Eirlagnir, kopar – Löng reynsla

Grein/Linkur:  Löng reynsla af eirlögnum

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

.

Nóvember 1993

Löng reynsla af eirlögnum 

Sú skemmtilega og ágæta árátta okkar að taka ekki upp erlend orð heldur finna íslensk í þeirra stað virðist ekki vera ný af nálinni. Hver ætli hafi fundið upp orðið eir yfir málm sem í öllum löndum heitir kopar? Og hver skyldi hafa fundið upp á því að kalla málminn messíng kopar?

Þetta látum við málfræðingum eftir og höldum áfram að kalla koparinn eir.

Vonandi hefur enginn ruglast í þessum stutta inngangi.

Eirlagnir finnast víða

Um leið og bíllinn kom til landsins komu eirlagnir. Bensínrörið, glussarörið og fleiri lagnir í bílum voru og eru enn úr eir.

Það er ekki fyrr en um 1960 sem eiröldin byrjaði í hitaog vatnslögnum í húsum og þá því miður of geyst.

Það hefur viljað loða við okkur hérlendis að taka mörgum efnum, ekki síst í byggingariðnaði, sem einhvers konar kraftaverkaefnum, sem mætti bjóða hvað sem er. Það gerðist einmitt með eirinn á þessum árum. Allir töldu sig vita hvernig ætti að meðhöndla efnið, bæði lærðir og leikir. Afleiðingarnar urðu margskonar mistök.

Þá var að finna sökudólginn. Auðvitað var það eirinn, efnið sjálft, en í fæstum tilfellum var það svo.

Í flestum tilfellum var þetta sem á fínu máli kallast „mannleg mistök“.

Eirinn er kominn aftur

Sem betur fer er eirinn orðinn algengt lagnefni og vonandi eru menn nú reynslunni ríkari.

Hvorki er hér staður né stund að rekja ítarlega hverjar orsakir voru fyrir óhöppum þessa tíma. En nefna má að taka þarf tillit til þenslu málmsins; samsetningu (lóðningu) þarf að vanda og nota rétt efni og ekki má gleyma þeim eiginleika eirsins að mynda eigin varnarhimnu. Vatnshraði í eirlögnum má aldrei verða slíkur að hann geti skaðað þessa himnu.

Hérlendis eru fáanleg eirrör til allra almennra lagna í húsum ásamt fjölbreyttu úrvali af tengjum. Algengasta aðferðin við eirlagnir er að lóða saman tengi og rör.

Nefnum hér þrjár aðferðir; með tini eingöngu, með tini sem er blandað með silfri (5%) og með eir sem er blandaður fosfór (8%).

Við lóðningu gilda þrjú aðallögmál; hreinlæti, hreinlæti og aftur hreinlæti.

Eirrör eru ótvírætt mjög góður kostur þegar um endurlagnir í eldri hús er að ræða.

En þau eru ekki síðri í nýlagnir.

Fleira áhugavert: