýja-Sjálands. Þaðan á svo að flytja það um borð í tankskip og áfram til Kína, Indlands og Mið-Austurlanda.
Fyrirtækið hefur þegar fengið leyfi til að vinna vatnið og er nú að reyna að fá samþykki sveitarfélagsins fyrir línunni.
Verið að gefa náttúruauðlind á meðan dregur úr vatnsforðanum
Umhverfisverndarsamtök hafa hins vegar hvatt ríkisstjórnina til að grípa inn í og vernda vatnsauðlindir landsins, þótt Alpine Pure fullyrði að fyrirtækið taki aðeins brot af því vatni sem fari í vötnin úr fjöllunum fyrir ofan.
„Þessi hugmynd hefur vakið mikinn áhuga erlendra fyrirtækja,“ hefur Guardian eftir Bruce Nisbet, framkvæmdastjóra Alpine Pure. „Ósnert vatn hefur fallið úr Suður-Ölpunum í milljónir ára og venjulega hefði það farið til spillis með því að renna beint til sjávar. Magnið sem við tökum er mjög lítið.“
Umhverfisverndarsamtök vara hins vegar við því að þarna sé verið að gefa eina dýrmætustu náttúruauðlind landsins og það á tímum þegar dregur úr vatnsforða heima fyrir vegna mengunar.
Umræðan kemur á sama tíma og reiði vex yfir því að alþjóðleg stórfyrirtæki á borð við Coca Cola séu að dæla vatni úr lindum neðanjarðar fyrir smáaura.
.